14.10.1976
Neðri deild: 3. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 29 í B-deild Alþingistíðinda. (26)

11. mál, rannsóknarlögregla ríkisins

Tómas Árnason:

Herra forseti. Ég vildi gjarnan við 1. umr. þessa merka máls lýsa svolítið almennt afstöðu minni til þess. Ég tók að vísu til máls stuttlega á þinginu í fyrravetur þegar þetta mál var til umr., en langar til að bæta þar við nokkrum orðum.

Ég vil þá fyrst láta í ljós það, að ég kann hæstv, dómsmrh. þakkir fyrir að standa að undirbúningi þessa máls, eins og gert hefur verið allar götur frá árinu 1972, þegar sérstök n. sérfræðinga var skipuð af hans hálfu til þess að endurskoða dómsmálakerfi landsins og gera till. um breytingar. Ég get ekki að því gert, að það urðu mér nokkur vonbrigði í fyrravetur, að málið skyldi ekki verða afgr., ekki hljóta afgreiðslu. Mér fannst það svo vel undirbúið að það ætti að fá greiða leið í gegnum þingið, og ég sannfærðist ekki þegar hv. þm. form. allshn. gerði grein fyrir því hér á Alþ. hvers vegna ekki var unnt að afgr. málið á því þingi. Þess er að gæta, að þó að það sé rétt, alveg rétt, sem kom fram hjá hv. 1. þm. Suðurl., að það er gert ráð fyrir því að lögin öðlist gildi um n.k. áramót og það var einnig gert ráð fyrir því þegar frv. var lagt fram hér á Alþ. í fyrra, þá er þó þess að gæta, að það er slæmt að missa tíma í þessum efnum vegna þess að hann verður ekki unninn upp. Það tekur sinn tíma að undirbúa stofnun slíkrar stofnunar eins og þeirrar sem hér er gert ráð fyrir að verði, búa hana allri aðstöðu og gera hana sem best í stakk til þess að taka sem fyrst til starfa með sem áhrifaríkustum hætti. Þess vegna vil ég láta í ljós vonbrigði yfir því að ekki reyndist unnt að afgr. málið á seinasta Alþ. Þó er það ekki höfuðatriði þessa máls. Hitt er aðalatriðið, að málinu verði vel tekið á Alþ. núna og það hljóti greiða og fljóta afgreiðslu, þannig að hægt verði að taka til starfa við að byggja upp þá stofnun sem þetta lagafrv. gerir ráð fyrir að sett verði á fót.

Hæstv. dómsmrh. lýsti þeim aðalatriðum sem efnislega felast í lögfestingu þessa frv. um rannsóknarlögreglu ríkisins. Það mætti kannske segja, að kjarnapunktarnir væru fyrst og fremst tveir: annars vegar það aðalatriði að aðgreina rannsóknir meiri háttar sakamála frá dómsmeðferðinni og svo hins vegar að afla sérhæfs starfsliðs til þess að annast rannsóknarmál. Mér er ekki kunnugt um að það sé í raun og veru til neinn lögfræðingur hér á Íslandi sem hefur sérmenntun í rannsókn sakamála. Það er ljóst að þessi mál eru það sérhæfð, að útilokað er að sinna þeim við þær aðstæður sem smátt og smátt hafa verið að skapast í okkar þjóðfélagi, sérstaklega með borgarmyndun hér á Suðvesturlandi og einnig með greiðari samgöngum um allt land, — það er auðvitað ljóst að það er ekki hægt að fást við þessi mál öðruvísi en að til séu sérfræðingar, sérlærðir menn, þ. á m. sérlærðir lögfræðingar á sviði rannsóknarmála. Það er ekki auðvelt að fást við þessi mál með árangri án þess að um slíkt sé að ræða. Að sjálfsögðu verður byggt á þeim grunni sem fyrir er og engin ástæða til þess, eins og hæstv. dómsmrh. tók greinilega fram í framsöguræðu sinni, að gera lítið úr því starfi sem unnið hefur verið.

Að sjálfsögðu eru ástæður fyrir því að við Íslendingar höfum ekki aðskilið þessa þætti sem ég var að minnast á, eins og aðrar þjóðir telja sjálfsagt og hafa gert flestar hverjar fyrir löngu. Ástæðurnar eru auðvitað smæð okkar þjóðfélags og við höfum ekki það bolmagn í svo fámennu þjóðfélagi sem aðrar þjóðir stærri hafa til þess að geta stofnað margar stofnanir sem hver í sínu lagi hafi með höndum alveg sérstök og ákveðin verkefni. Það er ekki fyrr en til kom borgarmyndun hér á Suðvesturlandi og borgarmenning, allt sem henni fylgir, bæði gott og vont, og síðan greiðari samgöngur um land allt, sem þörfin verður augljós til breytinga á þessum sviðum.

