22.04.1977
Efri deild: 61. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 3499 í B-deild Alþingistíðinda. (2448)

165. mál, póst- og símamál

Frsm. (Jón Helgason):

Herra forseti. Þetta fer nú kannske að verða þreytandi, en mér finnst óhjákvæmilegt að skýra aðeins betur hvað það er sem ég meinti. Menn virðast ekki hafa athugað það, hvað hér er um mikla breytingu að ræða. Eins og 1. gr. frv. hljóðar nú, þá er hún svo:

„Samgrn. fer með yfirstjórn póst-, síma ­og annarra fjarskiptamála.“

Samkv. brtt. frá hv. 5. þm. Norðurl. e. er þetta algerlega fellt í burtu, að samgrn. fari með yfirstjórn Pósts og síma. Það er sem sagt tekið und­an ríkisstj., ríkisvaldinu. Það eina sem mér sýnist að ráðh. eigi að gera á eftir er að skipa formann og varaformann stjórnarinnar og ákveða laun stjórnarmanna. Þetta tel ég vera svo mikla breytingu að það þurfi að hugsa sig svolítið um áður en farið er að gera svona algerlega — ­ég vil segja kúvendingu á framkvæmdavaldinu.

Ég gleymdi því áðan að minnast aðeins á þau orð hv. 5. þm. Norðurl, e., að málflutningur minn væri svona vegna þess að ég megi ekki til þess hugsa að andmæla ráðh. mínum. Ég held að ég hafi sett nákvæmlega þessar sömu skoðanir fram strax þegar hann kom fram með brtt. í n., og ég hafði þá engin tök á því að hafa samband við ráðh. minn til að fá einhverja línu frá honum.