20.04.1977
Neðri deild: 68. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 3408 í B-deild Alþingistíðinda. (2408)

129. mál, járnblendiverksmiðja í Hvalfirði

Gylfi Þ. Gíslason:

Hæstv. forseti. Afgreiðsla þessa máls hér í hv. d. í gær varð í raun og veru sögulegur atburður. Afgreiðsla málsins varð sögulegur atburður af tveimur ástæðum: Í fyrsta lagi vegna þess að við atkvgr. við 2. umr. um málið kom það berlega í ljós, að stjórnarliðið er sundrað í afstöðu sinni til málsins. Það er svo sundrað í afstöðu sinni til málsins, að í raun og veru leikur vafi á því, hvort ríkisstj. hefur starf­hæfan meiri hl. að baki sér hér á hinu háa Alþ., a. m. k. hér í hv. Nd. Að öðru leyti voru umr. og afgreiðsla málsins söguleg að því leyti, að ég tel Alþb. hafa beitt siðlausum málflutningi í þessu máli í röksemdafærslum sínum gegn frv., eins og ég mun víkja nánar að á eftir.

Varðandi fyrra atriðið, hina alvarlegu sundrungu stjórnarliðsins í málinu, er þess að geta, að þó að ríkisstj. sé formlega studd af 28 þm. hér í hv. Nd., kom í ljós að einstakar gr. frv. hlutu nauman stuðning og ýmsar þeirra ekki meiri hl. dm. 10 þm. stjórnarflokkanna af 28 þm. reyndust hafa sérstöðu varðandi ýmis ákvæði í frv. 1. gr. frv., aðalgrein þess, var samþ. með 22:10 atkv., en 5 sátu hjá. 2. og 3. gr. voru samþ. með 19:11 atkv., en 7 sátu hjá. M. ö. o.: það er ekki meiri hl. í hv. Nd. fyrir 2. og 3. gr. frv. 4.­–8. gr. voru samþ. með 21:10 atkv., naumasta meiri hl. í d. sem hugsanlegur er, og 9. gr. með 21:11 atkv., einnig minnsta meiri hl. sem hugsanlegur er.

Þetta verður að teljast söguleg afgreiðsla þeg­ar um slíkt stórmál er að ræða og þetta frv. fjallar um. Ég minnist þess ekki fyrr að í mikil­vægu stórmáli hafi viðlíka uppreisn átt sér stað í stuðningsflokkum ríkisstj. og kom fram í báð­um stjórnarflokkunum við 2. umr. málsins í gær. Það er í raun og veru spurning, hvort það er við­unandi fyrir hæstv. ríkisstj. að jafnmikilvægar gr. eins og 2. og 3. gr. hafi ekki hlotið meirihluta­fylgi hér í hv. Nd. Það er þessi staðreynd sem í raun og veru vekur spurninguna um það, hvort hæstv. ríkisstj. hafi í raun og veru að baki sér starfhæfan meiri hl. hér á hv. Alþ., a. m. k. hér í hv. Nd. Það er nauðsynlegt að vekja ítarlega athygli á þessu.

En ég sagði áðan, að ég teldi umr. um málið einnig hafa verið sögulegar að öðru leyti, að því leyti að ég tel Alþb. hafa beitt mjög óheiðarleg­um málflutningi í umr. um málið. Það er ekki aðeins að þess er jafnan látið ógetið, að upphafsmaður þessa máls alls er alþb.-maðurinn Magnús Kjartansson, fyrrv. iðnrh. Málið er runnið frá rn. hans og upphaflega samið og flutt af honum í svo að segja algerlega sama formi og það liggur fyrir nú og Alþb. sem heild hamast gegn. Það er ekki aðeins að um þetta sé þagað eða reynt að gera eins lítið úr þessu og mögu­legt er, heldur hefur það jafnvel gerst, að ein­stakir fulltrúar Alþb. hafi borið á móti því að málið eigi upptök sín og sé upphaflega flutt, samið og boðað af iðnrh. Alþb., Magnúsi Kjartanssyni. En þetta er auðvelt að sanna og það ætla ég nú að gera.

