20.04.1977
Neðri deild: 68. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 3436 í B-deild Alþingistíðinda. (2421)

15. mál, veiðar í fiskveiðilandhelgi

Guðlaugur Gíslason:

Virðulegi forseti. Sjávar­útvegsmál hafa ekki tafið störf þingsins nú á þessu ári, og gæti maður haldið af þeirri ástæðu að þar væri allt í mjög góðu lagi og ekki ástæða til þess að ræða þennan veigamikla þátt þjóðarbúskaparins. Því miður er, eins og mál hafa þróast, svo komið, að ég hygg að Alþ. komist ekki hjá því að ræða þessi mál allítarlega og að sjútvrh. hljóti að gera Alþ. grein fyrir skoð­un sinni á málinu og þá ef hann hefur í huga einhverjar sérstakar ráðstafanir.

Ég vil á það benda, að samkv. upplýsingum fiskifræðinga hjá Hafrannsóknarstofninn við Suður- og Suðvesturland áætlaður 1970 samtals 600 þús. tonn. Í áætlun fyrir árið 1976 var stofn­inn kominn niður í 180 þús. tonn, og gerðu þeir sér vonir um að hann mundi þó ekki minnka á árinu 1977, heldur kannske aukast. Nú stöndum við frammi fyrir þeirri staðreynd, að þessi hrygningarstofn, sem af fiskifræðingum var áætlaður þetta mikill á árinu 1977, virðist alls ekki vera fyrir hendi nema þá í sáralitlum mæli. Aprílmánuður hefur venjulega skorið úr um fiskveiðarnar á vetrarvertíð hér við Suðvestur­landið og hefur það að sjálfsögðu mest byggst kynþroska fiski sem sækir á þau veiðisvæði, sem eru fyrir Suður- og Suðvesturlandi. Í dag er svo komið, þegar farið er allverulega að líða á aprílmánuð, þegar vetrarvertíð hefur að jafnaði staðið sem hæst, þá er um algert fiskileysi að ræða á öllu þessu svæði, frá Horna­firði og að Látrabjargi. Það berast um það fréttir úr verstöðvum, að bátar eru jafnvel hættir að reyna að vitja um net nema annan hvern dag, og allt til dagsins í dag var það svo, að heita mátti að um engan afla væri að ræða — ég segi: engan afla, þegar bátar fá aðeins eftir tveggja daga lögn 2–3 tonn á báta sem eru kannske 200–300 tonn með 11–12 neta­trossur í sjó.

Ef þannig er komið fyrir okkur að hrygningar­stofninn sé að heita má horfinn, þá hygg ég að málið fari að vandast fyrir íslendingum, ekki aðeins sjávarútvegsmálin, heldur efnahags­mál þjóðarinnar í heild. Það er ekki ástæða til þess að gefa upp alla von enn þá að svo gæti farið, að þeir dagar, sem eftir eru af aprílmánuði og eitthvað fram í maí, sýni betri útkomu og að þetta eigi eftir að lagast og við eigum eftir að sjá að eitthvað sé þó enn eftir af hrygningar­stofninum. Ég spurði fiskifræðinga um það fyrir tveimur dögum, hvort fylgst hefði verið með því, hvernig ástandið væri á hinu friðaða svæði hér á Selvogsbanka, hvort athuganir hefðu verið gerðar á því. Þeir sögðu að það hefði verið gert minna en þeir hefðu óskað eftir, af þeirri ástæðu að þeir hefðu verið uppteknir við önnur störf, og nú þegar þeir voru þó komnir inn á þetta svæði til athugunar, þá voru þeir kallaðir annan vettvang þar sem talið var að þyrfti að koma á skyndifriðun, en það var norður af Vestfjörðum.

Ég tel að það sé nauðsynlegt að Hafrann­sóknastofnun geri á því mjög ítarlegar athug­anir, hvort meiri fiskur sé á hinu friðaða svæði eða utan þess, og ég vil mjög ákveðið fara fram á það við hæstv. sjútvrh., að hann, ef Hafrannsóknastofnun hefur ekki þegar ákveðið að gera það, sjái um að þetta verði gert. Ég efa ekki að ef fiskur heldur inn á þetta friðaða svæði, sem er búið að vera friðað í þrjú eða fjögur ár og er kjarninn af hrygningarsvæðinu hér við Suðvesturlandið, miðbikið af Selvogsgrunninu, ef ekki er meiri fiskur inni á þessu svæði heldur en utan þess, þá er ástæða til þess að óttast að hrygningarstofninn sé þegar að ganga til þurrðar. Þarf ekki að hafa um það mörg orð, ef slíkt kæmi í ljós, hver afstaða okkar er og aðstaða þjóðar­búsins í heild.

