20.04.1977
Neðri deild: 68. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 3458 í B-deild Alþingistíðinda. (2426)

15. mál, veiðar í fiskveiðilandhelgi

Garðar Sigurðsson:

Virðulegi forseti. Ég tel að ég geti verið stuttorður að þessu sinni. Ég held að mér hafi tekist að segja megnið af því, sem ég vildi segja, í minni fyrri ræðu. En ég kemst varla hjá því að minnast örfáum orðum á ýmislegt sem fram hefur komið í ræðum manna.

Þá er það að segja um ræðu hv. þm. Sverris Hermannssonar, sem var ágætlega flutt og all­skemmtileg, eins og hans er vandi, að ég kemst ekki hjá því að gera ýmsar aths. við það sem hann sagði.

Hann segir m. a. um það svæði, sem talað er um í brtt. sem rn. óskaði eftir að n. flytti, að þar sé till. um að flytja stóra báta upp undir fjöru eða 4 mílur frá fjöruborði, en það var ein af þeim till., sem sérfræðingar í Hafrannsóknastofnuninni höfðu ekkert við að athuga, ósköp einfaldlega vegna þess að þeir álitu að þar væri ekki um að ræða ofveiði á þeim fiskstofni sem veikastur er, því að á þessu svæði er aðal­lega um að ræða veiði á ýsu og ufsa og að vísu ýmsum öðrum tegundum.

Hann reyndi að vera pínulítið skemmtilegur með því að spyrja þeirrar spurningar, hvort ýsan í Mýrabug væri öðruvísi en ýsan í Faxa­flóa, og vildi gera því skóna að göngur ýsunn­ar þarna við Suðausturlandið og Ingólfshöfðann væru þannig, að þar væri ævinlega smáýsa á ferðinni, a. m. k. að talsverðu leyti í bland við stærri fiskinn. Þetta er nú bara ekki svona. Oftast er það svo á Ingólfshöfðasvæðinu og Víkursvæðinu, að þar er yfirleitt um stóran fisk að ræða, en á vissum árstímum koma þarna smáýsugöngur og það eru heimildir í þessum lögum til að stöðva þær veiðar á meðan smá­fiskurinn gengur hjá. Sama er að segja um það svæði sem er opið upp í landið vestur af Eyjum. Þar er stundum smáýsa og stundum góð ýsa, en veiðum þar hefur verið hætt þegar smáa ýsan hefur verið áberandi í aflanum. Reynslan hefur sýnt að smærri ýsan, þó ekki undir lágmörkum, hefur verið þetta um 9–10% af öllu magninu, sem eru allt aðrar tölur en hv. þm. Guðlaugur Gíslason nefndi og hefur úr opinberum heimildum um stærð fisksins sem veiðist á Vestfjörðum. Þær tölur eru réttar og þær tölur eru ljótar. En hv. þm. Karvel Pálmason virðist, þó að hann hafi oft augun opin, hafa tilhneigingu til þess að loka þeim þegar óþægilegar staðreyndir blasa við. En þeir, sem taka þátt í stjórnmálum, verða að láta sig hafa það að horfa nákvæmlega, hvort sem um er að ræða þægilegar eða óþægilegar staðreyndir.

Hv. þm. Sverrir Hermannsson sagði, — ég veit ekki hvort það hefur verið í gamni, en við skulum ekkert vera að breiða það út annars staðar, — það er dálítið slæmt að maður, sem hefur, eins og við vitum, talsverða þekkingu á sjávarútvegsmálum, skuli segja að það séu undan­tekningar fremur en regla að fiskimenn hagi sér ekki eins og rummungar. (Gripið fram í: Ég sagði útgerðarmenn og sjómenn.) Þetta eru auðvitað hin verstu ósannindi, og mér þykir leitt að þurfa að nefna þetta í rauninni. Sannleik­urinn er sá, að það eru alltaf einhverjir sem brjóta settar reglur í sambandi við togveiðar. Það hefur líka komið fyrir fiskimenn úr okkar byggðarlagi, okkar Guðlaugs. Það hefur raunar oft komið fyrir gegnum árin. En sannleikurinn er sá, að þeim hefur farið fækkandi. Það eru tiltölulega fári af heildinni sem hafa gert þetta. En það er alltaf gikkur í hverri veiðistöð, sem nægir kannske til þess að menn, sem gera sér fyrst og fremst far um að vera skemmtilegir þegar þeir ræða alvarleg mál, noti sér það.