Ég hef haft undir höndum í nokkur ár tillögu að bréfi sem Magnús Kjartansson, þáv. iðnrh., lagði fyrir okkur formenn þingflokka þáv. stjórn­arandstöðuflokka, Sjálfstfl., hæstv. núv. iðnrh. Gunnar Thoroddsen, og mig og bað um sam­þykki okkar fyrir að mega senda til þess aðila sem hann var búinn að semja við, þ. e. a. s. Union Carbide. Og ég hef annað uppkast, sem hann samdi í framhaldi af þessu, og síðan bréf, sem hann raunverulega sendi Union Carbide vorið 1974. Ég fékk þessi bréf að vísu á sínum tíma sem trúnaðarmál, en ég lít þannig á nú, sérstaklega í framhaldi af þeim umr., sem farið hafa fram, og þeim staðhæfingum, sem hafa verið viðhafðar af þm. Alþb., að ég sé ekki lengur bundinn trúnaðarskyldu í þessu máli og mér sé heimilt að kynna þingi og þjóð þessi bréf.

Fyrst er um að ræða till. að bréfi til Union Carbide, sem dags. er 20. apríl 1974. Þessa till. að bréfi sýndi þáv. iðnrh. Magnús Kjartansson okkur núv. iðnrh. Gunnari Thoroddsen og mér á skrifstofu sinni í Arnarhvoli þennan sama dag, 20. apríl 1974, og spurði beinlínis, gerði fsp. til okkar, hvort þingflokkar okkar mundu sam­þykkja að hann sendi þetta bréf til Union Carbide. Ég ætla að leyfa mér að lesa þetta bréf, með leyfi hæstv. forseta:

„Mr. J. C. Malone,

Vicepresident,

Union Carbide Corporation,

New York.

Kæri herra Malone.

Ríkisstj. Íslands hefur nú um skeið haft til athugunar uppkast að samningum milli ríkisstj. Íslands og Union Carbide Corporation um samvinnu um byggingu og rekstur járnblendiverk­smiðju á Íslandi. Tillögur þessar hafa stjórnarflokkarnir og einnig stjórnarandstöðuflokkarnir á Alþ. rætt ítarlega. Forsrh. og ég höfum einnig haft þá ánægju að hitta fulltrúa yðar, hr. Pitcher og herra Eide, en þeir hafa verið í Reykjavík til þess að ræða um framvindu samvinu okkar. Þeir hafa látið okkur og fulltrúum stjórnmála­flokkanna í té upplýsingar um skoðun Union Carbide Corporation á því að mikilvægt sé að hrinda þessum áformum í framkvæmd sem fyrst. Ég vænti þess að þeir hafi einnig myndað sér sínar eigin skoðanir um hið mikla fylgi sem áætlunin nýtur.

Eins og málum háttar þykir mér fyrir því að ég hef komist að þeirri niðurstöðu að ekki mundi vera ráðlegt að reyna að fá staðfestingarlögin samþ. á þessu þingi vegna anna í þinginu og stjórnmálalegra erfiðleika. Við gerum okkur ljóst, að eins og á stendur er áríðandi að þér getið lagt raunhæft mat á framtíð þessarar mikilvægu áætlunar. Ég vona að eftirtaldar aths. skýri aðstöðuna:

1. Ríkisstj. og ég teljum kjör þau og skilmála, sem samið hefur verið um, aðgengilega í öllum meginatriðum, og vil ég fullvissa yður um mik­inn og áframhaldandi áhuga á því að áætluninni verði hrundið í framkvæmd svo fljótt sem unnt er.

2. Iðnrn. mun tryggja að frv. til staðfestingar laga verði lagt fyrir Alþ. í byrjun næsta reglu­legs Alþ., væntanlega snemma í okt. á þessu ári.

