20.04.1977
Efri deild: 59. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 3397 í B-deild Alþingistíðinda. (2396)

16. mál, kaup og kjör sjómanna

Frsm. meiri hl. (Jón G. Sólnes):

Herra forseti. Sjútvn. þessarar hv. þd. hefur fjallað um mál það sem hér er til umr. N. varð ekki sammála um afgreiðslu þess. Meiri hl. hefur skilað áliti sem er á þskj. 464 og leggur til, að frv. verði samþ., en minni hl. n., þeir hv. þm. Stefán Jónsson og Jón Árm. Héðinsson, munu skila sérstöku áliti.

Þegar þetta frv. var á sínum tíma lagt fram, fylgdi hæstv. sjútvrh. því úr hlaði með ítarlegri ræðu og skýrði tilefni þessarar lagasetningar. En þar sem alllangt er frá liðið að þetta frv. var lagt fram í hv. d. finnst mér ekki úr vegi að rifja upp nokkur meginatriði í sambandi við þetta mál.

Við gerð samninga um kaup og kjör sjómanna á bátaflotanum í mars 1975 óskuðu samninganefndir Sjómannasambandsins og Landssam­bands ísl. útvegsmanna í bréfi, dags. 8. apríl það ár, að ríkisstj. hlutaðist til um endurskoðun sjóðakerfisins undir forustu Þjóðhagsstofnunar­innar, og báru fram till. um tilhögun nefndarskipunar í því sambandi. Samkv. henni átti nefndin einungis að vera skipuð fulltrúum hagsmunasamtaka sjómanna og útvegsmanna auk Hafrannsóknastofnunar. Nefndin var skipuð í samræmi við óskir viðkomandi, en í skipunar­bréfi til hvers einasta nefndarmanns var lögð áhersla á, að nefndin lyki störfum fyrir 1. des. 1975. Fulltrúar sjómanna í n. voru Óskar Vigfússon, formaður Sjómannafélags Hafnarfjarðar, en núv. formaður Sjómannasambands Íslands, Hilmar Jónsson, formaður Sjómannafélags Reykjavíkur, Pétur Sigurðsson, framkvæmda­stjóri Alýðusambands Vestfjarða, Sigfinnur Karlsson, framkvæmdastjóri Alþýðusambands Austurlands, Ingólfur Ingólfsson, frá Farmanna- ­og fiskimannasambandi Íslands, og Ingólfur Stefánsson, framkvæmdastjóri Farmanna- og fiskimannasambands Íslands.

N. vann mikið starf og gott og skilaði ítarlegu áliti og till. með bréfi, dags. 19. jan. 1976, en samkomulag hafði tekist í n. um till. um breyt. á gildandi lögum. Ríkisstj. beitti sér fyrir um­ræddum lagabreytingum óbreyttum, en það eru lög um útflutningsgjald og Stofnfjarsjóð fiski­skipa sem voru samþ. á Alþ. á methraða, og tók hin nýja skipan gildi frá og með 16. febr. 1976.

Það er rétt að undirstrika, að ríkisstj. og Alþ. samþ. óbreyttar till. n. um lagabreytingarnar. En algjör forsenda þessara aðgerða og lagabreytinga var að fullt samkomulag yrði milli sjómannasamtakanna og útvegsmanna um fiskvernd og að samningar tækjust á þessum breytta grundvelli í samræmi við ábendingar tillögu­nefndar, svo og um breytingar á ákvæðum þeirra samninga sem ekki voru lausir frá ára­mótum 1975–1976, en fulltrúar umræddra hags­munaaðila höfðu undirritað slíka yfirlýsingu, sem er dags. 8. febr. 1976 og er svo hljóðandi, með leyfi forseta:

„Sjómannasamband Íslands, Alþýðusamband Vestfjarða, Alþýðusamband Austurlands og Farmanna- og fiskimannasamband Íslands, fyrir hönd sjómanna, og Landssamband Ísl. útvegs­manna og Félag ísl. botnvörpuskipaeigenda, fyrir hönd útvegsmanna, gera með sér samkomulag um eftirgreind atriði:

1. Þar sem ríkisstj. hefur lýst því yfir, að hún muni beita sér fyrir setningu laga og reglu­gerða í samræmi við till. og ábendingar tillögu­nefndar um sjóði sjávarútvegs og hlutaskipti, lýsa aðilar því yfir, að þeir muni gera þá samn­inga sín á milli, sem nú eru lausir, um kjör sjómanna á grundvelli till. og ábendinga sem fram koma í skýrslu n., dags. 19. jan. 1976.