Hv. þm. Sverrir Hermannsson segir það sem menn hafa verið að éta hér upp hver eftir öðrum, að flotvarpan sé afkastamikil — og það er auð­vitað rétt — og síðan segir hann að auðvitað eigi að nota afkastamestu tækin og í staðinn fyrir að banna flotvörpuna væri miklu nær að minnka sóknina, eins og þetta séu andstæður. Þetta eru bara alls ekki andstæður. Það má minnka sóknina með ýmsum hætti. Það má minnka sóknina með því að fara eftir till. sem heyrst hafa um það að leggja flotanum svo og svo lengi eða leggja flotanum kannske rétt eftir mitt ár, þegar búið væri að fiska upp í þann kvóta sem leyfður er. Það má minnka sóknina með því að fækka skipum o. s. frv., o. s. frv. En það má líka minnka sóknina með því að tak­marka stórvirkustu veiðarfærin, svo að ég tali nú ekki um þegar svo stendur á, að þessi geysi­lega stórvirku og ég vil segja skemmtilegu veiðar­færi eru notuð einmitt á þeim svæðum þar sem mest er af þeim fiski sem við eigum að reyna að passa upp á að drepa ekki of mikið af. Þetta er heila málið.

Eitt af skemmtilegheitunum var það, að ég væri fæddur og alinn upp á sjó og svona nokkuð. Það er auðvitað svolítið gaman að þessu, að fá að heyra þetta frá svo miklum spekingi eins og Sverri. En þetta er auðvitað ekkert innlegg í málið til eða frá. Þetta eru hrein aukaatriði og sögð frekar til að punta upp á það munstur sem hann var að reyna að teikna hér, en mis­tókst að gera með reglubundnum hætti, ­nefndi það, að þó að ég hefði kannske verið dálítið lengi á sjó, sem er auðvitað rétt, þá væri ég löngu kominn í land með pokann eða verið sendur í land með pokann minn og þekkti þá ekkert til þessara mála. Ég gerði það mér til upplýsinga og einmitt til þess að fræðast í raun og veru um þessa hluti, að í mínu páska­leyfi gerðist ég togarasjómaður og fór einmitt á þessi svæði út af Vestfjörðum á fiskirí, það er ekki lengra síðan. Ég horfði upp á þetta þá, bara í síðustu aflahrotunni, þannig að allir slík­ir sleggjudómar eru alveg út í hött.

Hann sagði að þeir, sem gerst mega þekkja, þ. e. a. s. skipstjórarnir á togurunum fyrir vestan, flottrollsskipstjórarnir, segðu, og hann nefndi þeirra vitnisburð, hann væri sá, að þetta væri hinn besti fiskur. Þeir vita vel að það er kvartað undan þessum veiðum þeirra, og ég er ekkert hissa á því að ákafamenn í þessum efnum, eins og svo miklir fiskimenn eru ævinlega, reyni að koma með eitthvað annað á móti. Ég er ekki viss um að slíkir dómar eða umsagnir þeirra sjálfra, sem nota þessi veiðarfæri í stórum stíl, séu ekki dálítið hlutdrægir. Það getur hver séð það sjálfur, að það er a. m. k. mjög hætt við því.

Hv. þm. Sverrir Hermannsson vill núna nýja stóra nefnd með þm. og sérfræðingum o. s. frv. Ég held að það sé hægt að hafa þessi mál í stöðugri endurskoðun án þess að vera sífellt að setja slíkt „apparat“ í gang sem ferðaðist um landið o. s. frv. og væri heilt ár að vinna og þetta nokkuð. Ég vil leyfa mér að efast um að það skili nokkuð betri árangri, a. m. k. skömmu eftir gildistöku laganna, heldur en það að við fylgjumst bara með málunum hér í hinu háa Alþ. Og þó að það sé gert grín að því að menn segist hafa vit á þessu og hinn, þá er það óneitanlegt, að við heyrum það hver á sínum stað í okkar kjördæmum, í verstöðvum, hvað er þar efst á baugi, þannig að við vitum hvernig ástand­ið er hverju sinni. Við þurfum enga stóra nefnd til þess. Þess vegna held ég að það sé miklu betra, eins og ég raunar gat um í minni fyrstu ræðu við 1. eða 2. umr. þessa máls, að Alþ. hafi þetta mál í stöðugri endurskoðun og færi til betri vegar, ef þörf krefur, og geri smávægi­legar lagfæringar, eins og þessar brtt. fjalla um, ýmist til þrengingar eða rýmkunar, eins og nú er verið að gera.

