22.04.1977
Efri deild: 61. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 3472 í B-deild Alþingistíðinda. (2432)

165. mál, póst- og símamál

Frsm. (Jón Helgason):

Herra forseti. Samgn. hefur haft til athugunar frv. til l. um stjórn og starfrækslu póst- og símamála. N. hefur rætt málið á morgum fundum og voru þrír þeirra sameiginlegir með samgn. Nd. Á tveimur þeirra mætti n. sú er unnið hafði að samningu frv. og sagt er frá í aths. þess. Gerðu þeir nm. ítar­lega grein fyrir þeim breyt. á skipulagi Pósts og síma sem unnið hefur verið að og felast í frv. Á þriðja fund n. komu formenn starfsmanna­félaga Pósts og síma, þeir Ágúst Geirsson, formaður Félags ísl. símamanna, Björn Björnsson, formaður Póstmannafélags Íslands, og Gylfi Már Jónsson, formaður Félags háskólamenntaðra póst- og símamanna, og skýrðu þeir frá viðhorfi starfsmanna Pósts og síma til frv. og að beiðni n. sendu þeir síðan skriflega grg. um afstöðu starfsmanna félaganna til málsins. Er þar mælt með þeirri heildarstefnu sem fram kemur í frv. en gerðar athugasemdir við nokkur einstök atriði. Hefur samgn. reynt að taka tillit til þeirra og verður nánari grein gerð fyrir því hér á eftir.

Við l. umr. málsins gerði hæstv. samgrh. ítar­lega grein fyrir aðdraganda og efni frv. og er því ekki ástæða til að endurtaka það hér, heldur reynt að draga fram í höfuðatriðum þau viðhorf sem komu fram til málsins á fundum samgn.

Eins og allir vita á Póstur og sími langa sögu að baki. Stofnunin hefur byggst upp á þeim tíma, þannig að starfsemin hefur farið sívax­andi og verkefnum fjölgað. Það er því eðlilegt að þörf sé á endurskipulagningu, ekki síst með tilliti til þeirra miklu tæknilegu framfara sem hafa orðið og fyrirsjáanlegar eru á þessu sviði.

Með þeirri skipulagsbreytingu, sem gert er ráð fyrir í frv., er stefnt að því að færa saman í deildir hliðstæða starfsemi til að reyna að koma í veg fyrir að margir aðilar starfi að svipuðu verkefni, en hver deild hafi þá skýrt afmarkað starfssvið. Annars vegar er yfirstjórn, áætlana­gerð og önnur stefnumörkun falin fjórum aðaldeildum í aðalstöðvum stofnunarinnar hér í Reykjavík. Hins vegar er rekstur póst- og sím­stöðvanna um allt land, en yfirstjórn þeirra er falin fjórum umdæmisstjórum. Gert er ráð fyrir að í hverju umdæmi verði í aðalstöðvum þess komið upp nægjanlegu starfsliði ásamt verkstæðum og vörubirgðum til þess að geta sinnt sem mestu af nauðsynlegri þjónustu fyrir stöðvarnar í umdæminu. Slíku hlýtur auðvitað að fylgja nokkur kostnaður, en veitir öryggi og bætta þjónustu.

Það væri augljóslega æskilegt, að þegar slíku skipulagi er komið á, þá væri hægt að hafa verksvið umdæmanna sem jafnast. En því miður eru aðstæður okkar þannig að það er alls ekki hægt. Þar hljóta samgöngu- og landfræðilegar aðstæður að ráða mestu ef ekki á að verða beint óhagræði að skiptingunni. Þess vegna hefur verið valin skiptingin sem sýnd er á bls. 15 í frv. Henni fylgir sá augljósi galli, að þrátt fyrir það að ekki er mjög mikill stærðarmunur á lands­svæði þriggja stærstu umdæmanna, þá verður starfsemin langmest í umdæmi I, þar sem t. d. um 80% allra símnotenda eru og mikill meiri hl. allra starfsmannanna vinnur. Var þetta atriði mikið rætt í n. og voru nm. sammála um að æskilegt væri að haga þessu á annan hátt, þann­ig að umfang starfseminnar væri jafnara í um­dæmunum, en treystu sér hins vegar ekki til að gera till. um breytingar. En bent var á að unnt væri að einhverju leyti að vega hér upp á móti með því auka ábyrgð og sjálfstæði hinna stærri póst- og símstöðva þannig að þær þyrftu sem sjaldnast að leita eftir leyfi og úrskurði um­dæmisstjóra.