En það má segja að þá sé um að ræða fisk annars staðar við landið, og er það alveg rétt. Það virðist vera nokkuð eftir af fiski fyrir Vest­ur-, Norður- og Norðausturlandi, og ætla fiski­fræðingar nú á árinu 1977 að þar muni vera um 1 millj. tonna að ræða. Þegar þeir gefa upp slíka tölu, þá ganga þeir út frá fiski sem er þriggja ára og eldri, þ. e. a. s. árgangarnir 1973 og eldri. En ef ekki á að koma við eðlileg viðbót frá hrygningarstöðvunum í einhverjum líkum mæli og verið hefur undanfarið, þá er einfalt reikningsdæmi að reikna það út hvenær íslendingar verða búnir að þurrka upp þorskstofninn hér við Ísland. Ein millj. tonna er að vísu mikið magn, ef horft er á það. En það verður fljótt að fara ef beitt verður þeim veiðiaðferðum og með þeim veiðitækjum sem við nú ráðum yfir, ég á þar við hinn mikilvirka togaraflota, — þá verður einnig þessi stofn fljótur að hverfa. Og það er alveg öruggt, að þó að ekki sé svo illa komið eins og kannske er ástæða til að hittast í dag, — ég tek það fram, ég vona að það sé ástæðulaus ótti að jafn illa sé komið fyrir þorsk­stofninum og tilefni gefst til að halda í dag, þá mundi það taka verulega langan tíma að rétta stofninn við.

Eins og vitað er, verður fiskur, sem elst upp í köldum sjó, þ. e. sjó eins og er fyrir Vestur-, Norður- og Austurlandi, ekki kynþroska fyrr en eftir 7–8 ár. Ef okkar stórvirku veiðitækjum verður beitt eins og verið hefur og engar hömlur þar settar á, þá er, eins og ég sagði, aðeins ein­falt reikningsdæmi að sjá hvenær við erum komnir að raunverulegum endalokum í veiðiskap á þessari fisktegund.

Þegar rannsóknarskip Hafrannsóknastofnunar var kallað af hinu friðaða svæði Selvogs­banka til athugunar á svæðinu fyrir Vestfjörðum, þá var það gert vegna þess að um borð í einum togara var eftirlitsmaður frá Hafrannsóknastofnuninni. Hann tilkynnti að sá afli, sem kæmi um borð í þann togara, væri að 70.2% fiskur sem væri undir 58 cm, þ. e. eftir mati fiskifræðinga fjögurra ára fiskur og yngri, 22.8% var af stærðinni frá 58–70 cm, sem þeir meta 5 ára gamlan fisk, aðeins 7% voru yfir 70 cm. Ég hygg að þetta sé nokkur spegilmynd af því sem er að gerast í fiskveiðunum á þessu hafsvæði. Það getur vel verið að þetta sé eitthvað meira nú en í annan tíma, en ég hygg þó að þetta sé ekki langt frá því að vera nokkur spegilmynd af því. Og ef ekki hefði verið eftirlitsmaður um borð í þessum togara, sem var þarna á veiðum, þá hefði ekki verið neitt við þessu hreyft. Þá hefði fiskiflotinn haldið áfram veiðum og veitt þá afla sem þannig var samsettur.