Síðan kom hv. þm. Sverrir Hermannsson með beiðni. Hann bað mig og hv. þm. Guðlaug Gíslason um að segja sér hvar væri friðunar­svæði á Selvogsbanka, hið svokallaða frímerki, sagði að stærð svæðisins núna sé aðeins eða rúmlega 1/3 hluti þess sem fiskifræðingar lögðu til. Þetta er auðvitað misminni hjá hv. þm., — algert misminni. Svæðið er nokkru stærra en það var fyrir, það var stækkað til austurs, en ekki minnkað að vestan. En ég vil segja það, að okkar ágætu fiskifræðingar höfðu giskað á að meginhrygningin færi fram á svæði sem væri aðallega austast á núverandi svæði og held­ur austan við svæðismörkin. Það varð að sam­komulagi að fara ekki alveg eins austarlega með þetta og fiskifræðingarnir lögðu til, það er rétt. En á móti kom það, að fiskifræðingarnir lögðu til að svæðið minnkaði að vestan eins og menn muna, — það átti að færast austur, minnka að vestan og stækka að austan. Ég ræddi þetta nákvæmlega við þessa sérfræðinga, einkum Sig­fús Schopka, sem mun vera sérfræðingur varð­andi þorsk, og benti honum á að með því að opna svæðið að vestan opnuðust allmerkileg og gömul fiskimið og einmitt hrygningarmið inni á Selvogsbankanum. Ég treysti því, að þeir þm., sem þarna voru, muni eftir þessu. Og ég bað þennan ágæta sérfræðing að segja mér til um það hverju munaði, hversu miklu meiru væri hlíft með því að færa svæðið austur, en opna það að vestan og þá fyrir togurum auðvitað sem gætu þá togað á sínum gömlu Selvogsbanka­miðum um tána og inn í krikann. Þegar hann fór að hugsa um málið gat hann ekki svarað því. Ég leyfði mér nefnilega að efast um að þetta væri til mikilla bóta, og hann var mjög þenkjandi yfir þessu á eftir.

Ég er ekki alveg viss um að fólk geri sér almennt grein fyrir því, hvernig fiskur hrygnir eða hvernig þorskurinn hrygnir. Ég held að það sé almenn skoðun, að fólk haldi að hann syndi þarna um fram eftir vertíðinni, þangað til kemur að þeim degi að hann ætlar sér að hrygna, og hrygni þá úr sér öllu í einu, eins og þegar dýrategund getur af sér afkvæmi, það sé sem sagt bara einn fæðingardagur. En þetta er mis­skilningur. Þorskurinn byrjar að hrygna á ákveðnum tíma, oftast síðari hlutann í mars, og hrygningin stendur langt fram í apríl, þannig að hver fiskur er 4–5 vikur að hrygna. Einn og sami fiskurinn byrjar að hrygna og hrygnir svo smátt og smátt í margar vikur. Svona er þetta. Og á þessum tíma ferðast fiskurinn mikið um, þannig að þessi tilfærsla í austur og opnun í vestur með þessar staðreyndir í huga í viðbót fylla mig enn meiri efa um að það hafi verið um minni friðun að ræða heldur en þeir lögðu upphaflega til. Ég hygg að við höfum nefni­lega komist að samkomulagi um friðunaraðgerðir í þessum efnum sem jafngiltu alveg þeirri till., því að svæðið hélt sinni stærð að vestan, en stækkaði í austur.

Hins vegar held ég að mér sé alveg óhætt að segja það hér, af því að menn eru að væna mig um sérstök kjördæmissjónarmið, sem er alveg út í hött, að ef það væri talið nauðsynlegt að friða meira vegna hrygningarinnar, þá gæti ég vel hugsað mér að taka undir þær óskir, ef greinilega væri um hættuástand að ræða, jafnvel þó að það hefði slæm áhrif á okkar fiskirí, því að málið er svo alvarlegt að menn verða að leggja kjördæmissjónarmiðin á hilluna, eins og ég sagði áðan.

