14.10.1976
Neðri deild: 3. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 26 í B-deild Alþingistíðinda. (24)

11. mál, rannsóknarlögregla ríkisins

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. É'g ætla mér nú ekki á þessum stað að fara að ræða almennt um afbrotamál og dómsmál, ekki hvað síst vegna þess að það hafa verið lagðar fram till. til þál. sem fjalla einmitt um þann málaþátt, og mun þá gefast tækifæri til þess að ræða það betur siðar. En hitt vil ég undirstrika, sem hæstv. dómsmrh. sagði hér áðan, að menn gera sér e.t.v. ekki fyllilega grein fyrir því, hvað sterkt áróðurstæki sjónvarpið er, ekki aðeins varðandi þá einstaklinga og þær vörur og annað því um líkt sem þar kemur fram, heldur ekki síst um þá verknaði sem þar eru sýndir.

Ég get sagt mönnum það, bæði til gamans og e.t.v. sem áhyggjuefni, að fyrir örfáum víkum var ég á foreldrafundi með forstöðukonu leikskóla hér í borginni þar sem yngsta barnið mitt dvelur hálfan daginn. Hún var að segja okkur foreldrunum frá því, að hún hefði nú á síðustu árum veitt því eftirtekt hversu sjónvarpið og afbrota- og glæpamyndir, sem það sýnir, væru farin að hafa ótrúlega mikil áhrif á allra yngstu börnin sem dveldust þar á leikskólanum, þ.e.a.s. börn á aldrinum tveggja og þriggja ára. Og hún sagði okkur tvær sögur af því. Hún sagði að í sumar hefði hún komið að öllum börnunum á einni deildinni þar sem þau hefðu legið hreyfingarlaus úti í horni hvert ofan á öðru, en eitt staðið yfir. Og hún sagðist hafa spurt börnin að hvað þau væru að leika. Sum þeirra voru ekki orðin fyllilega talandi, voru það ung, en eitt barnið skýrði frá því: Jú, það væri verið að leika ræningjaleik. Hann væri hetjan og væri búinn að drena hina alla sem lágu hreyfingarlausir úti í horni. Nokkru síðar varð þessi sama forstöðukona áheyrandi að samtali tveggja þriggja ára gamalla barna. Annað þriggja ára gamla barnið spurði hitt hvar mamma þess væri. Barnið svaraði og sagði: „Hún er dáin.“ Þá spurði barnið: „Og hver drap hana?“ Þessar tvær sögur sagði forstöðukona þessa leikskóla okkur foreldrunum á foreldrafundi í sumar sem dæmi um það, að hennar sögn hvaða áhrif ýmis efnisatriði sjónvarpsins væru farin að hafa á allra yngstu aldursflokkana. börn tveggja, þriggja og fjögurra ára gömul, sem fylgjast með sjónvarpinu íslenska daglega.

Ég ætla ekki að fara fleiri orðum um þetta, en vildi gjarnan láta þetta koma fram sem mér var sagt í sumar og þótti harla merkilegt til stuðnings því sem hæstv. dómsmrh. sagði í ræðu sinni áðan um þýðingu sjónvarpsins í þessu sambandi. Ég ætla ekki heldur að ræða mikið það frv. sem var fylgt úr hlaði áðan. Vegna þess að okkur gafst tækifæri til þess, bæði í þeirri n., sem ég sit í allshn þessarar hv. d., og eins hér í d., að ræða þetta mál að nokkru gagni á síðast þingi. Ég vil aðeins láta það koma fram, að bæði mér og öðrum alþfl. mönnum var það ljóst strax þegar hæstv. ráðh. lagði þetta frv. fram á síðast þingi að hér var um mál að ræða sem væri mjög þýðingarmikið í því skyni að efla og auðvelda þeim, sem fara með rannsókn sakamála að sinna sínu verkefni. Ég vil einnig taka það fram, að við alþfl.-menn lögðum okkur fram um það að þetta mál yrði afgr. á síðasta þingi. Þegar svo virtist vera að hv. allshn. ætlaði að hafa að engu eindregin tilmæli hæstv. ráðh. um að afgr. málið. Þá bað ég sérstaklega um orðið hér utan dagskrár til þess að beina þeim eindregnu tilmælum til forseta þessarar hv. d. að hann beiti áhrifum sínum við n. til þess að kalla fram afgreiðslu á þessu frv. Jafnframt lýsti ég því yfir að ég væri fyrir mitt leyti reiðubúinn til að standa að þeirri afgreiðslu og að þingflokkur Alþfl.. sem hefði rætt þetta mál, mundi vera reiðubúinn til hins sama einnig.

Að vísu komu nokkrar umsagnir um þetta frv. í fyrra. Þær voru hins vegar ekki ýkjaflóknar og flestar jákvæðar í öllum meginatriðum. Örfáar neikvæðar ábendingar komu fram, en flestar þeirra voru byggðar á misskilningi þess sem umsögnina samdi, eins og ljóslega kemur fram á því, að réttarfarsnefndin, sem fjallað hefur um þessar umsagnir í sumar, hefur ekki talið ástæðu til að gera neinar verulegar breyt. á frv, að þeim fengnum Þess vegna var það að mínu áliti og er enn út í hött að halda því fram að hv. allshn. hefði ekki getað afgr. þetta mál í fyrra eins og eindregið var eftir leitað að hún gerði.

Ég vil einnig taka það sérstaklega fram, að það hefur ekkert það komið í ljós í sumar, eða frá því að þingi lauk s.l. vor, sem sýnt hefur getað fram á að það hafi verið rétt ákvörðun hjá stjórnarmeirihl. í allshn. að fresta afgreiðslu þessa frv. Þvert á móti hefur það komið í ljós í sumar, að betra hefði verið að frv. hefði verið afgr. á síðasta þingi.

Þingflokkur Alþfl hefur rætt þetta frv. eftir að það kom fram nú aftur í haust, og ég get í nafni þingfl., þar sem ég á sæti í allshn. og er falið að fjalla þar um málið af hans hálfu, gefið þá yfirlýsingu, að Alþfl. er nú eins og í fyrra reiðubúinn til þess að standa að fljótri afgreiðslu þessa máls. Og ég vil hvetja aðra þm. til þess að gera slíkt hið sama. Af okkar hálfu, alþfl.- manna, skal ekki standa á því að þetta frv. hljóti afgreiðslu vel fyrir áramót. Hvort stjórnarliðíð heykist í annað skipti á að afgr. stjórnarfrv, get ég ekki svarað.