Ég hygg að allt þetta, sem ég hef nú bent á og eru aðeins staðreyndir sem fyrir liggja, sum­part samkv. upplýsingum frá Hafrannsóknastofnun og sumpart staðreyndum sem berast úr veiðistöðvunum hér við Suður- og Suðvesturland, gefi allt tilefni til þess að við hljótum að fara að ræða þessi mál í fullri alvöru og kannske frá öðrum sjónarhól en við höfum gert fram að þessu, því að allir höfðum við trúað því, að með hóflegri takmörkun á fiskveiðunum mundi ekki nein hætta vera á ferðum. En ef ekki verður breyting á þá daga sem eftir eru af vetrarvertíð, þá hygg ég að þurfi að taka öll þessi mál upp til endurskoðunar og gera beinar ráðstaf­anir til þess að ekki fari eins fyrir þorskstofn­inum hér við land og fyrir síldarstofninum sem hvarf frá landinu að mati fiskifræðinga hreinlega vegna ofveiði á ókynþroska fiski, mest við Noregsstrendur. Auðvitað er hér úr miklum vanda að ráða. Það hljóta allir að gera sér ljóst, að ef þarf að verða verulegur sam­dráttur í fiskveiðum, hvort sem er hjá togara­flotanum eða bátaflotanum, þá getur þjóðarbúið í heild staðið mjög höllum fæti. Og ég vil halda því alveg ákveðið fram, að full ástæða sé til að fara að ugga að sér og að hæstv. sjútvrh. fari að nota þær heimildir, sem hann hefur í fiskveiðilögum, og beita þeim þannig að ekki verði hrun í þorskstofninum. Ég skal viðurkenna að hæstv. ráðh. hefur í mörgum tilfellum beitt þessum lögum að mínum dómi á skynsamlegan hátt með takmörkunum, þegar upp hefur komið að óeðlilega mikið af smáfiski hefur verið veitt. En með þeim litla mannafla, sem Hafrannsóknastofnunin hefur til eftirlits, er alveg gefið að ef ekkert frekar verður að gert, þá mun togara­flotinn halda áfram að veiða þennan ókyn­þroska fisk, og fiskifræðingar segja mér að uppistaðan í veiðunum sé orðin árgangarnir frá 1972 og 1973, þ. e. a. s. 4–5 ára gamall fiskur, og ef hann verður veiddur í sama mæli áfram og verið hefur, þá segir það sína sögu, að hrygningarfiskur hættir að koma á stöðvarnar fyrir Suður- og Suðvesturlandi og þorskstofninn hlýtur þá að láta mjög mikið á sjá á miklu styttri tíma en við höfum gert ráð fyrir.

Hér hefur verið lögð fram till. af hv. 5. þm. Suðurl. um að takmarka flotvörpuveiðar um eins árs skeið. Ég vil geta þess, að ég spurði fiskifræðinga um álit þeirra á þessu. Þeir sögðu að að sínum dómi, eftir því sem þeir víssu best, veiddi flotvarpan mjög svipaðar fisktegundir, og á ég þar við stærðarhlutfall af fisk­tegundum, aðallega þorskinum, og botnvarpan, en hún væri miklu afkastameira veiðartæki þeg­ar hægt væri að beita henni, þegar aðstæður væru þannig að fiskur væri uppi í sjó, þá væri hún miklu afkastameiri en botnvarpan, þ. e. a. s. að með flotvörpu er hægt að farga miklu stærri hluta af stofninum, ef hún verður almennt tekin upp og almennt leyfð, heldur en þó er hægt með botnvörpu. Þetta er umsögn og álit fiskifræðinga, þannig að ég get ekki verið sam­mála hv. 8. þm. Reykv. um að flotvarpan sé ekki skaðlegra veiðarfæri en botnvarpan. Þetta er sú skoðun sem ég hef fengið hjá fiskifræð­ingum Hafrannsóknastofnunar.

Ég vil í þessu sambandi benda á það, að Fiski­þing gerði einróma samþykkt á árinu 1975, hygg ég að það hafi verið, um að skylda öll íslensk fiskiskip að koma með að landi allan þann afla sem þau fengju um borð í skipin og þá sama um hvaða veiðarfæri væri að ræða. Ég er sannfærður um að ef þessi till. hefði verið tekin upp á sínum tíma hefði betur farið. Hún var mjög rædd í þeirri n. sem undirbjó fisk­veiðilögin síðast, en fékk þar ekki nægilegan hljómgrunn. Ég benti á þetta bæði í þeirri n. og eins í sjútvn., en það var þá ekki samstaða um að taka þessa till. upp í frv. Ég hygg þó, að ef það hefði verið gert, þá a. m. k. hefðum við vitað um það frekar en við vitum í dag, hvað mikið raunverulega er drepið af þorskstofn­inum hér við Ísland, og þá þyrfti ekki að vera nein deila um það milli togaraútgerðarmanna og bátamanna eða annarra landsmanna, hvað mikið væri aftur mokað í sjóinn af togaraflot­anum af fiski sem er veiddur, en er ekki innan þeirra stærðarmarka sem leyfilegt er að koma með í land. Ég vil benda á það hér, að þó að við heyrum um það fréttir að togari á þessum og þessum stað hafi landað þetta miklum afla og samsetning aflans sé á þá lund eins og gefið er upp, þá er ekki nokkur sönnun fyrir því að það sé hin rétta mynd af þeim afla sem þetta skip hefur veitt. Og slæmt er, ef það er eins og staðfest var í fyrradag af hálfu Hafrann­sóknastofnunarinnar, að afli togaraflota, sem var að veiða út af Vestfjörðum norðan til, hafi verið eins og ég las hér upp, ég hef þessar tölur beint frá Hafrannsóknastofnun, — þeir voru þá nýbúnir að fá þær í sínar hendur og voru einmitt á þeim klukkutíma að gera ráð­stafanir til að loka svæðinu, en þar var aflinn, eins og ég sagði áðan, 70.2% af hreinum smá­fiski, 4 ára og yngri, 22.8% af 4–5 ára fiski og aðeins 7% af stærri fiski. Ég tel vegna þess, sem ég hef bent á, en vona að ég sé kannske of svartsýnn á ástandið eins og það er í dag, ég hreinlega vona að það komi í ljós, að það verði betra í vertíðarlok heldur en við stöndum frammi fyrir í dag, en ef það reynist ekki, þá held ég að það sé alveg öruggt að gera verður einhverjar alveg sérstakar og allróttækar ráðstafanir til verndunar þorskstofninum.