Hv. þm. sagði að ég hefði staðið hér að lagasetningunni í fyrra með hinum, og það er alveg rétt. Þessi lagasetning var erfið, eins og alltaf er þegar sjónarmiðin eru margvísleg milli hinna ýmsu tegunda veiðarfæra, milli hinna ýmsu staða á landinu og milli mismunandi hagsmuna. Það er alltaf erfitt að komast að slíku samkomulagi, sem er þó þannig úr garði gert að sem flestir geti verið ánægðir með. Og það er rétt, að ég stöð að þessari lagasetningu án þess að koma með þessa till. fram í það skipti. Hins vegar hafði þessi till. þá verið rædd í stórun., en til þess að koma málinu áfram, og það álitum við allir nauðsyn­legt, þá gerðum við samkomulag um að það færi aðeins fram sem við vorum allir sammála um. Þess vegna stöð ég að þessari lagasetningu þrátt fyrir það að ekki var fullt samkomulag um það í mínum þingflokki, og eru þó þar ýmsir sérfræðingar í þessum efnum eins og menn mega kannske vita.

Hv. þm. Sverrir Hermannsson talaði um það varðandi veiðina þarna við Suðausturlandið, ekki aðeins að við ættum að hleypa svo nærri landi, heldur sagði hann líka, að nú ætti að fara að hleypa inn flotanum sem hefði gert góða vertíð á loðnunni, nú ættu þeir að fara að gramsa í fiskinum alveg upp undir sandi. Þetta er því miður dálítið mikill misskilningur, því að þessi hv. þm., þótt útgerðarmaður sé, gerir yfirleitt ekki út báta af þessari stærð. Hann þekkir þessi vandamál ekki af neinum eldi sem á honum brennur. Hann gerir út stóra togara og gengur sem betur fer vel. Þarna er alls ekki um það að ræða, að við ætlum að fara að hleypa inn stórum flota eins og hann nefndi, 300–350 tonn, með miklu vélarafli. Það er alger misskilningur. Með þessu móti er verið að opna þrjú veiði­svæði, tvö lítil og eitt kannske heldur stærra. En þarna er fyrst og fremst um að ræða að hleypa inn skipum sem eru aðeins yfir lægri mörkunum, þannig að þau mega ekki fylgja þeim sem eru minni en 26 m, og raunar nokkrum bátum heldur stærri, jafnvel upp í 200 tonn. En það vita allir, sem eitthvað þekkja til þessara hluta, að þeir bátar eru vélarvana, þeir geta alls ekki togað á djúpu vatni, enda er á fáum stöð­um hægt að toga á djúpu vatni fyrir suður­ströndinni. Það vill svo til að landgrunnið þar er allt öðruvísi í laginu en fyrir utan hv. þm. Karvel Pálmason. Það er mjög mjótt. Þar tekur við ýmist hafdýpi eða hraun og alls ekki hægt að stunda togveiðar á því, þeir í Hafrannsókna­stofnun sögðu, eins og ég nefndi áðan, ekkert við þessu því að þarna er alls ekkert um að ræða að drepa neinn þorsk — alls ekki um það að ræða að drepa þorsk. Og sama er að segja um þennan þríhyrning sem hann gerði mikið grín að. Það er rétt, að hann er ekki stór, en hann er til hægðarauka fyrir þá fáu togara sem leggja sig eftir þessum miðum, erfiðu miðum þarna við suðurströndina, og þar er næstum eingöngu um ufsaveiði að ræða, og sérfræðingar Hafrannsóknastofnunar sögðu að það skipti engu máli til eða frá, eins og rétt er.

