26.04.1977
Sameinað þing: 81. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 3754 í B-deild Alþingistíðinda. (2667)

10. mál, votheysverkun

Frsm. (Sverrir Hermannsson):

Herra forseti. Atvmn. Sþ. hefur haft til umfjöllunar till. til þál. um votheysverkun sem flutt er af hv. þm. Þorvaldi Garðari Kristjánssyni. N. hefur orðið sammála um það að mæla með samþykkt þess­arar till. með þeirri breytingu, að inngangur till. breytist og hljóði svo:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að heita sér fyrir ráðstöfunum til að stuðla að almennari votheysverkun en nú er með því að“ o. s. frv., en þessa breytingu má finna á þskj. 492.

N. sendi þetta mál til umsagnar Búnaðarfé­lags Íslands og Stéttarsambands bænda og mæl­ir hvor tveggja aðilinn með samþykkt till. Það kemur fram í bréfi Búnaðarfélags Íslands, að áróður hefur verið hafður uppi um framgang þessa máls, verkun fóðurs í vothey, linnulaus áróður um ágæti votheysgerðar allt frá alda­mótum, eins og segir í bréfi þeirra. En hann hefur ekki, sá áróður, gefið góða raun eða mjög litla raun sem raun ber vitni. Aftur á móti þykjast þeir, sem hafa brugðið á þetta ráð með heyfeng sinn, hafa af þessu mjög góða reynslu. Það er einkum á Ströndum og í Vestur-Ísa­fjarðarsýslu sem menn hafa tekið til þessa ráðs og hefur gefist mjög vel, sér í lagi þegar komið hafa hrakviðrasöm sumur, að þeir hafa eftir sem áður fengið borgið heyfeng sínum og bú­smali gengið ágætlega fram eftir fóðrun með þessum heyfeng. Hér hefur verið lögð á það áhersla, að bændum verði kynnt reynsla þeirra, sem hafa stundað búskap með þessum hætti, og enn fremur á að vinna málinu framgang með því að veitt verði sérstök fyrirgreiðsla vegna byggingar votheyshlaðna og e. t. v. breytingar þurrheyshlaðna í votheyshlöður. Þess má að vísu geta, að votheysgryfjur og votheyshlöður njóta betri kjara en þurrheyshlöður, en ef reynsl­an er, eins og dæmi virðast sýna, mjög góð af þessu, þá er ástæða til að leggja enn frekari áherslu á þessa heyverkun með fjárframlögum. Þó vill n. láta það koma fram, að hún telur ástæður stofnlánasjóða landbúnaðarins ekki með þeim hætti að þar sé fé aflögu til þess arna og yrði þá að hafa úti spjót eftir frekara fjár­magni.

Allítarleg grg. fylgir með þessari till. og eins mælti hv. flm. fyrir till. með glöggum upplýsingum. Allshn. leggur einróma til að till. verði samþykkt með þeirri lítils háttar breytingu sem ég gat um.