20.04.1977
Sameinað þing: 78. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 3383 í B-deild Alþingistíðinda. (2387)

220. mál, skipulagsskrá fyrir Þjóðhátíðarsjóð

Dómsmrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Ég skal reyna að vera ekki mjög margorður um þessa till. sem hér liggur fyrir, og mér finnst ekki sérstök ástæða til þess að tala um þetta mál með neinum óvenjulegum hávaða. Að vísu er það sýnilegt, að hér er upp komið nokkuð alv­arlegt vandamál. Það hafa sem sagt safnast sam­an 300 millj. og það virðist vera eins og oft áður, að þegar menn hafa safnað einhverju saman, þá koma áhyggjurnar og þá koma vandamálin.

En af því að ég kom svolítið við aðdraganda þessa máls, þá get ég ekki komist hjá því að segja aðeins nokkur orð um það og þá meðfram af því að það hefur verið látið liggja að því, að hér hafi verið beitt einhverjum gerræðisfullum vinnubrögðum og gengið fram hjá Alþ. í þessu efni.

Ég vona að ég hafi misskilið hv. þm. Jón Árm. Héðinsson, en mér fannst hann vera eiginlega hneykslaður á því, að það hafi verið stofnað til þessarar fjársöfnunar með þessum hætti á þjóð­hátíðarári þegar erfiðleikar höfðu verið miklir, efnahagserfiðleikar hefðu flætt yfir þjóðina. Ég held nú að mest af því fé, sem hefur komið í þennan sjóð, sé ekki komið frá íslendingum, heldur komið annars staðar að, af því að þessi mynt hefur verið seld annars staðar og þar eru menn sem leggja stund á það að safna mynt. En hafi íslendingar haft efni á því og gert það, að leggja í kaup á þessari mynt, þá hygg ég að þeir hafi ekki skaðast á því, af því að það er eðli þessarar myntar eins og annarrar, sem stofnað er til undir slíkum kringumstæðum, að verðgildi hennar vex nokkuð. En þetta er auka­atriði, og ég vona sem sagt að ég hafi misskilið þm. að þessu leyti, að hann hafi ekki meint þetta, þó að mér fyndist að þetta mætti lesa úr orðum hans.

Aðalatriðið er þetta: Hvernig hefur verið stofn­að til þessa? Hefur þar verið gengið fram hjá Alþ. og virðingu þess eitthvað misboðið í þessu sambandi?

Ég leyfi mér að minna á að þjóðhátíðarhald var undirbúið af sérstakri n., sem kjörin var af Alþ. Í þeirri n. áttu fulltrúar allra flokka sæti, þannig að í sambandi við það mál var ekki geng­ið fram hjá Alþ. á einn eða annan hátt, enda var það svo, að þau hátíðarhöld voru í mínum huga alltaf fyrst og fremst hátíðarhöld Alþingis, og ég lagði fyrir mitt leyti alltaf áherslu á að það væri Alþ. sem ætti að hafa þar forustu en ekki ríkisstj., þó að það kæmi til kasta ríkisstj. með ýmsum hætti. Auk þess var það nú svo, m. a. vegna þeirra erfiðleika, sem upp komu á árinu 1974, og talsvert margra samþykkta sem komu frá mörgum góðum félögum á því ári, að það var dálítill beygur í mönnum við að halda hátíð það ár. Það var ekki látið duga af ríkisstj. hálfu að hafa samráð við þessa þingkjörnu þjóðhátíðar­nefnd, heldur voru á fundi, sem ég hélt og kannske voru þar fleiri úr ríkisstj., kvaddir alveg sérstaklega formenn þingflokkanna til þess að fjalla um þau mál sem þjóðhátíðina vörðuðu, ásamt hinni þingkjörnu n., þannig að ég held að það hafi verið algert samkomulag, fullt samkomulag um öll atriði í sambandi við það á milli allra þessara aðila.

