02.11.1976
Sameinað þing: 13. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 426 í B-deild Alþingistíðinda. (260)

Umræður utan dagskrár

Forsrh. (Geir Hallgrímsson):

Herra forseti. Ég vil aðeins rifja upp í tilefni þessara umr., að þegar unnið var að endurskoðun sjóðakerfis á s.l. vetri, þá held ég að það hafi ekki farið á milli mála að menn gerðu sér grein fyrir því, að sú endurskoðun átti að miða að því að rekstur sjávarútvegsins væri hagkvæmari eftir en áður, og endurskoðunin átti að leiða til þess auðvitað að meira kæmi til skipta. Þegar ákveðnir útgjaldaliðir voru teknir út úr sjóðakerfinu, eins og olíukostnaðurinn, sem áður hafði að miklu leyti verið uppi borinn af sjóðakerfinu, þá hlaut í kjölfarið að koma hækkað fiskverð sem leiddi annars vegar til aukningar tekna sjómanna og hins vegar til aukinna tekna útgerðar. Vegna þess að fjármunir, sem áður voru notaðir til að greiða olíu, hlutu eftir endurskoðun sjóðakerfisins einnig að nýtast áfram í sama tilgangi, þá var það ljóst að hlutur sjómanna eða skiptiprósenta þeirra hlaut að endurskoðast, — grunnurinn, sem skiptaprósentan var reiknuð af, mundi hækka stórlega, og þótt skiptaprósentan lækkaði lítið eitt, þá yrði niðurstaðan sú að kjör sjómanna mundu stórbatna. Þetta var m.a. tilgangur endurskoðunar sjóðakerfisins af hálfu sjómanna sem fyrir þeirri endurskoðun börðust, og það var tilgangur þeirra útvegsmanna, sem stóðu að endurskoðuninni, að olíukostnaðurinn og olíueyðslan kæmi niður þar sem hún ætti sér stað, en menn borguðu ekki olíu fyrir aðra. Í heild átti þetta að leiða til hagkvæmari niðurstöðu fyrir allt þjóðarbúið. Ég dreg ekki í efa að skilningur sjómanna, m.a. áheyrenda okkar hér í dag, hafi verið fyrir bendi, að sanngjarnt væri af þeirra hálfu, að um leið og fiskverð grunnurinn sem skiptaprósentan væri reiknuð eftir, hækkaði stórlega væri tillit tekið til þess í ákvörðun skiptaprósentu, m.a. til þess að unnt væri að greiða olíukostnaðinn beint af þeim sem eyddu olíunni.

Ég held því fram, að þegar hv. alþm. fjölluðu um endurskoðun sjóðakerfisins hér á Alþ. um miðjan febr. s.l., þá hafi það verið forsenda alþm., sem samþykktu hina margvíslegu löggjöf sem að endurskoðuninni laut, að frá öllum hnútum væri gengið og allir, er þátt tóku í endurskoðun sjóðakerfisins, inntu skyldu sína og skuldbindingar af hendi, hvort sem það voru útvegsmenn, sjómenn eða stjórnvöld. Það var meira að segja oft og tíðum haft á orði að ganga þyrfti frá endanlegum samningum milli útvegsmanna og sjómanna áður en Alþingi gæti gengið frá löggjöfinni er hefði í sér fólgna endurskoðun sjóðakerfisins. Ég held því fram, að alþm. hafi borið svo mikið traust til sjómanna og útvegsmanna, að þeir hafi breytt sjóðakerfinu í trausti þess að þessir aðilar hvorir tveggja stæðu við sínar skuldbindingar.

Ég ætla ekki að rekja aftur þá sögu sem hæstv. sjútvrh. rakti hér áðan um hvernig gangur mála var eftir endurskoðun sjóðakerfis, þrátt fyrir það að bæði fyrrv. og núv. forseti Sjómannasambands Íslands rituðu undir yfirlýsingu þess efnis, er féll í sama farveg og ég hér hef lýst vera forsendu endurskoðunar sjóðakerfisins. Ég tel að það sé ástæða til að óska sjómönnum og sjómannasamtökum þess, að þau megi efla samtakamátt sinn og félagsþroska, félagsréttindi og félagsþátttöku, þannig að önnur mynd blasi við en sú sem óneitanlega gerir eftir þessa sögu sem við höfum fylgst með nú í sumar. Það var því miður um litla þátttöku að ræða í atkvæðagreiðslum og lítill félagsáhugi þá sýndur. Ég vonast til þess að sjómannasamtökin eigi í framtíðinni þeirri gæfu að fagna að menn taki heilshugar þátt innan þeirra vébanda að hagsmunamálum sjómannasamtakanna. En þegar slíkt áhugaleysi var til staðar og slík óvissa þar af leiðandi ríkjandi í kjaramálum sjómanna og útvegsins í landinu í kjölfar löggjafar sem Alþingi bar ábyrgð á, þ.e.a.s. löggjafar um endurskoðun sjóðakerfisins, hvíldi sú skylda á herðum stjórnvalda að létta af þessari óvissu og taka af skarið og setja löggjöf. til þess bar brýna nauðsyn og á grundvelli þeirrar brýnu nauðsynjar voru brbl. sett.

Ég held að þegar litið er á hækkun fiskverðs, þá sé ekki með nokkru móti hægt að segja að um kjaraskerðingarlög sé að ræða. Hitt er allt annað mál, að vel getur verið að kjör sjómanna megi og ættu að vera betri. Ég er ekki að kveða upp neinn dóm að þessu leyti.

Sagt er, að það hafi verið óþarfi að setja þessi lög vegna þess að engin verkföll hafi þá staðið yfir. En þá er mér sú spurning í huga hvort þessum lögum hefði verið tekið betur hefðu þegar verið skollin á verkföll? Þessi lög voru sett til þess að eyða óvissu í kjaramálum er hefði ella getað leitt til verkfalla, og þess vegna eru þessi lög sett í þeim skilningi að betra sé að byrgja brunninn áður en barnið er dottið ofan í hann, en hugsa ekki til þess fyrr en eftir að slysið er orðið.

Ég vildi láta þessi orð falla hér í þessum umr. af því að ég hef þá trú á skynsemi sjómanna og alls almennings hér á landi, að menn skilji nauðsyn þess, að þegar endurskoðun sjóðakerfisins var gerð, þá hlaut annað og meira að koma í kjölfarið svo að upp væri staðið þannig sem allir bjuggust við að yrði þegar þeir kröfðust endurskoðunar þessa sjóðakerfis.