02.11.1976
Sameinað þing: 13. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 430 í B-deild Alþingistíðinda. (262)

Umræður utan dagskrár

Magnús Kjartansson:

Hæstv. forseti. Ég hef fylgst með þessum umr. af athygli og sérstaklega hef ég veitt athygli ræðum þeim sem málsvarar Alþfl. hafa haldið hér. Þeir hafa lagt á það megináherslu að þessi illræmdu brbl. hafi verið sett þegar ekki stóðu til nein verkföll, þegar ekki voru í gangi nein verkföll, þegar sjómennirnir voru ekki að tala um verkföll. þeir hafi verið að byrgja brunn þegar hvorki brunnurinn né barnið voru viðstödd, eins og síðasti ræðumaður sagði. Ég skil ákaflega vel af hverju málsvarar Alþfl. tala svona. Þeir eru sekir um að hafa staðið að fleiri brbl. til að grípa inn í vinnudeilur en nokkrir aðrir menn, og þeir hafa gert það þegar verkföll hafa staðið fyrir dyrum eða verið hafin. Ég lít svo á að það sé mun alvarlegra að setja slík lög heldur en þau lög, sem ég fordæmi algerlega líka, sem hæstv. sjútvrh. setti. Að grípa inn í vinnudeilur af hálfu stjórnvalda, af hálfu Alþ., tel ég vera algerlega ranga aðferð, það eigi að vinna að þeim málum á lýðræðislegan hátt og láta launafólk og atvinnurekendur takast á og stuðla að því að málin leysist með samningum, en ekki neinu valdboði. Það er þessi sundurgreining hjá málsvörum Alþfl. sem mér finnst vera ákaflega athyglisverð og segir raunar æðimikið um sögu þess flokks.

Ég vil minna á það, að það var eitt fyrsta verk þessarar ríkisstj., sem nú situr við völd, að setja brbl. þegar yfir stóð vinnudeila hjá ríkisverksmiðjum. Þá brást starfsfólkið þar þannig við, að það neitaði að hlíta þessum brbl. Það hélt aðgerðum sínum áfram þrátt fyrir brbl., og það braut brbl. á bak aftur. Það er á þennan hátt sem sjómenn þurfa að hrinda þeim valdaaðgerðum, sem núv. ríkisstj. hefur beitt gagnvart þeim, með mætti samtaka sinna. Það er máttur samtaka þeirra sem getur brotið brbl. á bak aftur, en ekki málskraf hér á Alþingi.