02.11.1976
Sameinað þing: 13. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 428 í B-deild Alþingistíðinda. (261)

Umræður utan dagskrár

Benedikt Gröndal:

Herra forseti. Eftir tveggja klukkutíma umr. er svo komið að hæstv. forsrh. telur nauðsyn á því að stiga hér í ræðustól og reyna að bæta eitthvað fyrir þær hrakfarir sem hæstv. sjútvrh. hefur orðið fyrir í þessum umr. Hann talaði að sjálfsögðu landsföðurlega og með tón góðmennis og drengs, eins og við vitum að hann er. En ef við íhugum orðin, þá verð ég að segja það, að ég átti á öllu von, en ekki því, að forsrh. Íslands stæði upp á Alþingi og segði að það hefði veríð að byrgja brunninn þegar stjórn hans gaf út brbl. um að banna verkföll sjómanna, — verkföll sem voru ekki til. — verkföll sem enginn hafði talað um. Hvar endar slík stefna? Hvað eru margir brunnar sem hæstv. forsrh. ætlar sér að byrgja í þessu landi? Hefur hann ekki nokkra grundvallartilfinningu fyrir því hvað mannréttindi eru og til hvers þau eru? (Gripið fram í: Hvað hefur hv. þm. tekið þátt í að byrgja marga brunna hingað til?) Það skyldi ró ekki vera að þeir brunnar, sem jafnaðarmenn hafa grafið hér á Íslandi, hafi slökkt þann þorsta og það hungur sem íhaldið hefur leitt yfir þessa þjóð og mundi hafa leitt yfir hana ef ekki hefðu komið til önnur öfl?

Ég tel að það sé langsótt hjá hæstv. forsrh. að tala um að breyting sjóðakerfisins hafi verið einhver guðsgjöf sem öllum landsmönnum hafi borið að sýna þá virðingu að bugta sig og beygja undir. Hverjir höfðu komið sjávarútveginum í þær ógöngur sem hann var kominn í? Hverjir höfðu búið þetta sjóðakerfi til? Sagt er að þetta sjóðakerfi hafi verið gert fyrir sjómenn og það hafi verið einhver óskapleg meðaumkun með sjómönnum, að þeir þyrftu að fá betri kjör, sem hafi valdið því að hæstv. ríkisstj. loksins fór að reyna að leiðrétta þetta kerfi. Ég held að það hafi ekki verið meðaumkun með sjómönnum, heldur hitt, að þeirra eigin vinir og vildarmenn, útgerðarmennirnir, voru farnir að gera út á þetta kerfi. Stjórnleysi kapítalismans kom í ljós í allri sinni dýrð í þessu kerfi með sósíalisma andskotans sem fylgisvein, þegar þeir notuðu ríkisvaldið til þess að setja upp alla þessa sjóði og gramsa með ríkissjóð og skattakerfið þar að auki. Þegar menn voru farnir að gera út á þetta um allt land, þá sprakk kerfið. Það hlaut að springa fyrr eða síðar. Það þýðir ekkert að segja eftir á að það hafi verið ástæða til þess að taka verkfallsrétt af sjómönnum, sem töluðu ekki einu sinni um verkfall, eingöngu af því að það hafi verið nauðsynlegt að laga þetta kerfi. Auðvitað varð að laga til, þegar það var sprungið. En það var engin ástæða til þess að ganga þannig frá málunum að létta af óvissu, eins og hæstv. forsrh. sagði, með því að banna verkföll sem engin voru til. með því að banna verkföll sem enginn maður hafði nefnt, með því að banna verkföll sem ekki var vitað til þess að nokkrum manni hafði dottið í hug.

Það er einhver íhaldsónáttúra sem kemur fram í þessu. Það er það sem veldur því að viðbrögðin eru eins og þau eru. Menn, sem byrgja brunninn á þennan hátt, — hvað gera þeir næst? Það er þetta sem um er að ræða. Hæstv. forsrh. þarf ekkert að velta vöngum yfir því hvernig viðtökurnar hefðu verið ef þessi brbl. hefðu verið einhvern veginn öðruvísi en þau eru. Þau eru eins og þau eru. Þau voru gefin út af forseta Íslands með undirskrift og á ábyrgð sjútvrh. Hann hefur auðvitað haft samþykki ríkisstj. Það þýðir ekkert fyrir hann að skrifa bak við ríkisstj. því að pappírinn er á sínum stað og hann er undirskrifaður af forseta Íslands sem ber enga ábyrgð á því samkv. stjórnarskránni. Sjútvrh. ber alla ábyrgðina, enda hljóp hann upp í flugvél og var kominn suður til Grikklands um það bil sem almenningur á Íslandi frétti af þessum ágætu lögum sem hann hafði gefið út.

Sjútvrh. á sannarlega skilið sitt sumarleyfi eins og aðrir. En ég vona, ef hann hefur gengið um og skoðað stytturnar þarna, að hann hafi þá þreifað á einhverjum af hinum gömlu frumherjum lýðræðisins sem voru, að því er við best vitum, í Aþenuborg. Ég held að Sólon og þeir aðrir, sem þar voru, hafi á sínum tíma, aldrei heyrt neitt sem nefnist brbl. Hann hefði getað reynt að draga í sig eitthvað af grundvallartilfinningu lýðræðisins, og það er einmitt það sem þetta mál snýst um. Núv. ríkisstj. er hægri ríkisstjórn. En hún steig yfir mörkin í þessu tilliti, hún gerði sig seka um aðgerð sem lýðræðislegar ríkisstjórnir mega ekki gera, að svipta menn mannréttindum að ófyrirsynju og að ástæðulausu, að byrgja brunn þegar hvorki er brunnur né barn neins staðar nálægt.

Ég vil því algerlega vísa á bug tilraun hæstv. forsrh. til að þurrka yfir þessar umr, og gefa Morgunblaðinu einhver falleg orð til þess að prenta sem einhvern veginn hrutu nú ekki af munni hæstv. sjútvrh., enda var hann í öðru skapi, talaði um að safna undirskriftum úti í New York undir það að menn hefðu drepið ömmu sína eða ég veit ekki hvað það nú var. Það þurfti að betrumbæta. En ég mótmæli því algjörlega, sem þeir hafa haldið fram, að hér hafi nokkur nauðsyn komið til. Ef menn lesa íslenskt mál og ef þeir skilja einföld orð sem ekki er hægt að misskilja, þá verða þeir að lesa umrædda grein stjórnarskrárinnar, og hún er þannig, að þó oft hafi mátt deila um brbl. og e.t.v. oft verið teflt á tæpasta vað, há er greinilega farið yfir mörkin í þessu tilfelli. Það er alveg sama hversu margir hafa komið nálægt mörkunum, þeir, sem fara yfir þau, verða að gjöra svo vel að taka afleiðingunum. Það er aðeins eitt sem hefði átt að gerast hér: forseti Ed. átti að vísa þessu frv. frá. Það er svo gróft stjórnarskrárbrot sem nokkuð getur verið, því að það er engin leið fyrir skynsama menn að halda því fram að það sé brýn nauðsyn að banna verkfall þegar ekkert verkfall er í landinu, þegar enginn sjómaður hefur boðað verkfall. þegar enginn sjómaður, svo að vitað sé, hefur heyrt talað um verkfall. Þegar farið er að stjórna á þennan hátt, þá geta menn búist við viðbrögðum og fá þau.