22.04.1977
Efri deild: 61. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 3477 í B-deild Alþingistíðinda. (2434)

165. mál, póst- og símamál

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Svo sem frsm. samgn., hv. 4. þm. Suðurl., sagði frá, þá skrifuðum við hv. þm. Eggert G. Þorsteinsson undir nál. með fyrirvara um brtt. sem birtist á þskj. 414, þar sem svo er ráðgert, að þegar í 1. gr. frv. verði kveðið á um það að Alþ. kjósi stjórn Pósts og síma sem hafi eftirlit með fjárhag og rekstri og starfsemi stofnunarinnar og gæti þess, að hún starfi í samræmi við lög og reglugerðir á hverjum tíma, og síðan kveðið á um það, að starfandi verði við stofnunina undir eftirliti hinnar þingkjörnu stjórnar endurskoðunardeild.

Mér er skylt að taka fram mjög greinilega, að talan 5 í þessari brtt. okkar, þar sem segir að kjörin skuli 5 manna stjórn, er víðs fjarri því að vera heilög tala, heldur er það mála sann­ast að hér varð okkur svarabræðrum á í mess­unni. Ætlun okkar var sú, að hver þingflokkur ætti einn fulltrúa í þessari stjórn, og þar af leiðandi var ætlun okkar að hér skyldi standa talan 7. Brtt. í þá átt munum við bera formlega fram.

Meginástæðan fyrir því, að við berum nú fram þessa brtt. við frv., er sú, að við teljum það fráleitt í rauninni, að Alþ. skuli ekki hafa þess háttar hönd í bagga með meðferð fjármuna og raunar framkvæmdastjórn opinberra fyrirtækja sem velta milljörðum, og finnst það frá­leitt, að Alþ. skuli ekki kjósa stjórn slíkra fyrir­tækja, og þá jafnt og engu síður Pósts og síma heldur en t. d. Tryggingastofnunar ríkisins, þar sem tryggingaráð er kjörið.

Frsm. n., hv. þm. Jón Helgason, greindi þar rétt frá, eins og honum er eiginlegt, að brtt. okkar Eggerts kom fram alveg undir lokin í nefndarstörfum og aðrir nm. töldu að ekki gæfist tóm til að kanna þessa hugmynd til hlítar þar sem hér væri um að ræða grundvallarbreytingu á frv.

Ég held að frv. í heild sé annars til mikilla bóta, — horfi til mikilla bóta. Þó finnur maður nú fyrir því við yfirlestur og íhugun og þó fundum við kannske e. t. v. mest fyrir því við yfirheyrslu þeirra manna sem frv. sömdu, að það mun að verulegu leyti sniðið að erlendri fyrirmynd, sem ekki ber að lasta, en hefði e. t. v. mátt leggja dálítið meiri vinnu í að aðhæfa hina erlendu reynslu innlendum aðstæðum. Svo sem nefndarformaður gerði grein fyrir, eru þarna sérstakir liðir sem fullkomin þörf er á að hug­leiða betur, og kemur náttúrlega til greina að gera það við endurskoðun á þessum lögum síðar. Það liggur t. d. hreint ekki fyrir með annað umdæmið, að nauðsynlegt sé að hafa það svo stórt sem gert er í frv., þar sem Reykjavíkurumdæmi er ætlað að spanna allt svæðið frá Skeiðarársandi að Gilsfirði, verða sem sagt mörgum sinnum fjölmennara heldur en önnur umdæmi Pósts og síma og miklu stærra að flatarmáli. Þetta atriði tel ég eðlilegt að íhugað verði nákvæmlega og legg alveg sérstaka áherslu á að fylgjast þarf með því, hversu þessi skipun gefst á II. umdæmissvæði.

Ekki er minna um vert að hugleiða þetta atriði vegna þess, að nú er umdæmisstjórunum ætlað meira hlutverk en áður, meira sjálfstæði, og má kannske helst lýsa hinu nýja hlutverki umdæmisstjóranna með orðum póst- og símamálastjóra sjálfs, er hann var spurður í n. með hvaða hætti hið nýja eða endurskoðaða hlutverk umdæmis­stjóranna yrði. Þá sagði hann, að þeir yrðu „programmeraðir“ og þeim fengin beinagrind. En hvað sem því líður, þá kom nú verk þessa ágæta embættismanns prýðilega greinilega fram. Hann gerði okkur grein fyrir því raunverulega, með hvaða hætti vald og umboð yrði á eðlilegan hátt flutt út til umdæmisstjóranna, og gerði að langflestu leyti mjög góða grein fyrir þörfinni sem er á þeirri breyt. sem hér er ráðgerð á yfirstjórn Pósts og síma. Og ég hygg að bæði sú n., sem þar um vélaði, og póst- og símamálastjóri sjálf­ur hafi unnið þarna ágætt verk.

Hv. þm. Oddur Ólafsson ber fram við frv. athyglisverða brtt., sem ég hef persónulega mikla tilhneigingu til að styðja eins og ýmsar fleiri brtt. sem þessi góðgjarni og gáfaði þm. ber fram tíðum hér í d. Ég áskil mér rétt til þess að hug­leiða afstöðu mína til þessara till. öllu betur.

Ég ætla nú ekki að orðlengja þetta öllu fremur, en vil aðeins inna hæstv. ráðh., samgrh., sem heiðrar okkur nú með nærveru sinni, eftir því, hvort ekki komi til greina að ætla þessu merka frv. dálítið lengri tíma í þinginu til nánari athug­unar, vegna þess að hér er um að ræða ákaflega þýðingarmiklar breytingar á þessum grundvallar­stofnunum samfélags okkar, sem e. t. v. væri æskilegt að væru til íhugunar á fleiri þingum en einu. Ég beini þessari spurningu aðeins til hæstv. ráðh., hvort slíkt væri ekki hægt, að ætla þessu, lengri tíma.