22.04.1977
Efri deild: 61. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 3494 í B-deild Alþingistíðinda. (2443)

165. mál, póst- og símamál

Frsm. (Jón Helgason):

Herra forseti. Það hefur borið hér nokkuð á góma að það þyrfti að fresta þessu máli nú, þar sem það væri ýmislegt sem þyrfti að athuga betur í því. Eins og ég sagði áðan er erfitt að sjá fyrir öll atriði lagasetningar og út frá því sjónarmiði held ég að það væri nú heppilegra fyrir okkur að reyna að afgreiða þetta frv. núna, þar sem ég held að við séum yfirleitt sammála um að það, sem þar er tekið fram, sé til bóta, og láta lögin taka gildi. Við vitum að lög standa ekki til eilífðar, þau eru endurskoðuð, kannske misjafnlega fljótt, en það væri heppilegra að við tækjum þessi lög þá fljótlega til endurskoðunar, m. a. þau atriði, sem hér hafa verið nefnd, og vafalaust einhver fleiri, eftir því sem koma í ljós þegar lögin hafa komið til framkvæmda. Þá ætti að vera hægara fyrir okkur að átta okkur á því, hverju við þurfum að breyta til þess að ná sem bestu marki.

Vegna till. hv. 5. þm. Norðurl. e. og 4. landsk. vil ég vísa til þess sem ég sagði áðan, að meiri hl. n. hefði talið að það væru svo mörg atriði sem hún snerti, að það væri erfitt eða ómögulegt að afgreiða það á þann hátt á þeim tíma sem nú væri til loka þingsins, þar sem hún hefði ekki komið fram fyrr en rétt um það leyti sem var verið að afgreiða málið. Og mér finnst það einmitt staðfestast í því, að hv. flm. eru þegar komnir fram með brtt. við hana. (StJ: Það er nú ekki rétt.) Jæja. (StJ: Og það sannar ekkert annað en það, að við munum að sjálfsögðu leið­rétta mistök.) Já, já.

En ég vil aðeins benda á það, að í sambandi við þetta vakna margar spurningar. Ég benti á það strax þegar þetta kom fram í n., að það koma fram spurningar um það, hvaða ábyrgð svona stjórn á að bera. Á hún þá að bera alger­lega ábyrgð á rekstrinum? Eða hver á að bera ábyrgðina? Eigum við að taka þetta fyrirtæki undan ráðh. og ríkisstj. eða hvar á að setja mörkin?

Við höfum talað um framkvæmdavald, löggjafarvald og dómsvald, rétta þurfi að aðskilja. En þarna er sem sagt lagt til að Alþ. fari að skipa stjórn yfir eina af þeim stofnunum sem hefur tvímælalaust heyrt framkvæmdavaldinu til, — og á sú stjórn að færa ábyrgðina algerlega frá ráðh. og yfir á Alþ. eða hvernig á að haga þessu? Þetta er sú spurning sem mér hlýtur að koma í hug, og ég held það þurfi að skilgreina þetta miklu nánar en gert er í þessari tillögu.

Það er vitanlega margt fleira í þessu sam­bandi. Við höfum t. d. verið í þessu frv. að reyna að taka tillit til óska starfsmanna stofnunarinnar um að hafa einhver áhrif á stjórnina. Það er ekkert hugsað um það í þessari till., að starfs­mennirnir hafi þarna nein áhrif.

Ég tók það fram, að við værum ekki bein­línis að hafna algerlega þessari hugmynd, held­ur að þetta þyrfti að athuga betur og jafnvel á breiðari grundvelli, m. a. með tilliti til ann­arra stofnana ríkisins sem um væri að ræða. Bent hefur verið hér á aðra stofnun sem búið er að flytja frv. um sérstaka stjórn fyrir.

Ég ætla ekki að fjölyrða um brtt. á þskj. 460 frá hv. 2. þm. Reykn., þar sem hann hefur nú dregið hana til baka til 3. umr. ég vil aðeins geta þess, að þessi till. kom það seint fram að hún barst aldrei n., þannig að hún hafði ekki tækifæri til að fjalla um hana á fundum sínum. En ég get tekið undir það, að hún fjallar um mál sem við erum allir sammála um að þarf að stefna að. Hins vegar er bara spurningin sú, hvað við getum ráðið við að gera það fljótt. Um fyrsta liðinn hef ég látið þá skoðun í ljós, að ég tel að Tryggingastofnun ríkisins eigi að veita þá aðstoð sem þar er fjallað um. Það er Tryggingastofn­unin sem metur hverjir eigi helst að fá þetta, og ég held að miklu eðlilegra sé að sá aðili, sem hefur matið veiti þá einnig aðstoðina og beri ábyrgð á henni. Því væri eðlilegra að það væri Tryggingastofnunin sem greiddi afnota­gjöld fyrir þessa aðila sem hún úrskurðar að hafi þörf fyrir rétta. Og það þyrfti þá jafnvel að vera eitthvað rýmra en þetta, því að óneitan­lega væru þetta mikil forréttindi fyrir þessa 25. Og þá vaknar spurningin: Eru ekki fleiri sem hafa kannske eins mikla þörf fyrir þetta?

Það var minnst á það, að hér lægi frv. fyrir d. um svipað efni, og það er rétt. Það var vísað til samgn. frv. sem gekk nokkuð í þessa átt. Við sendum þetta frv. til umsagnar, m. a. um­sagnar tryggingaráðs, þess ágæta þingkjörna ráðs, og það hefur ekki borist enn þá umsögn frá því. Ég hef talað um það við hv. 5. þm. Norðurl. e. að hann gengi eftir því að það svaraði, en þrátt fyrir það hefur svar ekki borist enn þá eða var ekki nú fyrir tveimur dögum.

Það var beint til mín fsp. um þjónustustarf­semi Pósts og síma, hvort það mál hefði borið á góma í n. Það var rætt eins og reyndar hefur nú þegar komið fram í umr., að það kom fram hjá póst- og símamálastjóra þar það sama og kom fram í máli hæstv. samgrh., að þeir stefna að því að draga úr þessum einkarétti sínum. Ég held að þessi einkaréttur sé upphaflega kominn til af því, það varð að finna einhvern aðila sem var skyldugur að veita þessa þjónustu á meðan varla var um annan aðila að ræða sem gat það. Síðan eru vitanlega breyttar aðstæður og möguleikarnir hafa vaxið, og þá eru menn sammála um að það sé óþarfi að binda þetta svona. Hvað þessi breyting getur farið hratt skal ég ekki segja. Það verður að fara eftir því hversu fyrir aðrir aðilar eru um að taka þetta að sér. Aðalatriðið held ég að hljóti að vera að hægt sé að veita þessa þjónustu. En vitanlega verður að gæta þess alltaf, að Póstur og sími eða aðrir opinberir aðilar séu ekki að hindra það að fólk fái góða þjónustu eða það séu einhver ákvæði um þeirra einkarétt sem hindra það.

Þetta eru, held ég, þau atriði sem ég vildi aðeins gera aths. við.