20.04.1977
Efri deild: 59. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 3404 í B-deild Alþingistíðinda. (2399)

16. mál, kaup og kjör sjómanna

Frsm. minni hl. (Stefán Jónsson):

Herra forseti. Ég hefði ekki kvatt mér hér hljóðs öðru sinni í umr. um mál þetta ef hv. þm. Steingrímur Her­mannsson hefði stillt sig um að fjölyrða svo mjög um misskilning sinn á þessu máli frá rótum.

Það er fyrst og fremst vegna þeirrar aðferðar í vinnudeilum að beita brbl. á hæpnum forsendum til þess að úrskurða stétt kjör, — það er fyrst og fremst á þeim forsendum sem við hv. þm. Jón Árm. Héðinsson leggjum til að þetta frv. verði fellt. Það var að vísu rétt sem hv. þm. Stein­grímur Hermannsson sagði, að í ljós kom í við­ræðum bæði við fulltrúa útvegsmanna og sjó­manna í sjútvn. d. að þeir töldu brbl. hafa samn­ingsgildi. En af hálfu sjómanna var aftur á móti undirstrikað mjög hressilega að þeir teldu brbl. ekki samninga. Þess vegna stílum við hv. þm. Jón Árm. Héðinsson niðurlag nál. okkar á þessa lund, að við teljum hættu á því að það mundi torvelda gerð nýrra samninga ef Alþ. staðfesti nú brbl. þessi, sem eru að renna sitt skeið á enda hvort eð er, einmitt þess vegna. Þá væri Alþ. að gefa samningum, sem eiga að vera frjálsir samn­ingar og hæstv. sjútvrh. hefur sjálfur margsinnis lýst yfir að hann gerði sér vonir um að yrðu frjálsir samningar, taldi sig hafa ástæðu til að ætla að yrðu frjálsir gildandi samningar með samþykki félaganna, — með því að Alþ. fari nú að samþ. brbl. er Alþ. sjálft á síðustu stundu og að þessu sinni gjörsamlega að þarflausu á þeim andartökum, þegar brbl. eru beinlínis að geispa golunni fyrir tíma sakir, að staðfesta þessa samninga sem felldir voru í 22 af 26 sjómannafélögum, að staðfesta þá samninga sem lög.

Fulltrúar sjómanna á nefndarfundinum hjá okkur í sjútvn. Ed., maður eftir mann sögðu þeir: Við töldum okkur með samþykki, sem náttúrlega var það staðfestingu félaganna, vera að gera rétt. Við töldum okkur fara þarna með umboð félaganna, að þessu tilskildu að vísu. Við töldum okkur vera að gera rétt. Það kom í ljós, að við höfðum ekkert fylgi til þess arna. Því miður kom það í ljós að okkur hafði orðið á í messunni.

Meginástæðan fyrir því, að við hv. þm. Jón Árm. Héðinsson teljum að það geti orðið til þess að torvelda samninga ef Alþ. staðfestir núna brbl. þessi, er sú, að þar erum við, ef svo má segja, að taka þessa samningamenn sjómanna steinbítstaki og dýfa þeim svolítið ofan í samn­ingsuppköstin sem felld voru í félögunum. M. a. á þann hátt er hætt við að með staðfestingu þess­ara brbl. núna, sem ég hirði ekki að ræða frem­ur en ég hef þegar gert, laga sem við teljum ólögmæt og illa til fundin, sé verið að gera þessa vanburða tilraun, sem gerð var til samninga á vetrinum sem leið, að nýju bitbeini.

Ég get tekið undir raunverulegan rökstuðning hv. síðasta ræðumanns, Steingríms Hermannsson­ar, fyrir gagnrýni hans á meðferð málsins. Ég get tekið undir alla þessa gagnrýni hans, en minnist þess, að þegar hann gerði grein fyrir henni hið fyrra sinnið í vetur, þá hafði ég einhvern veginn sterkan grun um að hann teldi að þannig hefði verið að þessu máli unnið að hann mundi greiða atkvæði gegn frv.