26.04.1977
Sameinað þing: 81. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 3761 í B-deild Alþingistíðinda. (2675)

69. mál, áhrif Framkvæmdastofnunar ríkisins og Byggðasjóðs á athugun á atvinnu- og byggðaþróun í landinu

Tómas Árnason:

Herra forseti. Aðeins örfá orð. Ég skal reyna að stytta mál mitt vegna þess að ég gerði þessu máli allítarleg skil við 1. umr. þess.

Það hefur stundum borið á góma hér í umr. á þingi, hvers vegna og hvort menn séu ánægðir með núv. stjórnarsamstarf eða ekki. Þegar það er metið, þá er ég þeirrar skoðunar að það séu fyrst og fremst þrjú mál eða þrír mála­flokkar eða e. t. v. fjórir sem eru þýðingarmestir og unnið hefur verið að af núv. ríkisstj. Það er í fyrsta lagi landhelgismálið, sem eitt út af fyrir sig réttlætir tilveru hvaða ríkisstj. sem er. Það er í öðru lagi byggðamálin, stórkostleg efling Byggðasjóðs, sem hefur numið líklega um 3½ milljarði kr. á 3 árum. Mig minnir að fram­lag ríkissjóðs hafi verið 860 millj. kr. 1975, 1123 millj. kr. 1976 og 1630 millj. kr. 1977. Þetta er mikið fjármagn sem notað er í því skyni að stuðla að jafnvægi í byggð landsins. Í þriðja lagi eru svo stórframkvæmdir á sviði orkumála, bæði raforkuframkvæmdir og ekki síður hita­veituframkvæmdir, sem hefur miðað stórlega fram í tíð núv. hæstv. ríkisstj. Og fjórði málaflokkurinn, sem ég vildi nefna í þessu sambandi, er að það hefur tekist að halda uppi fullri at­vinnu í landinu á sama tíma sem verðbólgan hefur lækkað talsvert verulega frá því sem hún var 1974 og á sama tíma sem gífurlegt atvinnu­leysi ríkir í okkar nágranna- og viðskiptalönd­um í Evrópu. Mér er sagt að atvinnuleysingjar í Vestur-Evrópu séu um 7 millj. Einhvers staðar hef ég heyrt þá tölu nefnda.

Ég minnist á þetta núna vegna þess að það mál, sem hér er til umr., er eitt af stórmálum þjóðarinnar að mínum dómi, þ. e. a. s. byggðamálin, og mér finnst þróun í þessum málum lýst best með því að vitna til þeirrar staðreynd­ar, að árunum 1950–1970 fjölgaði íslendingum um 66 þús. Þá varð fjölgun í Reykjavík eða á Reykjanessvæðinu 54.6 þús., en ekki nema 11.4 þús. annars staðar á landinu. Á undanförnum mörgum áratugum þá hefur þessi þróun búferlaflutninga frá landsbyggðinni til Reykjavíkursvæðisins verið hrikaleg og skilið eftir sig mörg sár og eyður í byggðinni allt umhverfis landið. Það er þess vegna sem þurft hefur að taka stórt á í þessum málum, til þess að reyna að stöðva þessa þróun, og ég vil meina að það hafi tekist á tiltölulega stuttum tíma. Síðan Byggðasjóður og Framkvæmdastofnunin voru stofnsett 1972 hefur það gerst, og ég vil meina m. a. fyrir starfsemi Byggðasjóðs alveg sérstak­lega, að þessi þróun hefur stöðvast. Í fyrsta sinn á árinu 1974 gerðist það, að fjölgun varð svipuð um allt land, hún varð svipuð á Reykjavíkur- og Reykjanessvæðinu og annars staðar á landinu og þó heldur meiri annars staðar á landinu. Og þannig þyrftu málin að þróast að mínum dómi, að þessi fjölgun væri svipuð alls staðar á landinu. En til þess að svo megi verða má ekki slaka á í þessum efnum, og ég álít að það sé hættulegt að fara að gera nú þegar ráð­stafanir sem hrinda af stað nýrri skriðu í bú­ferlaflutningum frá landsbyggðinni til Reykja­víkur. Ég er þeirrar skoðunar að það sé engum til góðs, hvorki Reykjavík né landinu í heild.

