22.04.1977
Efri deild: 61. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 3481 í B-deild Alþingistíðinda. (2437)

165. mál, póst- og símamál

Landbrh. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra for­seti. ég vil byrja á því að leyfa mér að þakka hv. n. og nm. fyrir störf þeirra. Og þær umr., sem hér hafa farið fram, hafa farið fram með mikilli vinsemd í garð þeirrar stofnunar sem hér er verið að fjalla um.

Við brtt. á þskj. 473, sem samgn. stendur að, hef ég enga athugasemd að gera. Það er ekkert því til fyrirstöðu að orða þær greinar eins og þar segir og laga þær á þennan hátt til. Skipan í stöður innan viss gjaldaflokks hefur venjulega farið fram með þeim hætti, síðan ég fór að starfa þarna, að póst- og símamálastjóri hef­ur rætt það og yfirleitt hefur hann svo fram­kvæmt þetta, en allar þessar stöður, eins og allar stöður við póst- og símastofnunina, eru veittar eftir að umsögn starfsmannaráðs hefur komið fram. Það er ekki veitt þar staða nema starfs­mannaráðið hafi áður látið í ljós álit sitt. Innan þessa starfsmannaráðs eru fulltrúar frá Félagi símamanna, og það tókst á s. l. vetri að fá póst­mennina til að taka þátt í þessu starfsmanna­ráði, en þar höfðu þeir ekki verið áður. Það var uppi deila á milli heimamanna og póstmanna hvernig starfsmannaráð skyldi skipað, og ég held að ég geti sagt það með góðri samvisku, að ég hafi lagt í það verulega vinnu að fá þá til þess að jafna þessa deilu svo að báðir aðilar væru umsagnaraðilar í starfsmannaráði. Það eru þeir nú og það hefur verið mjög til bóta. Það hefur komið fram hjá Félagi póstmanna, síðan þessi breyting varð á, að þeir hafa mjög fagnað því að þeir skyldu láta af þeirri andstöðu sem þar var. Þetta er líka mikil nauðsyn vegna stofnun­arinnar, því þetta er margbreytileg stofnun og m. a. geysilega mikil fjármálastofnun, svo það er ekki nóg að viðkomandi aðilar, sem fara í störf út um landsbyggðina, séu vel að sér t. d. um tæknihliðna. Þeir verða einnig að geta gert sér grein fyrir bókhaldi, meðferð fjármála og stjórn stofnana sem oft og tíðum eru stórar. Þetta hefur því orðið mjög til bóta og er það að minni hyggju mjög ánægjulegt. Við þessa breyt., sem hér er gerð till. um, sé ég ekkert að athuga, hef yfirleitt ekkert á móti þessum tillögum.

Ég vil líka segja um það sem fram kom hér í ræðu hv. 5. þm. Norðurl. e., að ég tek undir margt það sem hann sagði í þeirri ræðu. Hins vegar get ég ekki fallist á till. hans um yfirstjórn þessarar stofnunar. Í því sambandi vil ég benda á það, að fram til 1970 heyrði póst- og síma­málastjóri beint undir ráðh. og hafði því stöðu sem ráðuneytisstjóri. Eftir það heyrir hann undir samgrn. og reynslan af því hefur orðið góð.

