20.04.1977
Neðri deild: 68. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 3466 í B-deild Alþingistíðinda. (2428)

15. mál, veiðar í fiskveiðilandhelgi

Sjútvrh. (Matthías Bjarnason):

Hæstv. forseti. Það hefur komið fram í þessum umr. í kvöld, að þetta frv., sem hér liggur fyrir til umr., sé staðfesting á brbl., og það er rætt. Einn ræðumanna hér í kvöld taldi mjög fjarstæðukennt að flytja brtt. við frv. um staðfestingu á brbl. og vitnaði þá í fimm till., sem fyrir liggja, en tók aftur undir og taldi sjálfsagt að samþykkja 6. till. sem hann var efnislega sammála. Þá var það í lagi að flytja brtt. Við staðfestingu á brbl. En hins vegar var hann mjög mótfallinn hinum till. því að hann taldi að tugir eða hundruð till. gætu alveg eins komið fram og þessar.

Við í sjútvrn. óskuðum eftir því við sjútvn., að hún flytti þessar till., fyrst og fremst till. um breytingu á stjórn veiðanna, til þess að gera skyndilokanir áhrifameiri, sem allir nm. eru sammála um, og einnig þessar brtt. varðandi tiltekin svæði. Það var gert mikið veður út af því að Landssamband ísl. útvegsmanna hefði gert þessar till. að sínum. Ástæður fyrir því, að sjútvrn. tekur þessar till. upp, eru þær, að við afgreiðslu landhelgisfrv. á s. l. vori var mikil óánægja uppi varðandi tiltekin efni, og þá á ég alveg sérstaklega við svæðið út af Snæfells­nesi sem ég ætla ekki að orðlengja frekar um, en þar var um mjög viðkvæmt mál að ræða. Og það er rétt, sem hv. 3. þm. Austurl., sagði hér í kvöld, að ég hef heimild til þess að banna togveiðar að hluta til af þessari till., þannig að ég get með einhliða reglugerð komið mjög til móts við snæfellinga. En ég tel réttara að það sé Alþ. sem ákvarði það, á hvern hátt eigi að koma til móts við þá, og sömuleiðis aðrar þær veiðiheimildir sem um er að ræða.

Hér er um að ræða víðtækari veiðiheimildir fyrir skip sem eru 39 m 5 lengd eða minni og í sumum tilfellum fyrir 26 m skip eða minni. Ég vil ekki segja að loðnuskipin, sem gera það best, séu skip sem eru undir 39 m. Að vísu eru loðnuskip sem eru innan við 39 m á lengd og hafa gert það ágætt, en alfarið er ekki verið að gera þessa breytingu vegna loðnuskipanna. Hitt vitum við og er almennt viðurkennt af þm., að skipin yfir 105 lestir, eins og var samkv. gömlu lögunum, urðu harðar úti en önnur við þessa nýju lagabreytingu. Þetta er ástæðan fyrir því, að sjútvrn. og ég tókum þessa till. upp og óskuðum eftir því við sjútvn. að hún flytji málið. Hitt kemur mér algerlega á óvart, þegar nm. í sjútvn. reynir hvað eftir annað að tefja af­greiðslu þessa máls, og það er furðulegt í sam­bandi við þingstörf varðandi mál, sem er vísað til 3. umr. 23. mars, að nú eftir tæpan mánuð skuli nm. í þeirri n. flytja till. um að vísa mál­inu aftur til n. við 3. umr., þegar sjútvn. er búin að fjalla um allar þessar till. og meira að segja till. sem ekki var komin fram, því að flm. hennar, hv. 5. þm. Suðurl., skýrði frá henni í sjútvn., að því er formaður n. hefur sagt mér.

Svo segir hv. þm. hér í kvöld að hann vilji gera allt til þess að ná samkomulagi í þessu máli. Hvar er þessi samkomulagsvilji? Hann er sá að hundsa allar breytingar af því að þær finni ekki náð fyrir hans augum. Hv. þrír sjútvn.-menn, sem hér eru inni, hafa allir lýst yfir stuðningi við þessar till. Fjórði nm., hv. 4. þm. Austurl., lýsti því yfir að hann væri á móti einni till., en hann segir í sinni ræðu: „Varðandi önnur atriði, sem ég sé ekki ástæðu til að lengja umr. um, vil ég taka það fram, að ég hef tilhneigingu til þess að fylgja þeim brtt. sem þm. viðkomandi kjördæma eru sam­mála um á hafsvæðum úti fyrir þeim kjördæm­um þar sem þeir eru kunnugastir.“