Það má segja að þetta atriði, sem nú er verið að ræða, hafi verið eitt af aukaatriðunum í sambandi við þjóðhátíðarárið, við skulum segja eins og kannske sögusýning og fleira, sem stóð ekki alveg beint í sambandi við sjálft þjóðhátíðarhaldið, en var þó talið vel við eiga. Og þessi hug­mynd fæddist í Seðlabankanum. En það fer ýmislegt á undan, áður en fæðing á sér stað, og ég skal ekkert segja um hvaðan hugmyndin er runn­in, en hún kom þaðan. Og ég held að það sé ekkert óvenjulegt, að það sé einmitt af svona tilefnum gefnir út minnispeningar eða mynt. Ég held að það hafi verið út af fyrir sig eðlilegt. Seðlabankinn gerði þetta ekki upp á sitt eindæmi með neinu gerræði, að stofna til þess arna. Hann hafði fullt samráð við þáv. ríkisstj. um að efna til þessarar útgáfu þjóðhátíðarmyntar, þannig að vissulega var ekki farið neitt á bak við ríkisstj. í því efni. Það var ekki bara það sem venjulega er kallað bankastjórn Seðlabankans, þ. e. a. s. banka­stjórarnir, — sem við skulum segja að hugsi ekk­ert um pólitík, en hafa verið orðaðir við að flokk­ar eigi þar fulltrúa — sem tóku ákvörðun um þetta, heldur var það bankaráðið líka, og þar er það þó óumdeilanlegt, að allir flokkar áttu full­trúa í bankaráði Seðlabankans. Till. um þetta var samþ. þar shlj. Þar átti m. a. sæti fulltrúi frá Samtökunum, sem þá voru sameinuð, og hann samþ. þetta auðvitað eins og aðrir. Og sú till., sem var samþ. á sínum tíma í Seðlabankanum, var á þessa lund, eins og segir í grg. með þáltill. og ætti að vera óþarfi að lesa upp, en ég ætla þó að gera það, með leyfi hæstv. forseta:

„Stjórn Seðlabankans mun í lok þjóðhátíðarársins afhenda ríkisstj. allan ágóða af útgáfu minnispeninganna með tillögum sínum um að honum verði varið til þess að varðveita og vernda þau verðmæti lands og menningar sem núlifandi kynslóð hefur fengið í arf.“

Það er sem sagt ekkert annað en till. sem bankaráð Seðlabankans og seðlabankastjórnin gerir í þessu efni og það er ekki nánar kveðið þar á en þetta, að sjóðnum skuli varið til þess að varðveita og vernda þau veðmæti lands og menningar sem núlifandi kynslóð hefur fengið í arf.“ Sjálfsagt er þetta nokkuð víðtækt og getur sitthvað komist undir það. Þó að við höfum verið kannske nokkuð duglegir við það, íslend­ingar, að eyða jafnóðum því sem við höfum aflað, þá hefur sem betur fer ýmislegt safnast upp hjá kynslóðunum sem er arfur til núlifandi kyn­slóðar og núlifandi kynslóð hefur, að ég ætla, skilning á að nokkurs sé virði og varðveita þurfi.

Seðlabankastjórn ræddi þessa tillögu við mig. Ég hef að vísu engar bókanir hér við höndina, en ég held að ég muni það örugglega rétt, að ég hafi skýrt frá þessu á fundi hjá þjóðhátíðar­nefnd og þar sem formenn þingflokkanna voru. Ég væri ekki tilbúinn að sverja það hér í stólnum, af því að ég er ekki svo minnugur að ég muni það alveg, en ég man ekki til þess að það kæmi nokkur athugasemd við þetta.

Síðan fór svo sala á þessari mynt fram og hún gaf þennan arð sem hér liggur fyrir, auk þess sem það hefur nokkuð verið tekinn þáttur, eins og hér er gerð grein fyrir, í framkvæmdum sem var nauðsynlegt að gera í sambandi við þjóðhátíðina, eins og Gjábakkavegi, sem vita­skuld stendur áfram og var nauðsynlegur án til­lits til allrar þjóðhátíðar.

