01.11.1976
Neðri deild: 7. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 383 í B-deild Alþingistíðinda. (245)

6. mál, þingnefnd til að kanna framkvæmd dómsmála

Sigurlaug Bjarnadóttir:

Virðulegi forseti. Ég var á mælendaskrá er umr. um þetta mál í s.l. viku var frestað eftir að 1. flm. hafði í mjög ítarlegri ræðu gert sínu máli skil og hæstv. dómsmrh. einnig í alllöngu máli. Ég hafði hins vegar alls ekki ætlað mér að hafa um þetta langt mál og mun standa við það nú. Hér er þó annars vegar mjög stórt mál, till. til þál. um skipan sérstakrar þn. með skírskotun til 39. gr. stjórnarskrárinnar til að kanna gang og framkvæmd dómsmála, í fyrsta lagi hvernig staðið er að rannsóknum sakamála hjá þeim embættum sem slík verkefni hafa með höndum, þ. á m. hjá ríkissaksóknara, sakadómi og skattrannsóknastjóra, í öðru lagi hvernig háttað er gangi dómsmála hjá hinum ýmsu dómstigum og dómaraembættum í landinu, og í þriðja lagi hvernig háttað er framkvæmd refsidóma. Nánari útlistun fylgir hverjum hinna þriggja þátta till.

Það þarf engan prófessor í lögum til að sjá að flm. þessarar till. færast ekkert smáræði í fang. Mér fannst að hæstv. dómsmrh. hefði rétt fyrir sér er hann benti á að till. væri allt of víðfeðm, verkefni væntanlegrar þingnefndar of óljóst afmarkað til að nokkur von væri til þess að rannsóknin leiddi til niðurstöðu sem nokkurt mark væri takandi á, ekki hvað síst með tilliti til hins takmarkaða starfstíma n. sem till. gerir ráð fyrir. Þarf ég ekki að fara út í endurtekningu á rökstuðningi ráðh. þar að lútandi sem ég var í meginatriðum sammála.

En það var ýmislegt annað í málflutningi hæstv. dómsmrh. sem ég var ekki jafnsammála. Mér fannst gagnrýni hans, sem í sjálfu sér var eðlileg og réttmæt, miklu minna sannfærandi en efni stóðu til fyrir þá sök, að ég fékk ekki betur séð en að í máli hæstv. ráðh. fælist greinileg viðleitni til að drepa málinu á dreif eða jafnvel drepa það í fæðingunni, með því fyrst og fremst að gera 1. flm. till., hv. 8. landsk. þm. Sighvat Björgvinsson, lítinn og hlægilegan og um leið marklausan. Fyrir vel greindan og þaulreyndan stjórnmálamann, prófessor í lögum og æðsta vald í íslenskum dómsmálum kann slík málsmeðferð að reynast auðveldur leikur gagnvart ungum, reynslulitlum þm., ólöglærðum þar að auki, enda lét árangurinn ekki á sér standa við fyrsta umgang, þar eð samdægurs var það gert alþjóð kunnugt í íslenska ríkisútvarpinu, að fátt hefði staðið eftir af ágæti umræddrar þáltill. að lokinni ræðu dómsmrh. Þar kom raunar til, því miður ekki í fyrsta skipti, að lögskyldri óhlutdrægni í fréttaflutningi af þingmálum í ríkisútvarpinu skrikaði nokkuð fótur.

Nú er ég fyrir mitt leyti enginn sérstakur talsmaður rannsóknarnefna þm. Ég tel þó að þær eigi fullan rétt á sér og geti verið beinlínis nauðsynlegar, ef það er álit Alþ. að eitthvað fari það mikið aflaga í þjóðfélaginu að sérstakrar rannsóknar sé þörf. Nú er það almenn vitneskja að framkvæmd dómsmála í landinu sé og hafi verið á undanförnum árum með þeim hætti að ekki verði lengur við unað. Mun ég ekki fara út í nánari skýringar á þeirri staðhæfingu hér, svo rækilega sem búið er að reifa þau mál, bæði hér á Alþ. og í almennum umr. af lærðum og leikum. Það er og staðreynd að stjórnarskrá íslenska lýðveldisins gerir beinlínis ráð fyrir að slíkar n. séu skipaðar, sbr. sjálfa tillgr., og þær hafa verið skipaður, t.d. svokölluð okurnefnd á sjötta áratugnum til að kanna sérstakt okurmál sem upp kom. Þá kom fram till. um skipun rannsóknarnefndar frá flokksbróður hæstv. dómsmrh., Þórarni Þórarinssyni, fyrir nokkrum árum til þess að rannsaka að vísu nokkurs konar innanhúsmál Alþ., hugsanlegt trúnaðarbrot eins nm. í utanrmn., eftir því sem mér er tjáð. Sú rannsóknarnefnd, sem hér er gerð till. um, er því siður en svo neitt einsdæmi í þingsögunni.