Af þeirri umsögn, sem ég fékk hjá Hafrann­sóknastofnuninni um notagildi flotvörpu, að þó að hún veiddi fisk af sömu stærð yfirleitt og botnvarpan, þá væri hún þetta miklu afkasta­meira veiðitæki, þá mun ég fylgja till. hv. 5. þm. Suðurl., því að ég tel hana spor í rétta átt og kannske byrjun á því sem þarf að gera til að draga úr mestu sókninni í ókynþroska smá­fisk sem við nú orðið byggjum verulegan hluta af okkar þorskveiðum á. Ég tel hana miða í þá átt og tel sjálfsagt að þetta verði reynt í eitt ár, ef það gæti orðið til þess að draga úr sókninni í smáfiskinn. Mun ég af þeim ástæðum greiða atkv. með henni.

Ég hef alltaf trúað því frá fyrstu tíð, að með friðunaraðgerðum, eins og með því að loka heil­um svæðum, ekki aðeins tímabundið, heldur allt árið og árum saman, mundu fiskstofnar aukast, hvort sem um væri að ræða hrygningar­stofninn hér við Suðurlandið eða smáfiskssvæð­in fyrir Norður- og Norðausturlandi, þá mundi það verða til þess að byggja stofninn verulega upp og auka heildarmagnið. Um friðunarsvæðið hér við Suðurland, á Selvogsbankanum, verður ekki annað sagt en það sé allstórt svæði, Ég fékk um það upplýsingar hjá Landhelgisgæslunni í dag, að það væri 2524 ferkm. Það er svæði að lengd til svipað og héðan frá Reykjavík og austur að Hellu og 34 km breitt. Þetta er all­stórt hafsvæði. Sú skoðun var uppi a. m. k. hjá mjög mörgum aðilum, að slík friðun hlyti að gefa fiskinum betra næði og inn á þá mundi fiskurinn sækja og þá hrygningarstofninn við það vaxa. Ef það kæmi í ljós við athugun að þetta hefði ekki borið þann árangur sem menn gerðu sér vonir um, þá þarf að mínum dómi enn frekar að fara að skoða málið allt í fullri alvöru.

Við það að athuga aflaskýrslur Fiskifélagsins undanfarin ár yfir afla á vetrarvertíð á svæðinu frá Hornafirði að Snæfellsnesi kemur það í ljós, að afli bátaflotans á þessu svæði hefur minnkað síðan 1970 um að ég hygg rúmlega helming. Þetta segir auðvitað sína sögu, að við hljótum í fisk­veiðimálum að vera að stefna í enn meiri ógöngur heldur en við fram að þessu höfum gert okkur grein fyrir. Af þeirri ástæðu hlýtur það að vera skylda Alþ. og stjórnvalda að gefa þessu máli verulegan gaum, gefa því verulegan gaum hvaða aðstöðu við erum komnir í í dag í sambandi við fiskveiðarnar, hvernig við högum okkur í sam­bandi við þær og hvort það muni ekki leiða til beins ófarnaðar ef fram verður haldið eins og nú er gert. Ef það á eftir að sýna sig að hrygningarstofninn er til þess að gera nær horf­inn af svæðinu hér fyrir Suður- og Suðvestur­landi, þá hlýtur að vera hætta á ferðum, ef ekki verður nein breyting til batnaðar síðustu daga vertíðarinnar frá því sem nú er.