Þegar meta á þessi mál, t. d. þann þátt þessa máls sem hér er til umr., meta áhrifin af starf­semi Framkvæmdastofnunarinnar á atvinnuþró­unina, þá vil ég vísa til þess, að Framkvæmda­stofnunin hefur alveg sérstaklega lagt áherslu á uppbyggingu í atvinnulífinu. Hún hefur unnið að gerð sérstakrar áætlunar, hraðfrystihúsaáætl­unar, sem er mjög yfirgripsmikil áætlun. Það hefur verið fjárfest í hraðfrystiiðnaðinum í landinu á s. l. allmörgum árum líklega milli 14 og 15 milljarðar kr., ef miðað er við verðlag eins og það var í júnímánuði í fyrrasumar. Og það hefur verið byggður upp mjög öflugur skipa­stóll í landinu á undanförnum árum sem hefur fiskað hráefni til fiskvinnslunnar og ekki síst hraðfrystihúsanna í vaxandi mæli, vegna þess að það hefur orðið hrein bylting í vinnslu á þeirra vegum.

Ef litið er á þessi mál í ár, þá hygg ég að menn spái því, að útflutningsframleiðsla sjávar­afurða á þessu ári kunni að nema 70–75 millj­örðum kr. af líklega um 100 milljörðum alls í útflutningi. Og það er enginn efi á því, að upp­bygging og efling fiskiskipaflotans og vinnslu­stöðvanna við sjávarsíðuna allt í kringum landið á verulegan þátt í því, að það er hægt að fram­ á þessu ári sjávarafurðir til útflutnings fyrir milli 70 og 75 milljarða kr.

Ég vek athygli á þessu sérstaklega með tilliti til þess þáttar þessa máls, þar sem menn vilja athuga hvaða áhrif starfsemi Framkvæmda­stofnunarinnar og Byggðasjóðs hefur haft á þróun atvinnumála og hvað það hefur mikla þýðingu fyrir landið í heild að byggja einmitt þessa atvinnuvegi upp. Það vantar enn mikið á að þeir séu fullkomlega uppbyggðir, t. d. fisk­vinnsluþátturinn, það vantar mikið á það. Ég álít að það fari stórkostleg verðmæti forgörðum vegna þess að ekki er varan fullunnin úr hrá­efninu eins og hægt væri að gera. Þetta á ekki eingöngu við þorsk og slíka fiska, heldur á þetta einnig við um t. d. loðnuafurðirnar. Er talið að ef íslendingar nýttu loðnuafurðirnar, sem komu á land á síðustu loðnuvertíð sem nú er nýlokið, nýttu þessi verðmæti eins vel og norðmenn gera, þá hefði verðmætisaukningin orðið 1600 millj. kr. Sem sagt það fara í sjóinn hjá okkur veru­leg verðmæti vegna þess að við nýtum ekki hráefnin eins og hægt væri að gera og eins og nágrannar okkar gera. Og það stafar af ýmsum ástæðum. Það stafar t. d. af því, að við erum með hringinn í kringum landið mikið af opnum þróm, svo dæmi sé tekið. Það rignir ofan í þetta og hráefnin verða fyrir skemmdum vegna þess að þau eru ekki í lokuðum þróm, þó það séu víða tankar að vísu. Það eru margvísleg tæki sem þarf að endurbæta og byggja að nýju í loðnuverksmiðjunum til þess að þær geti skilað þeirri nýtingu sem norðmenn gera, sem ég skal ekki leggja neinn dóm á hvort er fullkomið, er það sennilega ekki. En það er enginn vafi á því, að það er full þörf á að fara að huga að þessum málum. Nýlega hefur verið samþ. í stjórn Framkvæmdastofnunarinnar ályktun um að gera áætlun um vinnslu loðnuaflans sérstaklega, og það eru mörg atriði sem þar koma til greina.

Ég minnist á þetta alveg sérstaklega með til­liti til þess, að þeir aðilar, sem koma til með að skoða þessi mál, reyni að kryfja til mergjar hvaða áhrif starfsemi Framkvæmdastofnunar­innar og Byggðasjóðs hefur haft á atvinnuþró­unina í landinu.

Varðandi áhrifin á byggðaþróunina, þá virð­ast þau áhrif þegar hafa komið fram, þó að mér detti ekki í hug að halda því fram, að það sé einvörðungu þess vegna, en auðvitað eru margir aðrir aðilar sem þarna koma við sögu. Ég vakti athygli á því við l. umr., að það eru fleiri sjóðir en Byggðasjóður sem lána út fjár­magn, og ég gerði þá grein fyrir því, hvernig fjármagn hefði verið lánað úr hinum ýmsu sjóð­um fjárfestingarlánasjóðakerfisins til Reykja­víkur- og Reykjanessvæðisins annars vegar og hins vegar til landsbyggðarinnar.