Þegar svo seðlabankastjórnin gerir reikningsskil um þennan sjóð, þá gerir hún það á fundi að nokkrum samankölluðum. Það má kannske segja, eins og víðar á við, að margir eru kallaðir, en fáir útvaldir. Það hafa sjálfsagt einhverjir ekki verið á þessum fundi sem hefðu alveg eins átt að vera þar og þeir sem voru boðnir þangað. Ég held að það sé óþarfi að vera að kalla það nokkra veislu. Ég man ekki til þess, að það hafi verið mjög mikil veisluhöld sem fram fóru í sam­bandi við það. En þó svo hefði verið, þá væri það syndlaust að mínum dómi þó menn hefðu gert sér glaðan dag af því að það tókst svona vel til með þessa söfnun, af því að menn sáu það ekki fyrir þá, að þetta mundi valda þessum óskaplegu áhyggjum og vandamáli hér á hv. Alþ., að þessi sjóður skyldi safnast, 300 millj. Og þá gerir seðlabankastjóri grein fyrir þeim till. sem seðlabankastjórnin muni gera, sundurliðaðri en var í þessari ályktun bankaráðsins og bankastjórnar­innar á sínum tíma. En það voru líka aðeins till. og þær fóru til ríkisstj.

Ég svaraði því í vetur, og ég hafði svarað því áður aðspurður hér á hv. Alþ., að ráðstöfun þessa fjár mundi koma til kasta Alþ. Ég fæ ekki séð annað en hafi verið staðið við það fyrirheit. Ég fæ ekki betur séð en það sé verið að standa við það fyrirheit nú, og ég get ekki skilið þá hneykslun sem kemur fram hjá sumum hv. þm., að aðdragandi að þessu hafi verið með eitthvað óvenjulegum og óeðlilegum hætti, hann sé þannig að virðingu Alþ. sé stefnt í voða. Það væri betur ef það væri ekkert annað sem færi með virðingu Alþ. heldur en þetta mál, það leyfi ég mér að segja.

Ég held að það sé ekki hægt að segja að það sé seðlabankastjórnin sem hafi tekið ákvörðun í þessu efni. Hún hefur bara gert till. Þær till. voru ekki bindandi, hvorki fyrir fyrrv. ríkisstj. né núv. ríkisstj. Þær hafa báðar fjallað um þetta mál og núv. ríkisstj. hefur fallist á að gera þetta að till. sinni og leggja það fyrir þingið. En það er auðvitað bara till. frá ríkisstj., alveg eins og hvert annað frv. eða till. sem kemur frá ríkisstj. Alþ. hefur sínar frjálsu hendur eins og endra­nær til þess að ákveða að taka þau mál eins og það kýs. Og ég held að það hafi ekki verið kom­ið aftan að einum eða neinum í sambandi við að leggja þessa till. fram hér á Alþ., því ég veit ekki betur en ríkisstj. eða hæstv. forsrh. sendi þessa till. á sínum tíma — fyrir alllöngu — a. m. k. til formanna þingflokka. Það hefði átt að berast í hendur hv. síðasta ræðumanns, að ég hygg, því að til formanna þingflokkanna var þetta stílað, ef ég veit rétt. A. m. k. veit ég að það kom til þingflokks framsóknarmanna og þar var hafður sá háttur á, að það var borið undir fund þar og Framsfl. fellst á að þetta væri lagt fram á Alþ., vitaskuld án þess að einstakir þm. væru bundnir við að samþykkja það alveg eins og þarna væri frá því gengið. Það er svo laukrétt, sem hér hefur verið sagt, að auðvitað er þetta ekki flokkspólitískt mál. Þó það nú væri að þm. mættu hafa sína skoðun á öðru eins máli og þessu, hvernig ætti að dreifa út þessum 300 millj., hvort það ætti að gera í einu lagi eða hvort ætti að hafa þarna einhverja sjóðmyndun og verja árlega vöxtunum.