3. Til þess að sem minnstar tafir verði á byggingaráformum vegna þessa dráttar mun ríkisstj. gera ráðstafanir til þess að afla þess fjár sem nauðsynlegt er til að halda áfram verkfræðistörf­um og annarri undirbúningsvinnu við áætlunina í náinni samvinnu við yður.

Ég hef lagt texta þessa bréfs fyrir ríkisstj. og þingflokka Sjálfstfl. og Alþfl. Allir þessir aðilar hafa lýst yfir fylgi við skoðanir þær sem þar koma fram, þar með talið skuldbindingu um að séð verði um lagalega hlið málsins eins fljótt og unnt er til þess að áætluninni verði hrundið af stað. Flokkur minn hefur ekki enn tekið afstöðu til áætlunarinnar í meginatriðum, en fellst á að miðað verði að því að staðfestingarlögin verði lögð fyrir Alþ. í byrjun næsta þings til þess að endanleg ákvörðun verði þá tekin. Það er álit mitt, að þér getið reitt yður á að hugsanlegar breytingar í stjórnmálum á Íslandi á þeim tíma þar til Alþ. tekur endanlega ákvörðun muni ekki hafa áhrif á þessi sjónarmið.

Það er einlæg von mín að bréf þetta geri okkur kleift að halda samvinnunni áfram og áætluninni, sem að mínu viti er svo mikilvæg fyrir iðnþróun lands míns, verði lokið sem fyrst.

Með bestu kveðju.

Virðingarfyllst,

Iðnaðarráðherra “

Þingflokkur Alþfl. féllst á það, að iðnrh. Magnús Kjartansson mætti skýra frá því, að hann hefði fjallað um efni þessa bréfs og sam­þykkt það fyrir sitt leyti. Hins vegar vildi þing­flokkur Sjálfstfl. hafa fyrirvara um ýmis atriði málsins, og mun hæstv. núv. iðnrh., Gunnar Thoroddsen, hafa skýrt Magnúsi Kjartanssyni frá því að hann vildi ekki samþykkja að til þess væri vitnað, að hann hefði samþykkt meginefni þessa bréfs. Þess vegna var þetta bréf aldrei sent. Ef þingflokkur Sjálfstfl. hefði samþykkt, eins og Alþfl. gerði, efni þessa bréfs, þá hefði það farið eins og ég núna las það. Þar er því lýst yfir við Union Carbide að ríkisstj. sé fylgjandi þeirri áætlun, þeim samningsdrögum, sem lágu fyrir, það hefði verið sent bréf þar sem iðnrh. þáv., alþb.-maðurinn Magnús Kjart­ansson, lýsir því yfir að þessi áætlun um stofn­un málmblendiverksmiðju í Hvalfirði í samvinnu við Union Carbide sé mikilvæg fyrir iðnþróun lands síns og þess vegna sé nauðsynlegt að framkvæmdinni verði hrundið fram sem allra fyrst.

En afstaða Sjálfstfl. varð því valdandi, að þetta bréf var ekki sent. Það stóð ekki á þáv. ríkisstj., það stóð ekki á þáv. iðnrh. Magnúsi Kjartans­syni. Það voru aths. Sjálfstfl. sem gerðu það að verkum að þetta bréf fór ekki. Þess vegna gerði hæstv. fyrrv. iðnrh. nýtt uppkast tveim dögum seinna, þar sem sagt er frá þessari af­stöðu þingflokks Alþfl. og Sjálfstfl. og þetta nýja uppkast frá 22. apríl hljóðar þannig með leyfi hæstv. forseta:

„Kæri herra Malone.

