22.04.1977
Efri deild: 61. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 3499 í B-deild Alþingistíðinda. (2449)

165. mál, póst- og símamál

Steinþór Gestsson:

Herra forseti. ég hefði sjálfsagt getað fallið frá orðinu eftir að hafa heyrt þessa síðustu ræðu 4. þm. Suðurl. og formanns þeirrar n. sem hafði þetta mál til meðferðar. En ég verð að segja það, eins og kom fram í umr. okkar í n. þegar hugmyndin um þingkjörna stjórn fyrir þetta fyrirtæki kom fram, að það væri svo viðamikil mál, að það væri ekki hægt að gera ráð fyrir að Alþ. gæti fyrir þinglok kannað það svo að vel færi.

Ég er þeirrar skoðunar, að það eigi að athuga þetta mál mjög gaumgæfilega, þá er ég líka þeirr­ar skoðunar, að Alþ. beri og alþm. að hugleiða það vel, hvort þetta eigi ekki miklu víðar við og hvernig á að samræma það þeirri skiptingu á framkvæmdavaldinu með þjóðinni, hvernig á að koma því heim við það sem við höfum haft í því efni, og það er ekki eins einfalt mál og margur ætlar að koma því heim svo að vel sé.

Ég treysti mér ekki til þess að samþykkja þessa till. núna, eins og hún er fram borin. Ég tel að hún samræmist tæplega nægilega vel því frv. sem við erum með, þeirri uppbyggingu sem er á því, og alls ekki þeim höfuðreglum sem við höfum haft um skiptingu valdsins til þessa.

Ég ætlaði ekki að taka til máls um þetta frv. í þessum umr. ég leit svo á að formaður n. hefði gert fullglögg skil þeim viðhorfum sem þar komu fram. En það liggur hér fyrir ný brtt. sem hv. 12. þm. Reykv. hefur borið fram, og því miður hafði hann þau orð hér í ræðu áðan sem ég tel ekki vera líkt honum að hafa. Ég harma að hann skuli drótta því að samflokksmönnum sínum að þeir standi ekki á verði um þær höfuðstefnur sem flokkur okkar hefur. En ég vil segja það í þessu efni, að í meðförum n. hefur n. lagt til að stefnt verði að því að skólahald verði und­anskilið stofnuninni og sett inn í hið almenna fræðslukerfi iðnfræðslunnar, þetta þýðir það í fyrsta lagi, að þetta er fyrsta skrefið til þess að slá á þá einkaaðstöðu, sem Póstur og sími hefur haft. Við ræddum á fundum með þeirri n., sem undirbjó þessi lög, um þann einkarétt sem stofnunin hefur haft í ýmsum efnum, og það kom greinilega fram, sérstaklega frá hendi póst­- og símamálastjóra, að hann er þeirrar skoðunar að það eigi svo hratt sem kostur er að hverfa frá þeim einkarétti sem stofnunin hefur. Ég veit að samnm. mínir, sem voru á þessum fund­um, geta vitnað um þetta með mér ef það er dregið í efa. ég tel farsælla að fara þessa leið heldur en að strika þetta nú þegar út úr lögum án þess að vita fyrir víst með hverjum hætti við getum annars leyst málið.