22.04.1977
Neðri deild: 69. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 3506 í B-deild Alþingistíðinda. (2459)

15. mál, veiðar í fiskveiðilandhelgi

Frsm. (Pétur Sigurðsson):

Herra forseti. Eitthvað er minni hv. þm. Sverris Hermannssonar farið að bila um það, hvað skeð hafi í sjútvn. þessarar hv. d., enda ekki ólíklegt, svo er langt síðan hann hefur getað setið fundi þar. Hann fór utan til að bjarga landi og þjóð skömmu upp úr marsmánuði og hefur náttúrulega ekkert vitað hvað hér hefur farið fram síðan.

Það er rétt hjá honum, að viðbrögð manna þegar bréf L.Í.Ú. kom til n. voru nokkuð á þann veg sem hann lýsti og þá aðallega við erindinu sem slíku frá félagsskapnum. Hins vegar minni ég á það, að við í n. sendum þetta erindi til umsagnar og fengum umsagnir um það frá þeim aðilum sem við sendum það til, svo að sjútvrn. hefur bersýnilega stutt sínar málaleitanir við n. þegar rn. bað okkur um að flytja brtt. þær sem eru á þskj. 392. Ég leyfi mér að benda á það, að það var held ég ég sjálfur sem lét vafa koma í ljós um það, að reykvískir botnvörpu­skipaeigendur og útgerðarmenn væru fylgjandi þeirri till. sem fram kom um friðun vestur af Snæfellsnesi. Ég gerði mér ferð, eins og ég tók fram í minni framsöguræðu, til vissra aðila til þess að spyrjast fyrir um þetta, þ. á m. til þeirra sem um útgerð þessa hv. þm. sjá, og spurði einn þeirra þar hvort þeir væru þessu sammála. Hann kvað svo vera. Og það kom svar frá Félagi Ísl. botnvörpuskipaeigenda um það, að þeir stæðu heils hugar að samþykkt Lands­sambandsins eða aðalfundarsamþykktinni sem svo kom til okkar. Þá kom líka svar við þessu frá Fiskifélagi Íslands, en að Fiskifélaginu standa m. a. fulltrúar rummunganna, sjómanna og útvegsmanna, en þannig nefndi hv. þm. þessa menn í ræðu sinni í fyrrakvöld. Stjórn Fiski­félagsins mælti með umræddum breytingum, og þá á ég við þær till. sem við fluttum að ósk sjútvrn. Hafrannsóknastofnunin hafði samkvæmt okkar ósk látið uppi hug sinn um það, hvaða afstöðu hún hefði til till. L.Í.Ú. Hún var eftir atvikum með öllum till. utan þeirri sem fram kom í erindi L.Í.Ú. að rýmka um togveiðar við Norðurland. Þannig lögðum við málið fyrir hér í hv. d., og þannig lauk 2. umr. 23. mars s.l., að það var samþykkt að vísa málinu til 3. umr. Við tökum till. til baka til athugunar eftir ósk hv. þm. og eins nm. í sjútvn., 4. þm. Austurl. Það var mjög erfitt að ná nefndarmönnum sam­an til fundar til þess að taka afstöðu til þess­arar óskar. Ég náði hins vegar tali af þessum hv. þm. og reyndar höfðum við svo fullskipaðan fund síðar, og hann hafði þá ekkert nýtt fram að leggja í þessu máli.

En það auðvitað stendur, það sem við skrifuðum undir þegar við afgreiddum málið í fyrstu frá n., að nm. hafa óbundnar hendur og áskilja sér rétt til að flytja eða fylgja brtt. sem fram kunna að koma.

Þetta er það sem liggur fyrir frá n. í heild. Við höfum hins vegar tjáð okkur hér í þinginu um efnislega afstöðu til þeirra brtt. sem við fluttum fyrir hönd rn. Þrír okkar voru með þeim breytingum. Að sjálfsögðu, eins og tekið hefur verið fram, voru allir með þeim breyt. sem fram koma vegna brbl. Auk þess eru allir nm. sammála um 6. brtt. í till. sjútvrn. Síðan hefur verið lögð fram, eins og allir nm. skildu sér rétt til, brtt. frá hv. þm. Garðari Sigurðssyni og hún var tilkynnt á nefndarfundi í sjútvn. Þar voru að vísu skiptar skoðanir um hana. Það voru menn þar innan veggja sem tjáðu sig fylgjandi þeirri till. (Gripið fram í.) Mætti ég biðja hæstv. forseta að vísa manni úr þingsal sem leyfir sér að vera með frammíköll á þennan hátt. Ég held að það sé nóg að hann leyfi sér að kalla hér úr ræðustól á Alþ. heilar stéttir rummunga og það kannske stéttir sem hann þykist nokkur ítök í eiga, þó að hann sé ekki að fara með svona staðlausa stafi við menn sem eru að tala hér á hv. Alþ. Það var aldrei tekin fyrir á dagskrá n. þessi brtt., enda var aldrei óskað eftir því. Það var búið að skrifa undir nál. og þessi hv. þm. líka, áður en hann fór í lystireisu sína til Norðurlanda og bað um helst að öllum þingstörfum yrði frestað meðan hann skryppi frá, sem var í þrjár vikur a. m. k., þannig að það var ekkert um það að ræða að vera að halda fundi um þessa till. Menn voru búnir að áskilja sér rétt til að flytja till. og fylgja þeim.

Þess vegna segi ég nú, og til þess kom ég í ræðustól, að ég mótmæli því að menn séu með svona augljósar aðgerðir til þess að tefja þingstörf og reyna að koma í veg fyrir, að þm. sjálfir fái að láta í ljós skoðun sína á þeim till., sem hér liggja fyrir, í atkvgr., en það hefur ekki verið gert enn þá. Ég persónulega — ég veit að aðrir í n. geta talað fyrir sig — ég kæri mig ekkert um að fá þetta einu sinni enn til n. Við höfum flutt obbann af þessum till. Við höfum fengið málið að ósk þingsins aftur til athugunar, — höfðum ekkert frekar við okkar fyrri afstöðu að bæta, sem jafnframt var afstaða þessa hv. þm. Það eina, sem um er að ræða, er þessi eina brtt. sem síðar hefur komið, og ég tel að hv. þm. sjálfir séu fullfærir um að taka afstöðu til hennar, svo ljós er hún í allri framsetningu.