20.04.1977
Sameinað þing: 78. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 3395 í B-deild Alþingistíðinda. (2394)

220. mál, skipulagsskrá fyrir Þjóðhátíðarsjóð

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Ég fann mig tilknúinn að standa hér upp og segja nokk­ur orð þegar hv. 5. þm. Vestf. las hér upp úr grg. um Þjóðhátíðarsjóð og till. um sjóðsstofnun úr ávarpi seðlabankastjóra Jóhannesar Nordals. Hann las upphafsorð seðlabankastjóra úr ávarpi sem hann flutti á fundi í Seðlabankanum 10. des. 1976. Ég hefði gjarnan viljað, til þess að geta talið það góðan málflutning, að virðulegur þm. hefði vitnað meira í þetta ávarp. En það sem forseti hefur beðið mig um að vera stuttorðan, þá mun ég reyna að stytta mál mitt og lesa bara kafla af því sem ég hafði óskað eftir að heyra hv. 5. þm. Vestf. lesa, en það hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Þar sem þetta er í fyrsta skipti sem Seðlabankinn hefur ráðist í útgáfu sérstakrar minn­ingarmyntar í ágóðaskyni, hlaut það að vera nokkurt álitamál hversu með ráðstöfun hagnaðarins skyldi farið af Seðlabankans hálfu. Tók stjórn bankans þetta mál til meðferðar og umræðu við ríkisstj. þegar í lok ársins 1973 og áður en í útgáfu myntarinnar var endanlega ráðist. Leiddi þetta til eftirfarandi meginniðurstöðu.

Annars vegar taldi stjórn bankans óeðlilegt að hún taki upp á sitt einsdæmi ákvörðun um að verja svo miklum fjármunum til þarfa utan verksviðs bankans, enda þótt enginn vafi leiki á um formlega eignaraðild að þessu fé. Var því ákveðið að bankinn gerði till. um þetta efni til ríkisstj. sem síðan tæki endanlega ákvörðun um ráðstöfun fjárins.

Hins vegar lagði bankastjórnin þá þegar fram þá hugmynd við ríkisstj., að væntanlegum hagn­aði yrði „varið til að varðveita og vernda þau verðmæti lands og menningar, sem núlifandi kynslóð hefur tekið í arf,“ eins og það er orðað í samþykkt bankaráðsins.“

Ég get ekki betur séð en að seðlabankastjórn­in og seðlabankastjórinn, sem hér hefur legið undir ámæli, hafi að einu og öllu farið eftir þeim leiðum sem þm. í flestum tilfellum mundu hafa samþ. eða jafnvel óskað eftir, þ. e. að Seðlabankinn hefði samráð við ríkisstj., því varla geta þm. ætlast til þess að við hvert þrep, sem þarf að stíga í svona málum, sé það lagt sér­staklega fyrir Alþ. Ríkisstj. er best til þess fall­in að taka slíkar ákvarðanir.

En það segir síðar í þessu ávarpi, að ríkisstj. muni síðan leggja fram till. til þál. um skipu­lagsskrá fyrir Þjóðhátíðarsjóð, og það er það sem hún er að gera.

Við erum að rífast hér um árangur af hug­mynd sem stjórn Seðlabankans ber upp í banka­ráði Seðlabankans og fær samþykkt ríkisstj. til að framkvæma. Ég verð að segja, að mér finnst það vera langt gengið, en ég verð að segja það líka, að ég hef visst gaman af þessu, því síðan ég kom á Alþ. er þetta í fyrsta skipti sem ég hef hlustað á umr. um vandamál sem skapast vegna tekna umfram útgjöld. Og það liggur við að ég hugsi: Hvernig væri Alþ. statt ef við hefð­um tekjur umfram útgjöld á fjárlögum.

Ég hef nú hlustað á málflutning margra þeirra hv. þm. sem tekið hafa til máls, en ekki allra. En mér finnst ekki hafa komið fram verðskuldað þakklæti til Seðlabankastjórnarinnar fyrir þá hugmynd sem hún hratt í framkvæmd og hefur skilað góðum árangri. Eins og við vitum, þá er þetta nettóupphæð af kostnaði við þjóðhá­tíðina, sem um er rætt, og mér finnst ekki heldur hafa komið hér fram á Alþ. nógu skýrt þakklæti til þjóðhátíðarnefndar sjálfrar fyrir hennar verk. Ég held að samstarf þjóðhátíðarnefndar og Seðlabankans í fjáröflun hafi gert það að verkum að við gátum með sóma haldið virðulega upp á þjóðhátíðarárið, og það var mikið atriði fyrir okkur, bæði Alþingi og þjóðina alla.

Ég vil lýsa andstöðu minni við þá brtt., sem fram er komin frá hv. 9. landsk. þm. og fleir­um, og mun styðja þessa þáltill. um skipulagsskrá fyrir Þjóðhátíðarsjóð. Allt tal um þjóðar­bókhlöðuna verður að vera á annan hátt. Hún verður að vera fjármögnuð eins og aðrar framkvæmdir á vegum ríkisins á eðlilegan hátt. Við skulum taka ákvörðun um það, hvort við viljum gera þjóðarbókhlöðuna að sérstöku forgangs­verkefni. En það er allt annað mál. Ég hefði sjálfur getað komið með allt aðrar till. en Seðlabankinn. Nokkrir þm. hafa komið með aðra till. en ríkisstj. hefur gert að sinni í samráði við upphafsmenn að stofnun þessa sjóðs. Við getum komið með 60 till. hérna um notkun fjárins. Ég held við verðum að treysta ríkisstj. og þeim, sem útvegað hafa þessa peninga með mikilli og góðri vinnu, til þess að gera vitræna till. um notkun á því umframfé sem hún skilar. Og ég vil lýsa furðu minni á umr. sem þessum, að við skulum vera búnir að halda Alþ. frá því kl. 2 þangað til núna kl. 4.05 eða allan þennan fundardag til að ræða um umframtekjur, tekjur umfram gjöld á þjóðhátíðarárinu. Fyrr má nú vera!

Ég skil ekki hvernig hv. 5. þm. Norðurl. e. getur leyft sér að tala eins og hann hefur talað í þessu máli. Ég skil ekki málflutning hans. Það hlýtur að liggja eitthvað allt annað en þessi þáltill., sem hér liggur frammi, bak við hans málflutning.