22.04.1977
Efri deild: 61. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 3497 í B-deild Alþingistíðinda. (2446)

165. mál, póst- og símamál

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Ég var að hugsa til baka til þeirra orða sem hér féllu frá ráðh. og öðrum þm., mig minnir að það hafi verið hv. 2. þm. Reykn., sem talaði um hvað mundi kosta sú hugmynd, sem þó er hugsanlega framkvæmanleg, að setja teljara til að takmarka hvað fólk megi tala í síma hér á Reykjavíkur­svæðinu. Mig hryllir við þeirri hugmynd, að slíkt skuli vera í bígerð, og fagna því, að það skuli vera okkur um megn að leggja í kostnað­inn við slíkt. Það er langt í það að við förum að takmarka eitthvað fleira, t. d. útvarp, hvað við megum hlusta á í útvarpinu o. fl. eða hvað við megum vera lengi úti á kvöldin, fullorðið fólk. Það er búið að skylda okkur til þess að spara, leggja til hliðar peningana sem við eigum eftir þegar við erum búnir að greiða skatta. Hvert stefnir? Vonandi verður stefnubreyting og boð og bönn fjarlægjast huga okkar.

En ég vil þakka hv. 2. þm. Reykn. fyrir þær upplýsingar sem hann gaf mér og ég hélt að hann byggi ekki yfir á þessu stigi málsins. Þetta er ekki svo mikið sem það kostar reykvíkinga eða allra. Þetta eru ein lítil 30% við það sem það kostar í dag, hvert skref. Það er eins og oft áður, okkur reykvíkinga munar ekkert um það að auka gjöld á reykvíkingum, að hækka gjöldin um 30% á þéttbýlisbúum. En hvað er langt þangað til við tökum þetta utanbæjarfólk, sem hér er til umræðu á Félagsmálastofnun Reykja­víkurborgar beint, en vera ekki að fara neinar smákrókaleiðir inn í Félagsmálastofnunina. Kom­ið bara með till. um það. Ég efast um að fólkið úti á landi sé því sammála að svona till. séu fluttar. Því er enginn greiði gerður nema síður sé.

Talsmaður n., Jón Helgason, 4. þm. Suðurl., talaði um, að það væri rétt að samþykkja frv. eins og það er, það væri hægt að taka þetta frv. upp aftur seinna og breyta lögunum. Ég held að þetta sé nú að reyna að fara ansi mikið í kringum hlutina, og enginn köttur mundi fara svona varlega í kringum heita skál. Það er ekki hlaupið að því að taka lög upp aftur og það nýsett lög, nýsamþykkt lög, það vitum við. Það er jafnvel erfitt að fá til baka úr n. frv. sem þm. setja þangað í byrjun kjörtímabils, og gæti ég talið upp þó nokkur mál frá mér, sem liggja í nefnd, sem ég flýtti mér að koma fram með í byrjun þings í von um að þau kæmust þó til skila úr n. fyrir lok þingsins, en sitja enn þá eftir. Það er ekkert auðvelt mál að hraða vinnu hér á Alþingi. Það er blekking ef þm. halda því fram, að þeir séu að hjálpa hver öðrum áfram með mál í nefndum.

Till. sú, sem ég kom hér fram með, er seint fram komin og þurfti að leita afbrigða fyrir henni vegna þess að ég á ekki sæti í samgn. En mér datt ekki í hug að n., þar sem sjálfstæðis­menn eiga þó nokkurn hlut í, samþykkti með glöðu geði að ríkið fái viðbót við þá einokun sem það hefur á ýmsum sviðum. Ég mun ekki samþykkja þetta frv. eins og það liggur fyrir með þessu einokunarákvæði. Ákvæðið er ekki í lögum fyrir. Það er verið að bæta því við og ég mun ekki samþykkja það.

Ég skil ekki heldur þann málflutning sem kemur fram hjá frsm., að vísu var kallað fram í af flm. Hvað á stjórn fyrirtækisins að gera? Hvers konar spurning er þetta? Það felst í orðunum sjálfum hvað stjórn á að gera. Auð­vitað er hún ábyrg fyrir ákvörðunum sem teknar eru. Svo eru starfsmenn stjórnar eða starfsmenn undir henni ábyrgir gagnvart stjórninni og þessi stjórn síðan ábyrg gagnvart Alþ. En hér segir, með leyfi forseta, í seinni hl. till., hann hlóðar svo, — nú ætla ég að taka fram, að ég er ekki að verja þessa till. af því að ég eigi eitthvað í henni, það eru allt aðrir menn, — hún hljóðar svo:

„Stjórn stofnunarinnar skal hafa eftirlit með fjárhag, rekstri og starfsemi stofnunarinnar og gæta þess að hún starfi í samræmi við lög og reglugerðir á hverjum tíma. Skal endurskoðunardeild starfa við stofnunina undir eftirliti hinn­ar þingkjörnu stjórnar.“

Þetta er í till. sjálfri, og þar fyrir utan eru stjórnir á öllum ríkisbönkunum sem hafa sínar reglugerðir og sín lög. Svona Vífilengjur þoli ég ekki, þó að ekki sé um mín mál að ræða eða mínar till. Það er rétt að setja stjórn á stofn­unina, það er rangt að hafa ekki stjórn á stofn­uninni, og ég mun styðja þessa till. af því að hún er góð, þó að hún sé komin frá vinstri vængnum, mér þykir rétt að bæta því við.

Ég tel að sala á símatækjum og viðgerðarþjónusta tilheyri hinu frjálsa framtaki, og ég tel að það sé rétt að í þessari iðngrein eins og öllum öðrum útskrifi Iðnskólinn símvirkja á sama hátt og útvarpsvirkja, bifvélavirkja o. fl. Og ég vil endurtaka það, að ég mun ekki sam­þykkja nein lög sem fela í sér einokun eða einkarétt til handa ríkinu á rekstri eða þjónustu eða á innflutningi á vörum. En ég tel aftur á móti tímabært að láta falla niður einkarétt ríkisins á öllum þeim sviðum sem hægt er. Það geta verið undantekningar, engin regla er án undantekninga. En þegar um rekstur, þjónustu og innflutning á voru er að ræða, þá er það ekki réttlætanlegt að ríkið einoki með fjármagni fólksins þá hlið þjóðlífsins.