Ríkisstjórn Íslands hefur nú um skeið haft til athugunar uppkast að samningum milli ríkisstj. Íslands og Union Carbide Corporation um samvinnu um byggingu og rekstur járn­blendiverksmiðju á Íslandi. Tillögur þess­ar hafa stjórnarflokkarnir og einnig stjórnarandstöðuflokkarnir á Alþ. rætt ítarlega. Forsrh. og ég höfum einnig haft þá ánægju að hitta fulltrúa yðar, hr. Pitcher og hr. Eide, en þeir hafa verið í Reykjavík til þess að ræða um fram­vindu samvinnu okkar. Þeir hafa látið okkur og fulltrúum stjórnmálaflokkanna í té upplýs­ingar um skoðanir Union Carbide Corporation á því, að mikilvægt sé að hrinda þessum ákvörð­unum í framkvæmd sem fyrst. Ég vænti þess, að þeir hafi einnig myndað sínar eigin skoðanir um hið mikla fylgi, sem áætlunin nýtur.

Eins og þessum málum er háttað þykir mér fyrir því, að ég hef komist að þeirri niðurstöðu að ekki mundi verða ráðlegt að reyna að fá staðfestingarlögin samþ. á þessu þingi vegna anna í þinginu og stjórnmálalegra erfiðleika. Við gerum okkur ljóst, að eins og á stendur er áríðandi að þær getið lagt raunhæft mat á fram­tíð þessarar mikilvægu áætlunar. Ég vona að eftirtaldar aths. skýri stöðuna:

1. Ríkisstj. og ég teljum kjör þau og skilmála, sem samið hefur verið um, aðgengileg í öllum meginatriðum, og vil ég fullvissa yður um mik­inn og áframhaldandi áhuga á því að áætluninni verði hrundið í framkvæmd svo fljótt sem unnt er.

2. Iðnrn. mun tryggja að frv. til staðfestingar­laga verði lagt fyrir Alþ. í byrjun næsta reglu­legs Alþ., væntanlega snemma í okt. á þessu ári.

3. Til þess að sem minnstar tafir verði á byggingaráformum vegna þessa dráttar mun ríkisstj. gera ráðstafanir til þess að afla þess fjár sem nauðsynlegt er til þess að halda áfram verkfræðistörfum og annarri undirbúningsvinnu við áætlunina í náinni samvinnu við yður.

Ég hef lagt texta þessa bréfs fyrir ríkisstj. og þingflokka Sjálfstfl. og Alþfl. Ríkisstj. og Alþfl. hafa lýst yfir fylgi við skoðanir þær sem þar koma fram, þar með talið skuldbindingu um að séð verði um lagalega hlið málsins eins fljótt og unnt er til þess að áætluninni verði hrundið af stað. Flokkur minn hefur enn ekki tekið af­stöðu til áætlunarinnar í meginatriðum. Það sama gildir um Sjálfstfl., sem þó hefur lýst sig fúsan til þess að taka afstöðu þegar áætlanirnar hafa verið lagðar fyrir Alþingi.

Það er einlæg von mín, að bréf þetta geri okk­ur kleift að halda samvinnunni áfram og að áætluninni, sem að mínu áliti er svo mikilvæg fyrir iðnþróun lands míns, verði lokið sem fyrst.“

Uppkastið að þessu bréfi er dags. 22. apríl 1974, þ. e. a. s. tveimur dögum seinna en fyrra uppkastið sem ég las áðan. Þetta bréf var hins vegar ekki sent, og geri ég ráð fyrir því að skýringin sé fólgin í því, að miklar deilur hafi staðið um málið í þingflokki Alþb. En að sjálf­sögðu get ég ekki um það fullyrt og segi þetta með fyllsta fyrirvara, því að ég á ekki aðgang að upplýsingum um það, hvað gerist inni á þingflokksfundum í Alþb.