Þriðja atriðið, sem er mjög þýðingarmikið í þessu efni, er einmitt það að embætti rannsóknarlögreglu ríkisins skuli hafa lögsögu í málum sínum um land allt með þeim takmörkunum sem gert er ráð fyrir í þessu frv. Það er augljóst öllum, að til hafa komið á allra seinustu tímum sérstakar tegundir afbrota sem gera það nauðsynlegt að mögulegt sé að rétta og hefjast handa við rannsóknir mála alls staðar á landinu án þess að það þurfi að koma til tafir sem stafa af því að landið er greint niður í fjölmörg lögsagnarumdæmi. Ég er þeirrar skoðunar, að þetta mál sé stórt mál og stórt skref stigið til jákvæðrar meðferðar þessara málaflokka, að aðgreina hér á milli lögreglu og dómsvalds, og þær aðstæður, sem nú hafa skapast hér á landi, kalli fyllilega á að þetta skref sé stigið.

Nú er ekki því að neita, að það hefur verið talsvert hik á því hér á Alþ. að stíga þetta skref og menn hafa e.t.v. ekki verið alveg allir sannfærðir um það, fyrr en þá nú að ég vona, að það sé tímabært. En ég ætla að vona það, að þó að frv. hafi ekki fengið afgreiðslu hér í fyrravetur á þinginu, þá hafi það ekki stafað af því að það sé hik á mönnum í því efni, sem er eitt meginatriði þessa máls, að greina á milli lögreglu og dómsvalds, eins og gert er ráð fyrir að gert verði með lögfestingu þessa frv. Að sjálfsögðu er það svo, að frv. er í reyndinni grófar útlínur um það hvernig rannsóknum sakamála verði fyrir komið. Það liggur í augum uppi að á framkvæmdinni veltur auðvitað mest. Og eitt er alveg augljóst mál, að það þarf talsvert verulega aukið fjármagn að koma til, til þess að það sé hægt að búa rannsóknarlögreglu ríkisins í þann stakk sem hæfir og nauðsyn ber til, til að hún gefi sinnt sínum verkefnum eins og til er ætlast.

Ég greindi frá því í fyrra hér í nokkrum orðum, að það hefði vakið athygli mína og raunar áður en þessi mál komu hér til umr., að á engum einasta fundi, sem ég hafði setið á um árabil, hvort sem það var á flokksfundum, framboðsfundum með sveitarstjórnum eða öðrum fundum um stjórnmál, höfðu menn sýnt dómsmálum og sakamálum sérstakan áhuga. Það voru allt önnur mál sem menn höfðu áhuga á og vildu að hefðu forgang. Það er ekki fyrr en tilefni gefast sem áhugi manna fer vaxandi í þessum efnum og menn gera sér ljóst, að til þess að viðhalda réttarríki, lýðræðisríki, er nauðsynlegt að styrkja starfsemi dómsmála og rannsóknarmála þar með. En til þess þarf talsvert verulegt fjármagn að mínum dómi. Og ég ætla að vonast til þess, að það verði ekki hik á hv. alþm. þegar þar að kemur, að leggja til fjármagn í hendur þeirra manna sem fá það hlutskipti að byggja þessa starfsemi upp á þann hátt sem hér er gert ráð fyrir og efla hana í hvívetna, því að það er að mínum dómi mergurinn málsins. Það er lítið hægt að gera til framfara á þessu sviði sem og mörgum öðrum nema með því að kosta til þess talsverðum fjármunum.

Það hefur stundum verið talað um það, að núv. réttarkerfi ráði ekki við stóru málin, eins og stundum er tekið til orða. Ég held að þetta sé ekki rétt nema að sumu leyti. Það eru vissar tegundir mála sem hafa valdið sérstökum erfiðleikum. Hæstv. dómsmrh. minnti á ágætan árangur sem náðst hefur við meðferð stórra sakamála. En það eru vissar tegundir mála sem hafa tekið langan tíma, og á ég þar alveg sérstaklega við stór gjaldþrotamál. Í flestum tilvikum a.m.k. er það svo, að þegar um gjaldþrot er að ræða, þá er um refsivert athæfi, refsiverða háttsemi að ræða. Mjög oft er það svo. Þess vegna reikna ég með því, að rannsóknarlögregla ríkisins muni geta veitt aðstoð við rannsóknir gjaldþrotamála þegar þar að kemur. Gjaldþrotamál eru þess eðlis, að þau varða venjulega viðskipti, stundum viðskipti sem ná til margra ára. Það þarf að fara í gegnum flókið bókhald og oft og tíðum ófullkomið bókhald, og til þess þarf mannafla. Það er ekki nóg að fá til þess hverja sem er, það þarf úrvalsmenn til þess að fá botn í slík rannsóknarmál. Og það er erfitt að fá þá og alls ekki mögulegt nema fyrir verulega háar greiðslur. Þetta er öllum kunnugt. Það ber því allt að sama brunni í þessum efnum, að það veltur mikið á framkvæmdinni, kannske mest, þegar búið er að samþykkja þann ramma og þær útlínur sem menn vilja starfa eftir. En ég hef ekki trú á því, að framkvæmdin geti orðið jákvæð nema með því að Alþ. auki verulega og ég vildi segja til stórra muna framlög til þess að standa undir kostnaði af dómsmálum og rannsóknum sakamála.