Þetta sagði hann í ræðu sinni. Ég hef ekki heyrt andstöðu annarra nm. í sjútvn. við þessar till. Þeir hafa ekkert látið frá sér fara í þeim efnum, að þeir séu andsnúnir þessum till. Þessi nm. er því einn og hann segir: Ég var ekki við — því að hann brá sér til útlanda, sennilega í hálfan mánuð eða svo, og þá átti auðvitað ekki að gera neitt á meðan og sennilega ætti ekki að tala nema hann sé í húsinu. En þegar hann er búinn með sína ræðu þá hleypur hann á dyr. Tilgangur hans er auðsær, það fer ekki á milli mála. Hann er sá einn að reyna að spilla fyrir framgangi málsins. Ég tel aftur á móti að þessar till. eigi að koma hér til atkv. og afgreiðslu og það verður að ráðast hvort þær eiga meirihlutafylgi að fagna í þessari deild eða ekki. Ég er meðmæltur þessum till. öllum að undanskilinni þeirri till., sem hv. 5. þm. Suðurl. flytur um bann við flotvörpuveiði alfarið í eitt ár, og þar hef ég margar aths. fram að færa. Ég ætla að reyna að stytta mjög mál mitt, en aðeins að segja þetta:

Ég tel að stefna okkar í fiskveiðimálum eigi fyrst og fremst að vera sú, að ná í þann afla sem leyfilegt er að veiða hvað stærð snertir og aflakvóta í þau veiðarfæri sem eru afkasta­mest, því að á þann hátt bætum við afkomu bæði sjómanna og útgerðar. Ef við hefðum ekki tekið tækni í okkar þjónustu, þá væri hér auð­vitað algert fátæklingaþjóðfélag á öllum svið­um. Þess vegna verður það að vera okkar fyrsta boðorð í þessum efnum að nota tækni við veið­arnar að svo miklu leyti sem við ætlum að veiða.

Ég vil benda á það, sérstaklega í sambandi við það sem hv. 3. þm. Suðurl. sagði í kvöld varðandi áhyggjur hans og okkar allra af veið­um á þorski innan íslenskrar fiskveiðilögsögu, — þessar áhyggjur hans eru auðvitað réttar, — ­að bæði hann og við öll hin megum ekki gleyma því, að það hafa verið gerðar miklu víðtækari ráðstafanir til þess að draga úr sókninni, því að hún væri margföld ef ekkert hefði verið gert í þeim efnum, eins og ég veit að hann skilur mjög vel. Það hefur verið gert með friðun stórra svæða, með því að setja ákvæði um lágmarks­stærð fisks sem má koma með að landi. Ég skal ekki fara út í þá skoðun hans að skylda alla að koma með allan fisk að landi. Það hefur verið rætt mjög víða og það eru bæði rök með því og móti. Það, sem menn hræddust mest í því sambandi, var að menn mundu kasta smá­fiskinum fyrir borð og ekki koma með hann að landi, þannig að það var talið betra og skyn­samlegra að setja þessi ákvæði. Ég er ekkert al­farið að segja að það sé réttara, en við þurfum að reyna heldur betur á það.

Það, sem ég hef aftur lagt áherslu á, er að verða við öllum óskum og kröfum Hafrannsóknastofnunarinnar um friðun, bæði friðun stórra svæða, ákvæði um skyndilokanir, ákvæði um möskvastærð í togvörpubúnaði. Það er búið að stækka möskvann núna á tæpum tveimur árum, fyrst úr 120 mm í 135 mm og nú tók reglugerð gildi 1. febr. um 155 mm í möskva togveiðarfæra. Á s.l. hausti sendu skipstjórar á togaraflotanum, — ég skal ekki fullyrða að það séu allir, en það hefur ekki vantað fleiri en þá einn eða tvo, — skeyti til mín þar sem þeir tilkynntu á mjög ákveðinn hátt að þeir hefðu ákveðið að taka ekki um borð botnvörpu með 155 mm möskva. Þar með átti ekki að hlýða þeirri reglugerð. Ég tók þann kostinn að gildistöku þessarar reglugerðar yrði seinkað um einn mánuð eða frá 1. jan. til 1. febr., vegna þess að það voru ekki til veiðarfæri hjá innlendum framleiðendum, og ég held að það hafi verið rétt ákvörðun. Síðan tók þessi reglugerð gildi og síðan hafa allir farið eftir henni og því er stranglega fylgt eftir.

Hitt hefur aftur verið rætt hér, varðandi netaveiðina, og þar er vafalaust um mjög almenn brot að ræða, sem veldur okkur það miklum áhyggjum að við höfum haldið marga fundi hvernig við eigum að komast yfir þetta. Við getum sett menn um borð. Þá er dreginn sá fjöldi af trossum sem leyfilegt er að gera, og það er aftur hægt að fara í kringum um það þegar ekki er eftirlitsmaður. Það getur annar bátur dregið þessi net. Þetta er eitt af okkar mestu vandamálum, og þetta getur leitt til þess að netavertíð verði stytt með ákvæði um það, þar sem hefur verið aukin sóknin umfram það sem leyfilegt er samkv. reglugerð. Það verður kannske það sem menn taka helst mark á, og ég held að það verði hagkvæmasta eftirlitið ef á að fara í kringum allt.