En mánuði seinna sendir iðnrh. Union Carbide bréf. Hann sendir bréf mánuði seinna, það er dags. 21. maí, og ég á satt að segja afar erfitt með að trúa því, að maður eins og Magnús Kjartansson, ráðh. flokksins í mikilvægu ráðherraembætti, sendi bréf frá rn. sínu án þess að málið hafi verið rætt í hans eigin þingflokki og hann hafi í raun og veru fengið leyfi til þess að senda bréfið. Ég á afar bágt með að trúa því, að hann hefði sent það bréf, sem ég mun lesa hér á eftir, ef það hefði verið í beinni andstöðu við meiri hl. í þingflokki Alþ. Þó að ég geti ekki fullyrt það, finnst mér því allt benda til þess, að þingflokkur Alþ. á sínum tíma hafi verið búinn að samþykkja að þetta bréf færi. Ef þetta er rétt, — ég skal játa að hér er um tilgátu að ræða, — en ef þessi tilgáta er rétt, þá er fyllsta ástæða til þess að kalla málflutning alþb.-manna nú siðlausan, eins og ég gerði áðan. En staðreyndin er sú, hvort sem það var gert með samþykki þingflokks Alþb. eða ekki, að iðnrh. Íslands, alþb.-maðurinn Magnús Kjartansson, sendi eftirfarandi bréf til Union Carbide, bréf, sem hljóðar þannig, með leyfi harstv. for­seta:

„Kæri herra Malone.

Ríkisstj. Íslands hefur nú um skeið haft til athugunar uppkast að samningum milli ríkisstj. Íslands og Union Carbide Corporation um samvinnu um byggingu og rekstur járnblendiverk­smiðju á Íslandi. Tillögur þessar hafa stjórnarflokkarnir og einnig stjórnarandstöðuflokkarnir á Alþ. rætt ítarlega. Forsrh. og ég höfum einnig haft þá ánægju að hitta fulltrúa yðar, hr. Pitcher og hr. Eide, en þeir hafa verið í Reykjavík til að ræða um framvindu samvinnu okkar. Þeir hafa látið okkur og fulltrúum stjórnmálaflokkanna í té upplýsingar um skoðun Union Carbide Corpo­ration á því, að mikilvægt sé að hrinda þessum áformum í framkvæmd sem fyrst. Ég vænti þess, að þeir hafi einnig myndað sínar eigin skoðanir um hið mikla fylgi sem áætlunin nýtur. Einnig voru þeir látnir vita um hið mjög svo erfiða ástand á stjórnmálasviðinu.

Óvissan í stjórnmálum á Alþ. og miklar þingannir aðrar höfðu þegar sannfært mig um að óráðlegt væri að leggja frv. að staðfestingarlögunum fyrir Alþ. á þeim tíma sem við höfðum upphaflega ákveðið. Atburðir, sem gerst hafa síðan hr. Pitcher fór frá Íslandi, hafa staðfest skoðun mína í þessu tilliti. Fyrstu daga mán­aðarins (þ. e. maímánaðar) varð stjórnmálakreppan alvarleg og forsrh. ákvað að rjúfa þing og boða til almennra kosninga, sem haldnar verða hinn 30. júní. Öll frv., sem liggja fyrir Alþ. verður nú að flytja á ný á næsta þingi. Atburða­rásin hefur gert óhjákvæmilegt að fresta hvers kyns frekari störfum við sameiginlegar framkvæmdir okkar þar til að kosningum loknum.

Við þessar aðstæður væri ekki rétt af mér að leitast við að benda á hverja afstöðu ríkisstj. Íslands kann að taka að kosningum loknum. Enginn veit nú hverjar stjórnmálabreytingar kosningarnar leiða af sér eða hve fljótt að þeim afstöðnum ný ríkisstj. eða núv. ríkisstj., ef hún verður endurkjörin, getur haft samband við yður á ný. Allt um það held ég að mér sé mögulegt að bera fram nokkrar aths. sem yður kunna að koma að gagni við að meta stöðuna.