Nú var hugsunin í sambandi við þetta frv. að reyna m. a. að draga úr kostnaði, og þó ég viti að stjórn á þessari stofnun hefði ekki kostnað í för með sér sem skipti stofnunina miklu, þá kann ég ekki við það, eftir að búið er að breyta starfi póst- og símamálastjóra á þann hátt að hann er orðinn ábyrgur gagnvart rn., að þá ætti að koma þarna stjórn á milli. Og á vissan hátt er reynsla af þessum stjórnum mis­jafnlega góð. Þær hafa ekki allar orðið til þess sem hugsað er, að draga úr kostnaði við rekstur eða bæta stjórn stofnunarinnar, hér er t. d. gert ráð fyrir að stjórn stofnunarinnar hafi eftirlit með fjárhag og rekstri og starfsemi stofnunar­innar og gæti í þessu starfi samræmis við lög og reglugerðir á hverjum tíma, skal endurskoðun­ardeild starfa við stofnunina undir eftirliti hinn­ar þingkjörnu stjórnar. Hér kemur alveg nýr þátt­ur inn í stjórn þessarar stofnunar, og ég lít svo á að það sé ekki hægt annað en að meta það svo, að það væri algjört vantraust á stofnunina eða hennar endurskoðunardeild, sem afgreiðir öll sín mál til ríkisendurskoðunarinnar, ef það nægir ekki. Auk þess koma svo yfirskoðunarmenn ríkis­reikningsins, sem eru kjörnir af Alþ., til þess að fara þar yfir. Og af þeirri reynslu sem ég hafði af því starfi, þá var það svo, að auðvitað komust yfirskoðunarmenn ríkisreikningsins ekki yfir allar ríkisstofnanir eða öll ríkisfyrirtæki á hverju ári. Hins vegar var það svo, að þeir fóru yfir allar skýrslur ríkisendurskoðunarinnar og tóku sérstaklega til meðferðar þær stofnanir sem höfðu fengið athugasemdir hjá ríkisendurskoðuninni.

Þannig var að þessum málum unnið og þannig verður að þeim unnið. Ríkisendurskoðunin fer yfir þetta og þær athugasemdir, sem hún kann að gera, fara trúnaðarmenn Alþ. yfir í hvert sinn. Þess vegna held ég að þarna gæti ofurlítils misskilnings, og þetta er till. sem ég get ekki fellt mig við að verði samþ., enda finnst mér að þarna sé meira byggt á misskilningi heldur en því sem fram er sett í þessari gr. Ég lít þann­ig á að hv. flm. hafi ekki hugsað þetta sem skyldi og það er ekki neitt við það að athuga. (Gripið fram í.) Ég vil nú síður náttúrlega fara að nefna hér á hv. Alþ. einstakar stjórnir, því það er sama og ég færi að nefna nöfn á mönnum. (Gripið fram í.) Það hins vegar gæti ég ef ég kærði mig um. En ég vil ekki fara að nefna nöfn á mönnum sem hafa ekki möguleika til þess að verja sig hér á hv. Alþ., og skal því ekki fara frekar út í það. En reynsla mín er nú þessi, og ég tel mig hafa nokkuð fjölbreytta reynslu í ríkisrekstrinum í gegnum störf mín sem fjárveitinganefndarmaður, sem endurskoðandi ríkis­reiknings og fjmrh. og nú sem kröfugerðarmað­ur.

Út af því, sem hv. 5. þm. Norðurl. e. kom hér að, t. d. um umdæmi, þá skal ég segja það, að ég er honum alveg sammála um umdæmi nr. I, Reykjavík, Suðurland og Vesturland, að það er geysilega stórt. Ástæðan til þess að sú varð niðurstaðan, því það voru nokkrar vangaveltur um þetta, var sú, að það var alveg ómögulegt annað en Vestfirðir yrðu alveg sér. Það væri t. d. ekki margt að láta á Vesturlandi senda vestur á Ísafjörð slík mál, og þannig var það einnig um Norðurland vestra, að það var ekki talið framkvæmanlegt. Það var löngun okkar, þegar við vorum að bjástra við þetta, að reyna að draga heldur úr kostnaði, og ef við hefðum skipt þessu umdæmi, þá vorum við orðnir með eins marga umdæmisstjóra og fyrir eru, bara öðruvísi setta.