Tilgangurinn með þessari skipulagsbreytingu og hagræðingu er auðvitað tvíþættur. Í fyrsta lagi er talið að þetta hafi nokkurn sparnað í för með sér, þar sem unnt verði að komast af með nokkru færra starfsfólk, en kostnaður fyrir stofnunina er nú talinn vera um 21/2 millj. kr. fyrir hvern starfsmann. Í öðru lagi á þetta að auð­velda að unnt sé að veita notendum Pósts og síma, þ. e. a. s. fólkinu í landinu, betri þjón­ustu.

Með ákvæðum 9. gr. frv. um framkvæmda­áætlun, sem lögð skal fyrir Alþ., gefst þm. kost­ur á að fylgjast betur en verið hefur með þeim málum og eiga auðveldara með að móta þá stefnu sem fylgja skal. Einstök verkefni næsta árs verða svo endanlega bundin með setningu fjárlaga hverju sinni, þannig að ákvörðun um þau verður í höndum Alþingis.

Á þskj. 473 flytur n. nokkrar brtt. Í þeirri fyrstu er lagt til að síðustu setningar 4. gr. frv., þ. e. a. s. þessar setningar: „upp að tilteknu launamarki, enda sé við val starfsmanna gætt sömu reglna og um hærra launaðar stöður“ ­— falli niður þar sem n. telur óeðlilegt að starfs­mönnum sé þannig í lögum skipt eftir launa­flokkum, og er það í samræmi við ábendingar frá starfsmannafélögunum.

Í öðru lagi falli niður í 6. gr. frv. orðin „skóla og“, og í stað orðanna „rekstur mötuneyta“ komi: umsjón mötuneyta.

Stofnunin rekur allmikla fræðslu- og skóla­starfsemi fyrir starfsfólk sitt og er það auðvitað mjög mikils virði og nauðsynlegt að reynt sé að veita starfsfólkinu sem mesta þjálfun og fræðslu til þess að það verði sem færast um að gegna hinum sérhæfðu störfum innan stofnunarinnar. En n. telur sjálfsagt að reynt sé að koma sem mestu af beinu skólahaldi inn í hið al­menna skólakerfi, og var okkur tjáð að það væri nú í athugun. Ætti það að vera hagkvæmara og losa stofnunina á þann hátt við einhvern kostnað, auk þess sem réttindi nemenda giltu þá utan stofnunarinnar. Eftir sem áður hlýtur stofnunin að verða að halda uppi margvíslegu námskeiðs­- og fræðslustarfi fyrir starfsfólkið, og vill n. síð­ur en svo draga úr því, heldur leggja áherslu á að hið almenna skólakerfi sé hagnýtt eins og frekast er kostur.

Orðinu „rekstri“ er breytt í „umsjón“, þar sem allur rekstur á að falla undir póst- og síma­stöðvar, eins og áður hefur verið sagt, en yfir­umsjón með þessari starfsemi fellur undir um­sýsludeild eins og önnur mál sem snerta starfs­menn og fasteignir.

Síðasta atriði brtt. n. er um það, að aftan við 8. gr. frv. komi: „Ár hvert skal a. m. k. einn þessara funda vera sameiginlegur með starfs­mannaráði póst- og símamálastofnunar, sbr. 10. gr.“ Í umsögnum starfsmannafélaganna komu fram ábendingar um það, að nauðsynleg væru meiri tengsl milli fulltrúa starfsmannafélaganna og stjórnenda stofnunarinnar, enda þótt ákvæði 10, gr. um starfsmannaráð væru mikils virði. Óskuðu þeir eftir, að fulltrúar starfsmannafélaganna sætu fundi umdæmis- og deildarstjór­anna sem um er talað í 8. gr., svo að með þess­ari brtt. n. um að þessir aðilar haldi a. m. k. einn sameiginlegan fund er komið að nokkru leyti a. m. k. til móts við þessar óskir. Reynslan leiðir svo í ljós hver verður árangur af þessu ákvæði, sem hlýtur að fara nokkuð eftir því hvernig aðilar halda þar á málum.

N. er sammála um að mæla með þessum breyt. og frv. þannig breyttu, nema Stefán Jónsson og Eggert G. Þorsteinsson, sem skrifuðu undir nál. með þeim fyrirvara að þeir muni flytja brtt. sem þeir hafa þegar gert á þskj. 474. Um þá brtt. mun ég ekki ræða nú, þar sem ég geri ráð fyrir að flm. geri grein fyrir henni, aðeins taka það fram, að aðrir nm. töldu að hér væri um svo mikið mál að ræða að það þyrfti nánari athugunar við en nú er tími til, þar sem till. kom ekki fram fyrr en n. var að afgreiða málið.