En ég hygg, að mér sé óhætt að fullyrða, að það hefur náðst mjög góður árangur í sambandi við eftirlit með togveiðunum. Ég er alfarið á móti banni eins og þessu, vegna þess að það er mín skoðun, að það megi alveg eins banna botnvörpu eins og flotvörpu eða flotvörpu eins og botn­vörpu, og ég tel að þetta sé ekki rétt leið. Hins vegar hefur ekki staðið á mér og mun ekki standa á mér, á meðan ég er í þessu starfi, að beita þeim ákvæðum af fyllstu hörku, hver sem á hlut að máli.

En til þess að gefa mönnum örlitla yfirsýn yfir það, hvað flotvarpan er orðin almenn á botnvörpuskipum okkar, þá eru 28 togarar af minni gerð með flotvörpu, en 21 togari án flotvörpu. Togarar af stærri gerð eru 12 með flotvörpu, en 3 án flotvörpu, svo að hér eru 40 togarar komnir með flotvorpu samkv. skrá sem ég hef hér í höndunum. Hún nær því til fleiri staða en Vest­fjarða því ef ég man rétt er heildarfjöldi togara þar 9. Togarar með flotvörpu eru gerðir út frá öllum landsfjórðungum, Suðurlandi, Austurlandi, Norðurlandi auk Vestfjarða. Allir nýju togararnir eru með flotvörpu. Og nú segi ég: Á sama tíma og við afgreiðum fiskveiðilandhelgisfrv. fyrir tæpu ári með þessum heimildum, sem auðvitað hafa verið takmarkaðar, bæði tímabundið í mörg­um tilfellum og síðan með aukinni stærð möskva, rétt eftir að við erum búnir að gefa út nýja reglugerð sem tekur gildi 1. febr., þá lítur það afar illa út fyrir Alþ. að samþykkja seinni hluta aprílmanaðar till. um bann.

Ég ætla út af því, sem hv. 3. þm. Suðurl. sagði varðandi þorskveiðar almennt, að ítreka þá ákveðnu stefnu mína, að við gerum allt sem hugsanlegt er til þess að draga úr sókninni í þorskinn. Við byrjuðum á því, núv. ríkisstj., að hætta ríkisábyrgðunum til þess að draga úr skipakaupunum erlendis frá, og við höfum hægt nokkuð á innlendu skipasmíðinni. Þar verðum við að fara varlega. Við höfum, eins og ég sagði áðan, aukið möskvann, sett ný friðunarsvæði og við höfum farið á s. l. ári út í það að leita að fiskstofnum eða fisktegundum sem lítið hafa verið nýttar áður eða vannýttar. Það náðist góð­ur árangur á s. l. sumri varðandi karfaleitina, og það náðist sömuleiðis mjög góður árangur í leit og veiðum á kolmunna á tilraunaskipi og sömuleiðis árangur í sambandi við leit að úthafsrækju. Áhugamál mitt er að auka verulega veiðar á kolmunna og spærlingi. Ég vona að íslendingar noti að fullu þann kvóta, sem við sömdum um við færeyinga í sambandi við loðnu­samninginn í vetur, og við getum haldið áfram okkar vinnslutilraunum og vinnslu á þessari fisktegund, bæði í marning og í þurrkun á kol­munnanum og sömuleiðis á spærlingi. Það er trú mín að þessi fisktegund verði verulega mikill útflutningsatvinnuvegur okkar innan þriggja til fjögurra ára ef haldið verður áfram á þessari sömu braut.

Þá kemur einnig til greina, sem ég álít að sé miklu skynsamlegra ef samkomulag næst um það meðal alþm., sem eiga auðvitað að móta þessa stefnu og ráða henni, að leggja einhvern skatt á þorskveiðarnar til þess að efla þessar veiðar, til þess að draga úr sókninni í þorskinn, segja við þá, sem mest hafa fiskað af þorski: Ykkur er velkomið að fara á kolmunnaveiðar, við skulum greiða fyrir lánum fyrir veiðarfærum á þessar veiðar, en ef þið ekki viljið það, þá verðið þið að leggja eitthvað af mörkum til þess að auka veiðar þessara vannýttu fiskstofna.