Mér er þess vegna alveg ómögulegt að skilja þá vandlætingu sem fram kemur hjá hv. þm. yfir því, að það hafi verið farið eitthvað fram hjá þeim í þessu efni og það sé meiningin að fara fram hjá þeim. Þetta er núna lagt fyrir þá, það fær eðlilega meðferð, ég geri ráð fyrir að það fari til fjvn. eða til einhverrar n. fer það. Ég heyrði því miður ekki till. um það, en ég býst við að það fari til fjvn. og þá fjallar hún auðvitað um það. Og hver sem er getur auðvitað komið fram með brtt., enda er það ljóst þegar að hv. þm. einhverja a. m. k. brestur ekki kjark til að koma fram með brtt. í sambandi við þetta mál. Auðvitað er ekki neitt við því að segja þó að það sé breytt eitthvað þessari skipulagsskrá, það er algerlega á valdi Alþ. En ég vil nú segja meira, að það er einmitt með þeirri stjórn, sem sett er upp fyrir þennan sjóð, gerð sú ráðstöfun að leggja framtíðarákvörðunarvald í einstökum atriðum varðandi úthlutun úr þessum sjóði í hendur Alþ., þ. e. a. s. fulltrúa sem kjörnir eru af Alþ., af því að meiri hl. stjórnar þessa sjóðs á að vera skipaður þremur mönnum kjörnum af Alþ., og svo einn frá ríkisstj. og einn frá Seðlabanka. Það er því óumdeilanlegt, að eftir þessari skipulagsskrá á Alþ. að hafa þarna ákvörðunar­valdið. Og ef því þykir ekki nóg að hafa þrjá, þá getur auðvitað einhver hv. alþm. komið með till. um að allir fimm skuli kjörnir af Alþingi.

Auðvitað er ekkert eðlilegra en að menn hafi skiptar skoðanir á því, hvernig þessu fé skuli varið, hvort því skuli eytt strax, — það er hvort sem er svo, að það má segja að sjóðmyndanir hér hvetji ekki til eftirbreytni eða hafi ekki gert það að undanförnu, — hvort því sé varið strax til að byggja Þjóðarbókhlöðu eða hvort því sé varið eitthvað í þá átt eða á þann hatt sem lagt er til í þessari till., að það sé þarna til sjóður sem legg­ur nokkurt handbært fé til á hverju ári til þess að styrkja og styðja við þau markmið sem nefnd eru í skipulagsskránni. Þau markmið eru ekki þannig upp talin þar að þau séu á neinn hátt tæmandi, heldur gefa þau fullkomið svigrúm fyrir stjórn sjóðsins. Jafnframt er tekið fram að þessi tillög eða framlög, sem koma frá þessum sjóði, skuli ekki á neinn hatt skerða fjárveitingar til þessara nauðsynlegu þarfa sem þarna er um að ræða.

Ég biðst afsökunar, herra forseti, að ég hef kannske orðið langorðari en ég ætlaði í upphafi. Aðalatriðið var, að ég vildi undirstrika það, að bæði fyrrv. og núv. stjórn hafa haft þarna hönd í bagga. Það er vissulega ekki sanngjarnt að vera að vísa eitthvað í embættismannavald í þessu sambandi. Það er bara lítilfjörlegt, finnst mér. Við berum ábyrgð á þessu, ríkisstj., og við eigum að taka við ávítum. Hvort sem þær eru réttmætar, þá tökum við við þeim. En að vera alltaf með þessi skot á menn sem ekki eru hér í þingsölunum, þetta embættismannakerfi sem verið er að tala um, ég segi það satt, að það er farið að fara í mínar fínustu taugar.