2. Aðilar lýsa því enn fremur yfir, að þeir muni beita sér fyrir því að heimildir verði veitt­ar til þess að taka þegar upp samninga á þess­um grundvelli um breytingar á þeim kjarasamn­ingum aðila, sem ekki hefur verið sagt upp, með sama hætti og væru þeir lausir.

3. Aðilar þessa samkomulags gera ráð fyrir að ríkisstj. láti fara fram sérstaka athugun á kjörum áhafna og afkomu útgerðar á stærri tog­urum (þ. e. 500 brúttólestir og yfir) við þessar breytingar. Athugun þessi verði gerð í samráði við samtök sjómanna og útvegsmanna og full­trúa þeirra byggðarlaga, sem sérstakra hagsmuna eiga að gæta, með það fyrir augum að tryggja atvinnu sjómanna og rekstur sjávarútvegsfyrir­tækja á þessum stöðum, sbr. og bréf sjútvrn. til Félags ísl. botnvörpuskipaeigenda, dags. 3. júlí 1975.“

Samkomulag þetta er undirskrifað í Reykja­vík 8. febr. 1976 af þeim aðilum sem getið var áðan, sem sagt Sjómannasambandi Íslands, Far­manna- og fiskimannasambandi Íslands, Alþýðu­sambandi Austurlands, Alþýðusambandi Vestfjarða, Landssambandi ísl. útvegsmanna og Félagi ísl. botnvörpuskipaeigenda.

Ég sagði áðan að ríkisstj. hefði beitt sér fyrir og fengið samþ. allar þær till. sem fulltrúar sjómannasamtakanna og útvegsmannanna báru fram. En eftirleikurinn varð því miður annar en vænst hafði verið. Samningatilraunir milli Sjómannasambandsins og Landssambands ísl. útvegsmanna hófust strax eftir að Alþ. hafði samþ. lagabreyt­ingarnar, og var undirritaður kjarasamningur milli Sjómannasambands Íslands, Farmanna- og fiskimannasambands Íslands og Landssambands í sl. útvegsmanna hinn 1. mars 1976. Þessi samn­ingur var borinn undir atkv. í einstökum sjó­mannafélögum, en hann var felldur nema á Akranesi, í Vestmannaeyjum, Grindavík, Þorlákshöfn, Eyrarbakka, Skagaströnd, en samþ. af útvegs­mönnum. Með aðstoð sáttasemjara voru gerðir margir samningar milli einstakra samtaka sjó­manna og útvegsmanna, en þeir ýmist felldir eða ekki bornir undir atkv.

Hinn 28. júlí s.l. var undirritað samkomulag um breytingar á kjarasamningi aðila, er undir­ritaður var hinn 1. mars, milli Sjómannasam­bands Íslands fyrir hönd aðildarfélaganna og Landssambands ísl. útvegsmanna fyrir hönd að­ildarfélaga sinna. Samningur þessi var miðlunar­till. til þeirra félaga sem felldu samninginn frá 1. mars. Um þetta samkomulag fór fram leynileg sameiginleg atkvgr. í Sjómannasambandinu sem stóð í einn mánuð. Greidd atkv. voru talin 268, en reyndust 274, og var miðlunartill. felld með 140 atkv. gegn 122, auðir voru 7 seðlar og 5 ógildir. Slík varð niðurstaðan og áhuginn í þess­ari atkvgr., en þátttakan var þannig í einstökum félögum: Sjómannafélag Reykjavíkur, 18 greiddu atkv. Sjómannafélagið Afturelding, Hellissandi, 12 greiddu atkv. Sjómannafélagið Jökull, Ólafs­vík, 9. Sjómannafélagið Stjarnan, Grundarfirði, 25. Verkalýðsfélag Stykkishólms 26. Fram á Sauðárkróki 17. Ársæll, Hofsósi, 4. Sjómanna­félagið Vaka, Siglufirði, 11. Sjómannafélagið Eyjafjall 46, Sjómannafélagið Jökull, Hornafirði, 13. Verkalýðs- og sjómannafélag Miðneshrepps 6. Verkalýðs- og sjómannafélag Garðahrepps 5. Verkalýðs- og sjómannafélag Keflavíkur 19. Vél­stjórafélag Suðurnesja 36. Sjómannafélag Hafnar­fjarðar 21.

Þannig stóðu málin þegar brbl. voru sett hinn 6. sept., en auk þess voru yfirvofandi málaferli um gildi þeirra samninga sem ekki hafði verið sagt upp, og vitað var, að þar sem engir samn­ingar voru í gildi, höfðu menn gert upp eftir þeim samningsdrögum sem fyrir lágu. Dregið var eins lengi og fært var talið að gefa út um­rædd brbl. í trausti þess að samningar tækjust. En ég tel að með brbl. séu aðilar beinlínis hvattir til að halda áfram samningaviðræðum, eins og gert var t. d. á Vestfjörðum í sambandi við kjöra línuveiðum, en aðeins er tekið fram í brbl. að bannað er að knýja fram breytingar með verkbönnum, verkföllum eða samúðarverkföllum.