Við erum einnig að minnka sóknina í þorsk­inn með ákvörðun sem við tókum í sambandi við síldveiðileyfin á næsta hausti. Ég hef tekið ákvörðun að veita ekki síldveiðileyfi til skipa yfir 350 tonn og að mestu leyti að ganga fram hjá loðnuveiðiskipunum, en síldveiðiskip frá 105 tonnum eiga að fá þessi síldveiðileyfi. Það er mikil búbót fyrir þennan minni flota og sömu­leiðis dregur það úr þorskveiðum þessara skipa. Stærri loðnuskipin, þau sem það geta, fara ann­aðhvort á kolmunnaveiðar, hin fara á sumar­loðnuna eða aðrar loðnuveiðar, og afkoma þess­ara skipa er mjög góð. Þetta er allt gert til þess að dreifa flotanum á aðrar veiðar.

Reglan í sambandi við humarinn hér fyrir Suðvesturlandinu og Suðausturlandinu verður sú sama og í fyrra. Þar er ákveðið að leyfa veiðar á sama aflamagni eða 2800 tonnum og miða þá stærð skipa, sem þau veiðileyfi fá, við innan við 105 tonn. Það var 100 tonn í fyrra, en til þess að bilið á milli 100 og 105 fái einhver leyfi er þetta gert. Þannig er verið að miðla þessum skipum á þennan hátt, dreifa þeim frá þorskveiðunum.

Og við skulum nefna, þó að það hafi kannske ekki úrslitaþýðingu fyrir þorskveiðarnar, að við höfum sett skipulag á hrognkelsaveiðarnar. Það er búið að veita um 720 veiðileyfi til grásleppu­veiða. Þetta dregur einnig mjög úr bolfiskveið­um á þessu tímabili.

Svo megum við ekki heldur gleyma því, að nú eru sárafáir útlendingar á þorskveiðum á Íslandsmiðum og þar er mikill munur frá því sem verið hefur, því að það voru auðvitað bretar sem tóku hér aðalþorskveiðina. Það er sáralítið sem þjóðverjar og belgar taka af þorski, en hins vegar hafa færeyingar hér heimild fyrir 17000 tonnum alls, þar af 8000 tonnum af þorski.

Ég tel, að þessar ráðstafanir allar séu til þess að draga verulega úr sókninni. En mér er það alveg ljóst eins og öðrum hv. þm., að það er ekki nóg að gert, en það er erfitt að beita þess­um starfsaðferðum öllum, því að við verðum einnig að hafa það í huga að þorskveiðarnar eru svo stór þáttur í atvinnumálum hvers einasta byggðarlags í landinu, að þarna verðum við að fara gætilega, og við verðum líka að taka ein­hverja áhættu, eins og ég hef áður sagt. Það er farið eftir tillögum fiskifræðinga í öllum grein­um nema þessum, en tekið fullkomlega mið af því sem þeir segja. Margt bendir til þess að þorskstofninn sé stærri en talið er. Hin mikla aukning, sem er núna við Norðurland, á að skapa meiri bjartsýni. Aukning hefur ekki verið veru­leg á miðunum fyrir Vestfjörðum. Hún er lang­mest fyrir Norðurlandi og Norðausturlandi og það þakka menn hinni almennu friðun þar á undanförnum árum. Og það er gleðiefni, mjög mikið gleðiefni, að klakið hefur heppnast vel og þrátt fyrir þennan litla hrygningarstofn tókst klakið vel á s. l. ári að dómi fiskifræðinga.

Að síðustu vil ég segja þetta: Ég hef í hyggju að ræða við sjútvn. beggja d. eftir að þingi er slitið um það, hvað gera skuli frekar í þessum efnum. Ég hef óskað eftir því að eiga sam­starf og samvinnu við þessar nefndir, þar eru fulltrúar allra flokka, og reyna að komast að sameiginlegri niðurstöðu hvað er skynsamlegt að gera. Ég tel að það sé ekki á þessu stigi ástæða til að skipa endurskoðunarnefnd um þetta frv. eins og einn hv. þm. kom inn á hér í kvöld, allt að 9 manna n. Hins vegar hef ég það í hyggju, þegar liðið er á árið, að koma á einhverri samstarfsnefnd, þá með heldur færri mönnum, en hafa það ekki fastanefnd, til þess að sinna öllum þeim beiðnum sem fram koma í þessum efnum. Sumar þessar beiðnir eru með þeim hætti, að það er hægt að afgreiða þær um leið og þær koma, þær eru það fjarstæðukenndar. Hitt er annað mál, að það verður að skoða allar skyn­samlegar og eðlilegar beiðnir sem fram koma og þá af mönnum sem hafa allvíðtækt umboð til þess að fjalla um þær, og þá á ég sérstaklega við alþm. og fulltrúa stjórnmálaflokkanna hér á Alþingi.