26.04.1977
Sameinað þing: 81. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 3766 í B-deild Alþingistíðinda. (2677)

69. mál, áhrif Framkvæmdastofnunar ríkisins og Byggðasjóðs á athugun á atvinnu- og byggðaþróun í landinu

Tómas Árnason:

Herra forseti. Ég skal ekki hafa mörg orð um þetta, en það hvarflar nú að manni sú hugsun, að það felist ákveðinn tilgang­ur í því að setja rannsókn á ákveðna stofnun, og ég tek því ekki vel sem hv. síðasti ræðu­maður talar um í þessu efni. Auðvitað er hér um að ræða það, að verið er að setja öðrum þræði rannsókn á stofnunina. Það er ljóst. Og það er kannske þess vegna sem ég hef talað dálítið í þessu máli. En í því efni vil ég vekja athygli á því, að það gæti verið ástæða til þess að setja rannsókn á ýmislegt fleira í þessu þjóð­félagi. Það gæti verið ástæða til að rannsaka ýmislegt fleira. Það gæti verið ástæða til þess að rannsaka í heild hvernig fjármagni þjóðar­innar er yfir höfuð varið, hve miklu er varið til arðbærra framkvæmda og hve miklu er varið í arðbæran atvinnurekstur. Menn skilja nú fyrr en skellur í tönnum, og það þýðir ekkert að tala við menn eins og hv. þm. var að ræða hér um áðan. Hann ætlar sér auðvitað að reyna að koma lagi á Framkvæmdastofnunina. Það er það sem hann ætlar sér. Og hann gerir það til þess að þjóna ákveðnum öflum, svo ég tali alveg hreinskilnislega um þessi mál. Það er mín skoð­un. Eigi að síður kvarta ég ekkert yfir því, þó að það séu rannsökuð eða athuguð ákveðin áhrif, ég hef ekkert á móti því. En það sló mig a. m. k. strax þegar þessi till. kom fram, að hún væri flutt öðrum þræði í þeim tilgangi.

Varðandi Framkvæmdastofnunina er það að segja, að að svo miklu leyti sem hún fjallar um ráðstöfun á fjármagni, þá hefur hún með hönd­um stjórn á tveimur stórum sjóðum. Annar er Framkvæmdasjóður Íslands, og á þessu ári verða lánaðir úr Framkvæmdasjóði um 6 milljarðar. Hins vegar er Byggðasjóður, en úr honum verða lánaðar um 1700 millj. kr. Framkvæmdasjóður­inn, sem er miklu stærri, starfar ekkert síður í þágu Reykjavíkur og reykvískrar atvinnuuppbygg­ingar heldur en annarrar uppbyggingar í land­inu. Hann gerir engan mun á Reykjavík og öðr­um landshlutum í því efni — alls engan. Það er Byggðasjóðurinn sem gerir það. Þó er nú kannske ástæða til þess að vekja athygli á því, af því að það kemur fram í skýrslunni, að það eru lánaðar 93 millj. úr Byggðasjóði til Reykjavíkur og það er meira en í sum önnur kjördæmi landsins. (Gripið fram í.) Reykjavík er ekki alveg afskipt, eða var það ekki á síð­asta ári. Ég man nú ekki hvernig þessi skipt­ing var, en ég hygg að það hafi verið lánað meira til Reykjavíkur úr Byggðasjóði á síðasta ári heldur en t. d. í Vesturlandskjördæmi, minnir mig vera.

Varðandi það atriði sem hv. þm. minntist á, þar sem er höfnin í Reykjavík og hafnarmann­virki og hafnaraðstaða, geri ég ráð fyrir að það sé alveg rétt hjá honum, hann er kunnugur þeim málum, að það sé þörf á því að bæta þá að­stöðu. En ég kemst ekki hjá að vekja athygli á því, að vöruflutningar til landsins fara að langsamlega mestu leyti í gegnum Reykjavíkur­höfn, Reykjavíkurhöfn hefur þess vegna miklu meiri tekjur en nokkur önnur höfn á landinu og þar af leiðandi betri aðstöðu til þess að sinna sín­um verkefnum, þó að ég efist ekki um það sem hv. þm. sagði áðan, að það sé þörf á því að bæta þar um. Mér er það raunar kunnugt, t. d. í sambandi við strandferðaskipin og margt og margt fleira. En ég skal ekki lengja umr. frekar, en vildi láta koma fram þá skoðun mína, að í leiðinni sé þessi till. hugsuð þannig að það sé ástæða til þess að skoða hjá þeim í Fram­kvæmdastofnuninni.