20.04.1977
Sameinað þing: 78. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 3381 í B-deild Alþingistíðinda. (2386)

220. mál, skipulagsskrá fyrir Þjóðhátíðarsjóð

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Hinn 14. des. s.l. fóru fram umr. hér í Sþ. utan dagskrár einmitt af tilefni sem upp kom 10. des. s.l., en þá bauð bankastjórn Seðlabankans til fagnaðar í tilefni þess, að stjórn Seðlabanka Íslands hafði þá ákveðið að stofnaður skyldi sjóður með þeim hagnaði sem varð af sölu Þjóðhátíðarmyntar. Í þessum umr. var nokkuð gagnrýnt að svona skyldi að málum staðið. Hér var og er eitt dæm­ið um það, að það eru aðilar utan Alþ. sem í raun og veru taka ákvarðanir sem Alþ. ber að taka. Ef ég man rétt, þá kom það fram bæði hjá hæstv. viðskrh. og hæstv. forsrh. í þessum umr., að hér væri nú síður en svo um það að ræða að Alþ. stæði frammi fyrir gerðum hlut, þetta yrði nú lagt lagt fyrir Alþ. á sínum tíma. Það mátti jafnvel skilja það svo, að það væri hugsanlegt að ekkert yrði haft með þessar hug­myndir eða till. seðlabankastjórnar og því mætti fastlega gera ráð fyrir því, að önnur veisla yrði haldin til þess að afsegja þessar hugmyndir í því formi sem stjórn Seðlabanka Íslands lagði þær fram.

Þetta hefur auðvitað ekki gerst. Þarna var í raun og veru búið að taka ákvarðanir, búið að binda hendur Alþ. með ákvarðanatöku innan stjórnar Seðlabankans, auðvitað í góðu samstarfi við hæstv. ráðh.

Þetta er kannske ekki stórmál í þessu sambandi. En þetta er eitt af þeim dæmum sem benda hvað skýrast á það, að embættismannakerfið í landinu er alltaf að seilast lengra og lengra inn á það svið sem Alþ. ber að hafa í sinni forsjá. Það gerist æ oftar og í æ ríkara mæli að embættismannakerfið í landinu, hinar og þess­ar stofnanir eru farnar að taka ákvarðanir, —ákvarðanir sem Alþ. eitt á að taka. Og ef fram heldur sem horfir og ef þm. almennt skera ekki upp herör við háttarlagi af þessu tagi, þá líður ekki langur tími þar til. Alþ. í raun og veru verður kannske óþarfastofnun, allt vald verður falið embættismannakerfinu í landinu og ástæðulaust að hafa starfandi þjóðþing til þess eins að leggja blessun sína yfir ákvarðanatöku hinna og þess­ara stofnana eftir dúk og disk. Þetta er meginspurningin í sambandi við þetta. Það er hvernig að þessu máli hefur verið staðið. Í mínum huga er það ekkert meginatriði hvort þessum fjár­munum verður ráðstafað á þann hátt, sem nú liggur fyrir í tillöguformi frá hæstv. ríkisstj., eða hvort það verður gert á þann hatt, sem hér hefur verið boðað í brtt. Ég vil þó segja það sem mína skoðun, að ég teldi eðlilegra að öllu þessu fjármagni hefði verið varið til byggingar Þjóðarbókhlöðu, öllum þessum 300 millj. Ég hefði talið það æskilegra og hefði léð því stuðning minn. Ég skal jafnframt taka það fram, að ég mun greiða atkv. með þeirri brtt sem hér hefur nú verið boðuð, en ekki er þó búið að útbýta.

Það er ekki nema eðlilegt, svo er orðið sorfið að sumum hverjum hv. stjórnarsinnum í flokksfjötrunum, að þeir séu farnir að velta því fyrir sér, hvort það sé ekki í raun og veru orðið vonlaust að vera að neinu brölti gegn foringj­unum í flokknum, gegn flokksfjötrunum og gegn því kerfi sem á þá hefur verið lagt. En sem betur fer eru enn einstaka hv. þm. sem telja það þess vert að brölta og reyna að hrista þetta ok af sér. Þ. á m. er hv. 9. landsk. þm., a. m. k. í þessu máli. Og það er ástæða til þess að fagna því, fagna hverjum þeim einstaklingi, hvar í flokki sem hann er, — fagna því, að menn skuli enn hafa bolmagn til þess að láta sannfæringuna ráða umfram flokksfjötra og fyrirskipanir for­ingja. Þessu ber vissulega að fagna. Þeir eru allt of fáir, þeir einstaklingar sem telja þetta þess virði að þeir vilji leggja það á sig að leggja út í baráttu fyrir þessari hugsun.

Það er sem sagt fyrst og fremst aðdragandi þessa máls, hvernig það er til komið, sem er sérstök ástæða til þess að gagnrýna. Það væri æskilegt að hv. þm. allir gerðu sér ljóst hvernig embættismannakerfinu hefur í raun og veru tekist að sölsa undir sig vald sem Alþ. eitt á að hafa. Og þetta hefur auðvitað gerst vegna þess að þm. sjálfir hafa ekki veitt mótspyrnu við þessari ásælni kerfisins í landinu. Og ég vil séstaklega taka undir það, að það er full ástæða til þess að mótmæla slíkum vinnubrögðum. Þeg­ar þessar umr. fóru fram í des. s.l., þá datt mér ekki í hug að boðað yrði til afsalsveislu fyrir hönd stjórnar Seðlabanka Íslands til þess að afþakka hugmyndir þeirra um það, hvernig ætti að verja þessum fjármunum. Staðreyndin er sú, að það var í raun og veru búið formlega að ákveða þetta innan veggja Seðlabanka Íslands með formlegum veisluhöldum í tilefni þessa. Það er þetta sem ber að fordæma og víta, og ég vænti þess, að það verði fleiri hv. stjórn­arþm. og fleiri hv. alþm. almennt talað sem nú rísi upp og sýni fram á það, að þeim er það full alvara að láta hér staðar numið og snúa baráttunni inn á þá braut frekar að endurheimta vald­svið Alþ. úr höndum embættismannakerfisins, hvers háttar þess sem er, og að Alþ. taki upp baráttu fyrir því, að það verði þm. sjálfir, sannfæring þeirra sem fyrst og fremst ræður afstöðu þeirra til mála hverju sinni.