Nú skal ég ekkert um það segja, hvað reynslan kann að leiða í ljós, kannske það þurfi að gera þetta, og þá sýnist mér að skiptingin mundi verða um Kambabrún, að Suðurlandsundirlendið yrði þá serstakt umdæmi með umdæmisstjóra á Selfossi ellegar á Hvolsvelli eða einhvers staðar þar. Ég skal nú ekkert um það segja. En okkur fannst full ástæða til, af því að þetta svæði, þó fjölmennt sé, er eitt besta svæðið til að fara um, að reyna þessa leið í fyrstu tilraun. Hins er svo rétt að geta, að með umdæmis­stjórunum úti á landi eru aukin völd geysilega mikið úti á landi, því höfuðlínan er lögð á fundi sem er sameiginlegur með umdæmisstjórum og yfirmönnum stofnunarinnar hér og samgrn., en framkvæmdir og annað því um líkt þurfa þeir ekki að bera undir verkfræðinga hér eða tækni­deildina. Á síðari árum hefur tæknin komið svo mikið inn í þetta, að það er farið að setja tæknimenn á einstaka staði úti um land. Ég veit t. d. að fyrir nokkrum árum kom tækni­maður í Borgarnes, sem var óþekkt þar áður. Þá voru bara heimamenn látnir gera við. Og ég held að það sé kominn tæknimaður vestur á Snæfellsnes og það er yfirleitt verið að dreifa þeim. Áður fyrr þurfti að leita til Reykja­víkur um framkvæmd á þessum atriðum, en nú er því hins vegar breytt. Þeir ráða alveg um framkvæmd á þessum hlutum. Þetta töldum við afar mikið atriði í sambandi við að gera yfir­stjórnina þannig, að hún væri sterkari með því að vera úti á meðal fólksins. T. d. er núna alltaf verið að reyna að fækka stöðvunum til þess að fleiri og fleiri njóti lengri afgreiðslutíma, tengja fleiri og fleiri svæði inn á það sem komið er sjálfvirkt og annað því um líkt. Þetta er afskaplega erfitt nema mennirnir, sem ráða þessu, hafi nokkurn kunnugleika. Og ég veit það t. d. á Norðurlandi, að umdæmisstjórinn sem fór þangað í fyrrahaust, því að umdæmisstjórinn sem var á Akureyri áður var fallinn fyrir aldurssakir, þessi nýi umdæmisstjóri hefur lagt í það mikla vinnu — og svo er um aðra umdæmis­stjóra — einmitt að vinna að þessum málum í sambandi við heimamenn.

Nú get ég tekið undir það með hv. 5. þm. Norðurl. e. og öðrum, að það væri svo sem betra að fá lengri tíma. En það er búið að vinna við málið síðan 1973, ég held ég muni það rétt, þá var n. sett. Og það var samstarf á milli mín og Hannibals Valdimarssonar, sem fór með samgöngumál þegar þessi n. var sett. Hinir erlendu sérfræðingar, sem hafa verið með í ráðum, eru norskir sérfræðingar, eins og kemur fram í grg., sem hafa unnið að skipulagsmálum pósts og síma í Noregi, Danmörku og eru nú í Svíþjóð, svo þeir hafa geysilega reynslu. Þeir lögðu mikla vinnu í það, eins og þeir sem með þeim unnu, að taka tillit til sérstöðu manna. Hugsun mín er því sú, að ég vonast til að hv. Alþ. afgreiði frv. núna svo við getum fengið betri reynslu af þessu nýja kerfi og það þurfi ekki endilega að vera síðustu lögin sem ekki hafa verið endurskoðuð í 42 ár, — þau hafa verið óbreytt frá 1935 ef ég man rétt, — að það þurfi ekki endilega langan tíma, heldur sé nauðsynlegt að fá nokkra reynslu á þetta kerfi sem við erum hér með.

Út af till. á þskj. 460 get ég sagt eins og þeir hv. þm. aðrir sem hér hafa tekið til máls, að þeir vildu gjarnan flutt hafa. Og það má mikið vera ef ég hef ekki einhvern tíma átt þátt í því að flytja till. sem gengur í þessa átt að nokkru leyti a. m. k. Hitt er annað mál, að samt eru nú mín örlög að ég get ekki óskað eftir því að hún verði afgreidd með samþykkt. Ástæðuna fyrir því skal ég nú greina:

Um fyrsta atriðið skal ég ekki verða marg­orður. Hins vegar er það svo, að reynslan, sem fengist hefur af því að láta einstakar stofnanir taka að sér þá þætti sem þjóðfélagið á að gera í heild, hefur ekki verið góð. Það hefur reynst þeim mjög erfitt, eins og útvarpi og sjónvarpi. Þetta er talið óeðlilegt og eðlilegt að ríkið sjálft taki þetta að sér. En út í þetta skal ég nú ekki fara lengra.