Það hefur þráfaldlega komið fram hjá hæstv. dómsmrh., Ólafi Jóbannssyni, í maraþonumr. að undanförnu um dómsmál og íslenskt réttarfar, að við þyrftum að gæta vissrar varúðar og umfram allt mannúðar í framkvæmd dómsmála. Að sjálfsögðu tökum við öll undir það sjónarmið. Um það er enginn ágreiningur. En almenningur gerir einfaldlega kröfu til að í landinu sé virt og trúverðugt réttarkerfi, sem hægt er að taka mark á og treysta. En það er einmitt þarna sem greinilega hefur orðið misbrestur á, og ég hygg að í beinu áframhaldi af atburðum og umr. um þessi mál sé þessi till. fram borin á Alþ. Hæstv. dómsmrh, gat um það m.a. í tali sínu um mannúð í dómsmálum, sem ég tek undir að þurfi að vera hverju sinni, að fangi austur á Litla-Hrauni hefði fengið nýrnakast og hvað hefði átt annað að gera við hann en að flytja hann á spítala. Ég veit ekki hvort hæstv. ráðh. gerir sér í hugarlund að nokkur einasti þm. eða nokkur annar íslendingur hefði andmælt því og talið það annað en sjálfsagðan hlut að fangar í fangelsi nytu sömu mannréttinda að þessu leyti eins og allir aðrir borgarar, þannig að mér fannst þessi aths. ákaflega léttvæg. Ég kunni því líka illa að hæstv. dómsmrh. taldi að alþm. ættu ekki að vera að ala á tortryggni og getsökum með flutningi slíkra till. Nú skal ég viðurkenna að ég hef ekki enn, því miður, prentaða ræðu dómsmrh., hún mun ekki komin í þingtíðindum. En þessi aths., að það sé óþarfi að Alþ. láti sig varða mál eins og þau sem hér var um fjallað, finnst mér ekki sannfærandi af munni sjálfs dómsmrh. Það kom líka fram í lokaorðum dómsmrh. sem hljóðuðu eitthvað á þessa leið, ég held nokkuð orðrétt: að hvað sem verður um þessa till., þá kemur hún ekki til að hafa hin minnstu áhrif á setu mína sem dómsmrh. Kann að vera að hæstv. dómsmrh. hafi mælt þessi orð í gamni, en mér fyrir mitt leyti fannst þetta gaman sem hæfði hvorki stað né stund, og mér fannst þessi lokaorð hans benda til þess og staðfesta þann tón sem undir var í máli hans, að með þessu máli, sem hér var lagt fram, umræddri þáltill., væri verið að veitast að honum persónulega. Þetta viðhorf hæstv. ráðh. tel ég ákaflega alvarlegt og beint til þess fallið að gera óvirka þá gr. stjórnarskrárinnar sem þarna er skírskotað til. þ.e.a.s. 39. gr., um skipun sérstakrar rannsóknarnefndar.

Nú vil ég endurtaka það, að ég held að flm. þessarar till. hafi skotið yfir markið með því að gera hana að mínu leikmannsmati allt að því óframkvæmanlega, en hugmyndin að baki finnst mér rétt og eðlileg. Það hefði mátt segja sem svo, að slík rannsóknarnefnd hefði átt að vera komin fram fyrr. Það er nóg af einstökum umfangsminni málum heldur en það sem till. gerir ráð fyrir sem sannarlega hefði verið þörf á að kryfja betur til mergjar. Ég get nefnt hið fræga Klúbbmál sem alþjóð hefur staðið frammi fyrir í forundran undanfarin 5–6 ár, en er nú loksins, að því er fjölmiðlar herma, að komast á lokastig, þ.e.a.s. dómsuppkvaðning í málinu. En fólk hefur átt erfitt með að átta sig á og hefur hreint ekki getað skilið hvernig þessu eina fyrirtæki hefur haldist uppi að halda áfram rekstri með tugmilljóna söluskattsskuldir á bakinu, á meðan gengið hefur verið allharkalega að öðrum fyrirtækjum ekki ómerkari og ekki óþarfari úti um allt land.

Ég vil ekki orðlengja þetta frekar. Mér fannst miður að heyra afstöðu dómsmrh. gagnvart þessu máli, sem mér fannst hann þó gagnrýna á margan hátt réttilega og heiðarlega, og umtal hans um getsakir og ágiskanir var allt of áberandi í hans máli, og jafnvel var þar gefið í skyn að með flutningi þessa máls væri í uppsiglingu nýr Nixon og Watergate-mál, sem sennilega var ætlað til ófrægingar 1. flm. málsins. En ég vænti þess, að þetta mál fái eðlilega málsmeðferð í þeirri n. sem tekur það til umfjöllunar, og kannske gæti eitthvað komið út úr flutningi hennar þó henni sé á margan hátt ábótavant núna, — gæti eitthvað komið út úr henni sem bætti ástandið og andrúmsloftið í þessum málum.

Ég vil taka fram áður en ég lýk máli mínu, að hæstv. núv. dómsmrh. hefur vissulega sýnt í verki að hann vill leiðréttingu og umbætur í þessum málum og lagt fram fjölþættan lagabálk um endurbætur og fyrir það á hann þakkir skyldar. Neikvæðar undirtektir hans við þessa till. vekja hins vegar ekki það traust sem skyldi á afstöðu hans til þessara mála almennt.