Ég vakti t. d. athygli á því, að Byggingarsjóður ríkisins hefur á árunum 1971–1974 lánað til bygginga í Reykjavík og á Reykjanessvæðinu 70–80% af því fjármagni sem hann hefur haft til ráðstöfunar, en eingöngu 20–30% til alls landsins þar fyrir utan. Iðnlánasjóður hefur lánað á árunum 1971–1975 um 75% af sínu ráð­stöfunarfé til Reykjavíkur og Reykjanessvæðis­ins, en 25% til landsbyggðarinnar að öðru leyti. Og það mætti ræða um fleiri sjóði, eins og Iðn­þróunarsjóð, í þessu sambandi. Auðvitað verður því erfitt að meta hvaða þróun það er sem er að kenna eða þakka starfsemi Framkvæmda­stofnunarinnar, vegna þess að það eru svo margir aðrir þættir sem þarna koma til sögunnar.

Framkvæmdastofnunin er í meiri tengslum við Alþ. heldur en nokkur önnur ríkisstofnun. Alþ. kýs henni stjórn, og það vill svo til að það eru eintómir alþm. í þeirri stjórn og hefur svo verið frá upphafi. Tveir alþm. eru forstjórar í þessari stofnun. Af þessum ástæðum, þó að það geti breyst að sjálfsögðu hvenær sem er, er þessi stofnun í miklum og nánum tengslum við Alþingi. Áætlanir, sem gerðar eru, eiga að send­ast ríkisstj. og hún á að gera Alþ. grein fyrir þeim. Það er á hverju ári sem forsrh. flytur sérstaka skýrslu hér á Alþ. um starfsemi Fram­kvæmdastofnunarinnar, og þá er kjörið tækifæri til þess að ræða um áhrif af þessari starfsemi, hvort sem þau eru góð eða ill. Það verða menn að meta eftir atvikum. Og síðan er það, að með ítarlegri ársskýrslu, sem hefur verið gefin út ár hvert um starfsemi Framkvæmdastofnunar­innar, fylgir lánaskrá, fylgir skrá um öll lán sem samþ. eru af stjórn stofnunarinnar, hvert eitt og einasta lán, og það geta menn skoðað og athugað í rólegheitum. Er það eina lánastofnun­in í landinu sem gerir þetta. Þannig er Fram­kvæmdastofnunin í mjög nánum tengslum við Alþ., og þess vegna ætti að verða hægar fyrir ríkisstj. og Alþ. að meta það, hvaða áhrif starf­semi þessarar stofnunar hefur haft á byggða­þróun, hefur haft á atvinnuþróun og ýmsa aðra þætti í þjóðlífinu.

Ég veit ekki hvort ég á að tjá mig sérstak­lega um þá hugmynd, sem kom fram hjá hv. síðasta ræðumanni, að stofna sérstakan byggða­sjóð fyrir Reykjavík. Ég veit það ekki. Ég efast um að það sé tímabært, svo ég segi ekki meira, því að enn þá hefur ekki hallað á Reykjavík sem hægt er að tala um. Mér finnst það engin tíðindi sem er nein ástæða til að undrast yfir, þó að það komi fyrir að tekjur manna úti um landsbyggðina, þar sem gífurlega stór hluti af atvinnustarfseminni í landinu og gjaldeyrisskap­andi starfsemi í landinu fer fram, séu örlítið hærri en í Reykjavík. Mér finnst það engin sérstök tíðindi, og mér finnst að reykvíkingar hafi engin forréttindi á því, að hafa hærri tekjur en aðrir landsmenn. (Gripið fram í.) Nei, en þeir hafa engin forréttindi á því að hafa hærri tekjur en aðrir landsmenn, og menn þurfa ekkert að vera undrandi yfir því og það er ekkert öfugt í þjóðfélaginu þó að það komi fyrir að reykvíkingar hafi lægri tekjur en sumir lands­menn og sumir landshlutar. Þó að það gerist eitt ár, þá held ég að það sé skynsamlegt að bíða og sjá til, hvernig þróuninni fleygir fram í þessum efnum, og æðrast ekki þó að þetta komi fyrir einu sinni.