En út af öðru atriðinu, sem er að ákveða gjaldskrá: „Ráðh. ákveður við næstu gjaldskrárbreyt­ingu að sama gjald komi fyrir hvert símtal sem fram fer innan sama númerasvæðis“ — þá vil ég segja það, að ég held að það sé einmitt till. í þessa átt sem ég hafi hér flutt áður. En út af þessum málum vil ég segja það, að maður verður að gæta sín og að skilja er að fyrirgefa, stendur einhvers staðar, og ég hef kynnst þessum málum betur nú.

Eitt af þeim málum, sem er áríðandi til þess að koma þessu fyrir, er að koma upp hér í Reykjavík sérstökum teljaraskrefum, þannig að menn geti ekki talað hér hálfan daginn í einu og sama samtalinu. Þetta er búið að vera til athugunar og er nú komið það langt áleiðis, að annaðhvort er nú verið að ganga frá pöntun á tæki til þess arna eða það er alveg á næsta leiti. En þetta er eins og annað, það kostar sína fjármuni. Er talið að þetta tæki muni minnst kosta um 100 millj. kr. Þetta er það mikið tæknimál að ég treysti mér nú ekki til að skýra það, en segi bara frá þessu eins og það er.

Í öðru lagi er svo fyrir komið okkar visítölu, sem er stundum tekin á dagskrá, að inn í vísi­töluna eru ekki tekin nein símtöl nema hér í Reykjavík. Taxtabreytingar hér í Reykjavík eru allar teknar inn í vísitölu, en ekki neitt gert þar fyrir utan. Nú er það svo, að fyrirrennari minn byrjaði á því við gjaldskrárbreytingar að breyta þarna í haginn fyrir landsbyggðina, og við allar þær gjaldskrárbreytingar, ég held þrjár, sem ég hef gert, hef ég haldið áfram á þessari braut. En mér hefur verið það full­komlega ljóst, að lengra þarf að ganga í þeim efn­um. Nú hef ég ákveðið að setja upp samstarfs­nefnd frá samtökum sveitarfélaganna, og munu verða í þeirri n. maður frá Vestfjörðum, maður frá Vesturlandi og Suðurlandi. Ég held ég muni það rætt, að þeir voru tilnefndir af samtökum sveitarfélaga og það séu framkvæmdastjórarnir á þessum svæðum sem eru kvaddir til þessa starfs. Það sem á að vera samstarf þessarar n. og póst­stjórnarinnar eða sérstakra aðila, sem um þessa gjaldskrá sjá, að samræma þetta. Ef við nú sett­um þetta í lög að ráðh. skyldi við næstu gjald­skrárbreytingu gera þessa breytingu, að það gilti einn og sami taxti innan þess svæðis, þá mundi ráð þýða alveg gífurlega hækkun á gjaldskrán­um hér í heild, miklu meira en við gerum okkur grein fyrir, og það mundi kippa í okkar vísitölu allmikið. Þess vegna er það skoðun mín, og ég treysti hv. þm. og ekki síst hv. flm. brtt. til að taka það til athugunar sem ég er nú að segja, að þetta er mál sem við þurfum að vinna að og fá undirbúning til, en eigum ekki að setja í lög, enda værum við þá komnir inn á það að láta lögin ákveða óeðlilega mikið í slíkum skiptum.

