26.04.1977
Sameinað þing: 81. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 3753 í B-deild Alþingistíðinda. (2663)

110. mál, meðferð minni háttar mála fyrir héraðsdómstólum

Frsm. (Ellert B. Schram):

Herra forseti. Till. sú, sem hér er til umr., er flutt af fjórum þm.: Braga Sigurjónssyni, Tómasi Árnasyni, Eðvarð Sigurðssyni og Magnúsi T. Ólafssyni, og hljóðar á þessa leið:

„Alþingi ályktar að leggja fyrir ríkisstj., að hún láti nú þegar semja frv. til breyt. á lögum og geri aðrar ráðstafanir til undirbúnings því, að komið verði á fljótvirkari og ódýrari meðferð minni háttar mála fyrir héraðsdómstólum. M. a. geti dómari ákveðið að mál, sem höfðuð eru af viðskiptavini verslunar eða þjónustufyrirtækis vegna viðskipta við fyrirtækið, hljóti skjótari og ódýrari afgreiðslu en nú tíðkast. Meðferð þessari megi beita við minni háttar mál, sem varða allt að 100 þús. kr. Við þessar lagabreyt­ingar verði meðferð líkra minni háttar mála í öðrum löndum höfð til hliðsjónar, en reglur færðar til íslenskra aðstæðna.“

Allshn. hefur athugað þessa till. og er sam­mála um að mæla með samþykkt hennar. Hér er um að ræða mikið hagsmunamál fyrir allan þorra almennings. Það er kunnara en frá þurfi að segja, að málavafstur og málarekstur getur tafist um óeðlilega langan tíma aðilum máls til mikils tjóns og óhagræðis, og hefur verið mjög ákveðin tilhneiging til þess í ýmsum löndum að gera meðferð minni háttar mála skjótvirkari en almennt gerist um málatilbúnað og mála­rekstur. Kunnugt er að réttarfarsnefnd er þegar farin að undirbúa slíkar breytingar á löggjöf­inni og hefur fullan hug á að leggja fram till. í þessa átt. Dómarar við héraðsdómstóla hafa lýst áhuga sínum á að slíkar breytingar yrðu gerðar. Með hliðsjón af öllu þessu þykir rétt og eðlilegt að Alþ. undirstriki vilja sinn um að til slíkra breytinga komi, og því þykir hv. allshn., sjálfsagt að mæla með samþykkt þessarar till.