02.11.1976
Sameinað þing: 13. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 426 í B-deild Alþingistíðinda. (259)

Umræður utan dagskrár

Lúðvík Jósepsson:

Herra forseti. Ég sagði í ræðu minni áðan að ég ætlaði ekki að fara að karpa við hæstv. sjútvrh. um þau atriði sem ég tel að hér skipti ekki máli, og ég ætla nú að reyna að halda mér við það, en aðeins að fá að gera eina örstutta athugasemd við það sem hæstv. ráðh. sagði.

Hann fullyrti að ég hefði gefið út brbl. um kjör sjómanna á árinu 1973. Þetta eru auðvitað staðlausir stafir, algjört slúður. Ég hef engin brbl. gefið út um kjör sjómanna í þessu tilfelli. Það, sem hæstv. ráðh. er hér að tala um, eru sennilega brbl., sem Hannibal Valdimarsson gaf út og voru til staðfestingar á ákveðnu, útfærðu samkomulagi á milli þeirra aðila sem hér áttu hlut að máli, enda bera lögin það alveg með sér, þar sem tiltekið er í mörgum liðum hvaða breytingar skuli gerðar á áður gildandi samkomulagi. Þessi lög voru sett eftir langvarandi stöðvun stóru togaranna. Það væri svo sem hægt að tilnefna fleira, eins og það hjá hæstv. ráðh. þegar hann segir að ég hafi bundið fiskverð í heilt ár. Allt þetta er slúður af sama tagi og hann var að fimbulfamba um áður.