Þá vil ég aðeins víkja örfáum orðum að því sem hv. þm. Karvel Pálmason sagði í sinni ræðu. Hann sagði enn einu sinni og þandi sig mikið, að það væri upplýst að fiskifræðingar sæju enga sérstaka hættu samfara því að veiða með flotvörpu. Það, sem fiskifræðingarnir hafa sagt, er það, að við megum veiða svona og svona mikið magn af fiski og helst ekki smáfisk að vísu og okkur er alveg sama í hvaða veiðarfæri þetta fæst. Það eru þó fiskifræðileg sjónarmið, það má veiða svona mikið magn, en helst ekki smá­fiskinn. Þeir gera sem sagt ekki greinarmun á því, í hvaða veiðarfæri fiskur er drepinn. En þannig er málið, eins og ég sagði í minni fyrstu ræðu, að þegar minnkar í botntrollið, þá taka þeir til við að nota flottrollið á fiskitorfur, sem eru uppi í sjó, og það er staðreynd, sem þeir auðvitað vita og þora ekki að neita, að þarna er helst hægt að veiða fiskinn, þarna hópast hann í torfur uppi í sjó af öllum stærðum og mikið auðvitað af smáfiski, eins og við vitum allir sem höfum séð þennan fisk, og það er sem sagt verið að veiða með þessu á þessu viðkvæma svæði. Það er að þessu leyti til sem flotvarpan bætist við. Og varðandi þá fullyrðingu hv. þm. Karvels Pálmasonar, að jafnbesta hráefnið fáist úr flotvörpunni, þá hef ég margsinnis séð það og meira að segja fleiri hv. þm. hér á Alþ., að þegar þeir hafa komið með aflann úr flotvörp­unni hingað til Reykjavíkur, þá er allt annað mat á því heldur en Karvel nefndi að væri fyrir vestan. Þetta er hið versta rusl oft og tíðum, –­- ég segi alls ekki alltaf, því að það getur auð­vitað komið góður fiskur og kemur í flottrollið eins og önnur veiðarfæri. Og ég vil leyfa mér að endurtaka það, að á sama tíma og við erum að gera ýmsar ráðstafanir til takmörkunar á veiðum til þess að vernda smáfiskinn, einmitt á þeim sama tíma er þessu stórvirka veiðarfæri bætt við. Það er ekkert samræmi í þessum vinnu­brögðum, að vera að takmarka með mörgum hætti — oft á erfiðan hátt — veiðar á þessum fiski, en bæta á sama tíma við þessu feiknarlega veiðarfæri, því að flottrollið er aðeins notað þar sem mest er af þessum fiski sem átti að vernda.

Hv. þm. Karvel Pálmason nefndi hér netaveiðarnar fyrir Suðvesturlandi og úr netunum kæmi vont hráefni, og það er satt. Úr netunum kemur oft vont hráefni. Það er þó auðvitað verst hráefnið sem kemur úr netunum sem hefur legið dautt í sjó. En ég vil leyfa mér að fullyrða það, að eitt besta hráefnið, sem kemur á land, er þó úr netunum ef þau eru dregin daglega, því þá er langmestur hlutinn lifandi fiskur. Hins vegar er það alveg augljóst, að ef bátarnir hafa miklu meiri veiðarfæri en þeir komast yfir að draga, þá hlýtur svo og svo mikið af því að verða dautt, og það er ekki eins gott hráefni að sjálfsögðu. Það hefur verið í gildi reglugerð um netafjölda fiskibáta. Því miður hefur sú reglugerð verið brotin mjög lengi og kannske nokkuð almennt, ég þori ekki að fullyrða það, það er opinbert leyndarmál. Ég vil lýsa því yfir fyrir mína hönd, að ég væri fyrstur manna til þess að reyna að framfylgja slíkum reglum, því að það er sjálfsagt að hlíta reglum af þessu tagi. Það getur bara verið dálítið erfitt að koma eftirlitinu við. Þó hlýtur að finnast á því lausn. Og ég vil leyfa mér að skora á hæstv. sjútvrh. að reyna í samvinnu við sína menn og þá einnig sjómenn, hvernig væri hægt að taka á þessu máli, því að sannleikurinn er sá, að það eru ekki allir sjómenn hrifnir af því, jafnvel þó að þeir taki þátt í þessu, því að netaútgerð er ákaflega dýr, eins og við vitum, og kostar feiknin öll að hafa svona mikil veiðarfæri í sjó. Ég er viss um að það mætti fá jafngóðan afla og næstum eins mikinn afla jafnvel þó að það væri notað miklu minna af veiðarfærum en oft er gert. A. m. k. fengjum við betri afla, því að það er ekkert sem mælir með því að það sé réttlátt að ausa svo út veiðarfærunum að menn séu að ofveiða þennan viðkvæma fisk­stofn og skila honum kannske ónýtum í land. Og ég er fyrsti maður til þess að taka undir það, að í þessu verði eitthvað gert og sjálfsagt að gera.

Um það, hvað hægt væri að gera í þessum efnum, held ég að sé kannske ekki rétt að ræða núna. Það tæki of langan tíma og nú er orðið nokkuð áliðið og ég fer senn að ljúka máli mínu. En þetta þarf að athuga vel í alvöru, en það er ýmislegt sem er vissulega hægt að gera í þessu tilliti.