Ég vil líka segja hv. flm. það, að eitt af því, sem ég hef óskað eftir að yrði athugað í sam­bandi við endurskoðun á þessu máli núna, er að þjónustumiðstöðvar eða stjórnsýslustofnanir hér í Reykjavík verði meðhöndlaðar sérstaklega. Tel ég að sé eðlilegt að taka þær til sérstakrar at­hugunar og ber brýna nauðsyn til að gera það. En ef við ætluðum að gera þetta tvennt í einu, þá mundi það verða okkur, að ég held, alveg ókleift. Þetta er miklu stærra fjárhagsmál en við gerum okkur grein fyrir, og við getum ekki stokkið svona langt, við erum ekki það miklir íþróttamenn, a. m. k. Það væri ekki gætilegt að gera það. Ég held að til þess að hægt væri að ná 4. liðnum í till. hv. 2. þm. Reykn., þá þyrfti hækkunin að vera gífurlega há, miklu meiri en við getum gert okkur grein fyrir, ef við værum búnir að afgreiða þetta. Þess vegna vil ég við þetta tækifæri segja það, — náttúrlega eru mín orð takmörkuð, því að menn í ráðherrasætum geta náttúrlega ekki sagt nema fyrir sig meðan þeir eru ráðh., — að ég mun leggja fyrir þessa n. að taka þessa liði til sérstakrar athugunar, enda er n. stofnuð til þess arna. En ég leyfi mér að fara fram á það við þann ágæta og reynda mann, hv. 2. þm. Reykn., að fara ekki að binda þetta í lögum, af því að ég sé ekki fyrir endann á afleiðingum þess ef það yrði gert. Ég veit um dugnað hans og manndóm á öllum sviðum og ég veit því að hann mun athuga þetta mál betur. Það er of mikil ógætni til þess að það væri hægt að setja þetta inn í lög, því þar með væri ráðh. skylt að ákveða það, að innan hvers svæðis skyldi vera einn og sami taxti, enda þótt ég telji brýna nauðsyn til þess að hraða því að það komist í framkvæmd. En það þarf meiri tæknibúnað og betri og styrkari fjármál stofnunarinnar en þau nú eru, jafnvel þó þau hafi verulega batnað á s. l. ári og ég vona að sá bati haldi áfram.

Ég get endurtekið það, að ég er hv. 2. þm. Reykn. og þeim öðrum, sem hér hafa talað, hjartanlega sammála um nauðsyn málsins. Þess vegna hef ég við hverja gjaldskrárbreytingu haldið inn á þessa braut lengra og lengra. En mér hefur líka verið það ljóst, að það hefur verið mikið umtalað mál, hvað taxtahækkanirnar hafa verið miklar, þó það hafi aldrei verið farið lengra en svo að reyna að halda uppi eðlilegri framþróun stofnunarinnar og nauðsynlegum breytingum eins og þessum. Þess vegna leyfi ég mér að óska eftir því, að þessi till. verði tekin til baka, og reyndar óska þess einnig með hina, svo hv. deild standi óskipt að málinu, sem hún raunar mun gera að minni hyggju, því ég tel mig hafa gert grein fyrir þessu máli.

Út af fjarskiptamálunum vil ég segja það, að mesta löngun hjá póst- og símamálastjórninni þar er í raun og veru að losa sig sem mest út úr fjarskiptamálunum. Það er í sérstakri athug­un. Ég held að það hafi verið hv. 2. þm. Vestf., — ég man ekki hvort hann flutti till., en hann gerði fyrirspurn í fyrra um þessi mál og þessi mál hafa verið í sérstakri athugun. Það er alveg ljóst, sem fram kom í ræðu hv. 2. þm. Vestf. og hjá hv. 1. landsk. þm. kom þetta líka fram, að það eru fleiri og fleiri sem geta sinnt þessum störfum. En þessi mál koma ekki eins við þessu frv. og önnur, en þau mál eru mjög til athug­unar og Póstur og sími hefur í raun og veru ekki sérstaka löngun til þess að vera í þessum málum eins og hann er. T. d. er það svo, að það hafa margar kvartanir komið um sjónvarp og útvarp, að ekki væru í lagi, til mín sem samgrh., enda þótt bæði útvarp og sjónvarp heyri til menntmrh., en ekki samgrh. að neinu leyti, því að þeir starfsmenn Pósts og síma, sem að þessu vinna, vinna bara það verk sem þeir taka að sér, en ekki að þessi stofnun eigi að sinna þessu.

Nú skal ég ekki hafa þetta mál mitt lengra, það er nú orðið of langt. Ég segi það, að ég er þakklátur þeim anda sem hér hefur komið fram, og ég hefði nú út af fyrir sig ekki neina ástæðu til að fara að gera mér sérstaka óanægju. En ég held að við afgreiddum málið best með því að sýna í afgreiðslunni, að það er raunveru­lega eining um þetta, og þær till. tvær, sem ég hef hér nefnt, væru teknar til baka. Ég leyfi mér að segja það, að það væri vel farið ef það rættist.