Fyrst af öllu get ég staðfest, að ríkisstj. og ég sjálfur erum þeirrar skoðunar að skilmálar og skilyrði, sem um var samið við yður, voru viðunandi í öllum meginþáttum og við höfðum og höf­um enn mikinn og áframhaldandi áhuga á framkvæmd verksins í náinni framtíð. Þingflokkar Framsfl. og Alþfl. hafa fallist á þessa skoðun. Flokkur minn hafði hins vegar ekki enn tekið afstöðu um till., og þótt Sjálfstfl. hafi látið í ljós vilja til að greiða fyrir samþykkt frv., ef það yrði lagt fram fyrir þinglok, gerði hann vissa fyrir­vara um afstöðu sína til ýmissa efnisatriða.

Mér þykir mjög leitt að tafir þessar kunna að koma verkinu öllu á hættustig, en ég vona að þér sjáið, að núverandi ástand á rætur sínar að rekja til ófyrirsjáanlegra stjórnmálaörðugleika sem ekki eru í neinum tengslum við ágæti áformsins. Nú getum við einungis vonað að hægt verði að taka þetta mál upp fljótlega að væntan­legum kosningum afstöðnum.

Með bestu kveðjum.

Virðingarfyllst,

Magnús Kjartansson,

iðnaðarraðherra.“

Þetta bréf tekur auðvitað af öll tvímæli um það, að upphaf járnblendiverksmiðjumálsins alls var í iðnrn. í ráðherratíð alþb.-mannsins Magnús­ar Kjartanssonar. Það er ítrekað í tveimur upp­köstunum, sem ég las áðan, og í endanlega bréfinu, að þá, 21. maí 1974, er það eindregin skoðun þáv. ríkisstj. og eindregin skoðun þáv. iðnrh., Magnúsar Kjartanssonar, að hér sé um mjög mikilvægt mál að ræða, mjög mikilvaegt mál frá þjóðhagslegu sjónarmiði. Það er talað um ágæti áformsins í bréfinu, og ég segi það aftur, að ég leyfi mér að efast um, sterkar skal ég ekki kveða að orði, að Magnús Kjartansson hefði sent slíkt bréf nema hann hefði getað verið viss um að hann hefði meiri hl. þingflokks Alþb. að baki sér. Slíkt væri ólíkt starfsháttum manns á borð við Magnús Kjartansson.

Með hliðsjón af þessu hlýt ég að telja málflutning Alþb. nú vera óheiðarlegan. Þeir láta svo nú eins og þeim sé málið alls óviðkomandi, þeir tala eins og þeir hafi alla tíð verið andvígir málinu, þó að þær staðreyndir, sem ég hef hér greint frá, taki af öll tvímæli um það, að upphaf málsins er í iðnrn. Magnúsar Kjartanssonar, að hann sjálfur var eindreginn stuðningsmaður og fylgismaður málsins. Mér þykir langlíklegast að hann hafi haft meiri hl. þingflokks Alþb. á sínu bandi á þessum tíma, þ. e. a. s. vorið 1974. En það er í öllu falli alveg ljóst, það segir hann bein­línis í einu uppkastinu, að þingflokkur Alþb. hafi verið búinn að samþykkja að málið mætti leggja fyrir sem stjfrv. á haustþinginu 1974, það er a. m. k. skjalfest, að það hefur þingflokkur Alþb. samþykkt á sínum tíma, fyrir þrem árum og samt er talað eins og menn tala nú í dag.

Ég þarf ekki að orðlengja frekar um þetta, en í framhaldi af þeim umr., sem fram hafa farið við 1. umr. þessa máls, þá fannst mér nauðsyn­legt að þessi skjöl, sem að vísu hafa verið trún­aðarmál, séu birt þingi og þjóð til þess að þm. og þjóðin öll geti í heild áttað sig á upphafi og sögu þessa máls.

Þetta var annað atriðið þess sem gerði af­greiðsluna í gær eða meðferð málsins á þinginu nú sögulega. Hitt atriðið er það, sem ég vék að í upphafi, að þetta mál hefur orðið til þess að opinbera hversu veikum fótum núv. hæstv. ríkis­stj. stendur.