Herra forseti. nú fer að styttast í þessu. Ég held að það sé ekki ástæða til þess að svara því sem hv. þm. Karvel Pálmason talaði um öfund í garð vestfirskra sjómanna og þeir, sem ekki væru vestfirðingar, öfunduðu þá svo mikið að þeir vildu reyna að skera niður afla þeirra o. s. frv. Þetta er auðvitað ansi leiðinlegt, að menn þurfi að grípa til slíkrar röksemdafærslu, og það sæti síst á mér að fara að níða skóinn niður af vestfirðingum, sem er vestfirðingur sjálfur í allar ættir. (KP: Það sést nú lítið af því.) Það veist þú minnst um, drengur minn. Og eins að líkja saman þeirri viðbót í sókn, sem flottroll gerir, eins og ég nefndi fyrr, að líkja því saman við það að nota nælonnet og hampnet á sínum tíma, það er ekki góð samlík­ing og stenst engan veginn, enda held ég að það þurfi ekkert að vera að tala um net í þessu sambandi þegar við erum að tala um að vernda smáfiskinn, því að hann festist alls ekki í netum, hvorki hampnetum né nælonnetum.

Ég verð bara að segja það, þó að ég sé nú ekki vanur að taka mjög djúpt í árinni né nota hörð orð hér úr þessum ræðustóli, að mér þykir það sannarlega ekki vera beysinn málstaður hv. þm. Karvels Pálmasonar, þegar hann þarf að grípa til hreinna ósanninda, en ósannindi eiga ekki heima í þessum efnum. Ég sagði að fyrir vestan hefði verið á þeim tíma, sem ég fylgdist sem best með þessu, langt yfir 90% af þeim fiski sem veiddist, þótt sums staðar væri all­góður fiskur veiddur, þá væri svo geysihá prósenta af því ókynþroska fiskur. Það er auð­vitað alveg rétt, og ég skora á hv. þm. Karvel Pálmason að hrekja það ef hann getur. Hann sneri þessu hins vegar upp í það, að ég hefði sagt að þetta hefði allt saman verið undirmáls­fiskur. Kannske veit hv. þm. ekki muninn á undirmálsfiski og ókyþroska fiski. Vissulega er undirmálsfiskur ókynþroska, en það er ekki nægi­legt til þess að segja það, að ókynþroska fiskur þurfi endilega að vera undirmálsþoskur.

Hv. þm. Karvel Pálmason talaði um það, að málflutningur minn ætti að vera með öðrum hætti, og vísaði þá til þess sem ég sagði í fyrri ræðu minni. Ég skil nú ekki með hverjum öðrum hætti ég hefði getað talað um þessi efni. Ég held að ég hafi hvergi ýkt eða rangfært og þaðan af síður farið með ósannindi og ég treysti mér til þess að standa við allt það sem ég sagði þá. Hann át upp það sem hv. þm. Sverrir Her­mannsson sagði um till. fiskifræðinga gagnvart Selvogsbankasvæðinu. Greinilega hefur hann ver­ið búinn að gleyma því og ekki vitað það frek­ar en annað og át það alveg hrátt án þess að honum klígjaði hið minnsta við. Ég er búinn að hrekja það allt saman, enda er það bókað nákvæmlega og hægt að sýna það svart á hvítu, hvað raunverulega var þar um talað. Ég get sýnt hv. þm. hreint kort af svæðinu frá fiskifræðingunum sjálfum um þetta og kort af svæð­inu eins og það lítur út núna, og ef þeir tala þar um 1/3, þá vita þeir ekki hvað 1/3 er og þarf þá að fara að kenna þeim það líka. Virðist mér nóg að þurfa að fara að kenna þeim eitthvað í þess­um praktísku efnum varðandi þessi mál, þó að maður þurfi ekki að fara að standa í reiknings­kennslu á gamalsaldri.

Ég vil taka undir það, sem hv. þm. Karvel Pálmason sagði varðandi það, að við ættum að taka tillit til þess sem kemur frá sérfræðingun­um. Það, sem hefur aðallega komið frá sérfræðingunum varðandi ofveiði á þorskstofninum, er það, að við eigum að hlífa þeim fiskstofnum, sem tæpastir eru, og reyna að komast hjá því að drepa óhóflega mikið magn af undirmálsfiski og smáum fiski. Með því að koma með þessa brtt. við það frv. sem hér liggur fyrir er að verulegu leyti verið að reyna að koma til móts við þessi höfuðatriði sem sérfræðingar okkar og fiskifræðingar hafa barist fyrir. Það er einmitt þetta, það er einmitt þessi fiskur sem fiskifræðingarnir vildu hlífa. Og það er ein­mitt það sem þessi brtt. mín gerir, að hlífa því sem fiskifræðingarnir hafa bent okkur á að sé nauðsynlegast að hlífa.