Ég gat þess fyrr, að samningar frá 1. mars höfðu verið samþ. á Akranesi, Vestmannaeyjum, Grindavík, Þorlákshöfn, Eyrarbakka og Skaga­strönd, og vil undirstrika, að með brbl. eru kjör sjómanna á þessum stöðum bætt með hækkun á skiptaprósentu og líf- og örorkutryggingu. Rétt er að undirstrika að við sjóðakerfisbreytinguna hinn 16. febr. 1976 hækkaði fiskverð verulega ef gert er ráð fyrir sömu samsetningu á botn­fiskafla 1976 og var 1975. Þá hefur skiptaverð­mæti þess afla hækkað um 33% við sjóðakerfis­breytinguna samkv. þeim útreikningum sem Þjóðhagsstofnun hefur gert.

Í framhaldi af því, sem nú hefur verið sagt, er rétt að fara með nokkrar athyglisverðar tölur frá Þjóðhagsstofnuninni, en þær eru byggðar á áætlunum um meðalverðlag ársins 1976.

Talið er að aflaverðmæti milli áranna 1975 og 1976 hafi vaxið úr 16.7 í 26.6 milljarða kr. eða um 9.9 milljarða kr., sem gera tæp 60%. Skipta­verðmætið hækkar meira en aflaverðmætið eða um 68% og byggist á lækkun greiðslna í stofnkostnað. Aflahlutir hafa hins vegar hækkað nokkru minna en aflaverðmætið eða um 46%, og er það vegna lækkunar á skiptaprósentu. Í skýrslu Þjóðhagsstofnunar segir orðrétt, með leyfi forseta:

„Eftir hækkun skiptaverðmætis um nálægt 68% og lækkun skiptaprósentu um 14.4% hækka aflahlutar til sjómanna milli áranna 1975 og 1976 um 2.9 milljarða eða 46%. Ekki liggur ljóst fyrir hver breyting hefur orðið á fjölda sjómanna og þar með tekjur á hvern sjómann. Hins vegar má geta þess til samanburðar, að kaup­taxtar verkfólks og iðnaðarmanna hafa hækkað um 26–27% og meðalatvinnutekjur þeirra 30% milli ára 1975 og 1976. Ljóst virðist því að tekjur sjómanna hafa hækkað um 12–13% umfram tekjur verkafólks og iðnaðarmanna.“

Samkv. nýjustu upplýsingum frá Þjóðhags­stofnuninni hefur skiptaverð þorskafla hækkað um 170% frá miðju ári 1974 til dagsins í dag, en samvegin meðaltalshækkun alls afla um 159%, og er þá miðað við hlutfallslega skiptingu verð­mætis 1976. Til samanburðar má geta þess, að vísitala vöru og þjónustu hefur á sama tíma hækkað um 142%.

Af þeim upplýsingum, sem hér hafa verið raktar, má fullyrða að hér er ekki um kjara­rýrnun að ræða sem er verið að þvinga upp á aðilana.

Andstæðingar þessa frv., sem hér er til umr., hafa bent á að það hafi verið óþarfi að setja þessi lög þar sem hvorki hafi verið ríkjandi vinnustöðvun né verkfallsboðanir. En á þær stað­reyndir ber að líta, að það var komið í slíkt ófremdarástand í þessum málum, að það var ekki hægt að gera löglega upp við sjómenn á fiskiskipaflotanum vegna þess að löglegan gern­ing um kjör mannanna vantaði. Það er því óhætt að fullyrða að sú ástæða var fyrir hendi, að það bar til brýna nauðsyn að skera þarna á hnútinn, og það var gert með þeim hætti að gefa út brbl. sem hér eru til umr. Ég held að fyrir engum, sem vill líta á þessi mál með sanngirni, geti vafist, að hér er um fullkomið réttlætismál að ræða, enda má fullyrða að hin lélega þátttaka í atkvgr. hinna almennu og mannmörgu sam­taka, sem áttu hér hlut að máli, ber það bein­línis með sér að menn hafa eftir atvikum talið þessa samninga mjög viðunandi og ekki talið ástæðu til að leggja það á sig að taka þátt í atkvgr., þannig að ég held að hér megi viðhafa gamla máltækið og segja, að þögn sé sama og samþykki.

Herra forseti. Ég mun ekki hafa mál mitt lengra að þessu sinni, en ber þetta nál. meiri hl. sjútvn. fram og legg til að frv. verði samþ.