27.04.1977
Efri deild: 65. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 3770 í B-deild Alþingistíðinda. (2685)

222. mál, Kennaraháskóli Íslands

Menntmrh. (Vilhjálmur Hjálmarsson):

Herra forseti. Mér er kannske nokkur vandi á höndum að stytta mál mitt þegar ég mæli fyrir þessu frv. um Kennaraháskóla Íslands. Frv. er bæði nokkuð mikið að vöxtum og næsta þýðingarmikið. Þýðing frv. fyrir skólahaldið í landinu verður strax ljós þegar lesin er 1. gr. þess, þar sem hlutverk Kennaraháskóla Íslands er markað í megindráttum. En ég mun í þessum framsögu­orðum láta hjá líða að rekja einstök efnisatriði þessa frv. eftir greinum þess, vil láta nægja að mestu að skýra frá tildrögum að frv.-smíðinni og undirbúningi málsins til þessa og svo greina frá þeim helstu breytingum frá gildandi löggjöf sem þetta frv. hefur inni að halda.

Í lögum um Kennaraháskóla Íslands frá 16. apríl 1971, í 25. gr., segir svo m. a.: „Lög þessi skal endurskoða eigi síðar en að tveimur árum liðnum frá gildistöku þeirra.“ Hinn 29. nóv. 1972 skipaði þáv. menntmrh., Magnús T. Ólafsson, n. til að annast þessa endurskoðun. Í n. voru skipaðir Broddi Jóhannesson rektor Kennaraháskólans þá, formaður, Árni Gunnarsson deildarstjóri, Jónatan Þórmundsson prófessor og Jónas Páls­son skólastjóií Æfinga- og tilraunaskólans. Þegar Baldur Jónsson hafði verið kjörinn rektor Kennaraháskólans í jan. 1975 óskaði n. eftir því að hann tæki sæti í henni, og var hann skipaður í n. 4. mars það ár. Síðla það ár var svo Kristínu Magnúsdóttur falið að starfa með n. sem fulltrúi kennaranema, en Lars Andersen var tilnefndur til vara.

N. hóf störf sín með því að afla gagna um þróun í menntunarmálum kennaraefna frá því að löggjöfin um Kennaraháskóla Íslands frá 1971 var undirbúin. Auk þess sótti formaður n. ráðstefnu Evrópuráðs um rannsóknir og endurbætur á menntun kennara í Englandi í apríl 1973. Þá sótti formaður n. einnig ráðstefnu um kennara­menntun sem haldin var í Osló 1915 á vegum Norrænu menningarmálaskrifstofunnar í Kaup­mannahöfn. N. hélt mjög marga fundi og ræddi auk þess við ýmsa sérfróða aðila um einstaka þætti viðfangsefnisins. Var í fyrstu lögð megin­áhersla á að ræða hlutverk og markmið með menntun og starfi kennara, en skilningur um margt á þeim efnum er eðlileg forsenda allra ákvarðana um kennaranám, gerð þess og inntak, eins og segir í nál.

Þetta var um undirbúningsvinnuna, en þá vík ég að nýmælunum.

Í þessu frv. eru sem sagt ýmis nýmæli og ég skal drepa á mikilvægustu breytingarnar sem lagt er til að gerðar verði á hlutverki Kennara­háskólans og fyrri skipan kennaranámsins.

Kennaraháskólinn skal vera miðstöð vísindalegra rannsókna í uppeldis- og kennslufræðum í landinu. Í nál. er gerð ítarleg grein fyrir þörf­inni á auknum rannsóknum á sviði íslenskra uppeldismála. Þar er rakin allítarlega þróun slíkra rannsókna og greint frá lagaákvæðum þar að lútandi. Verður sú grg. ekki endurtekin hér, en um veigamiklar breytingar er að ræða á þessu sviði, nokkuð veigamiklar a. m. k. Kennaraskólinn skal annast uppeldis- og kennslufræðilega menntun allra kennara á grunn­skólastigi og í öllum skólum á framhaldsskóla­stigi. Þetta hefur ekki verið svo, heldur hefur þessi þáttur kennaramenntunar verið framkvæmd­ur í fleiri skólum. Talið er að fjármagn og kenn­aralið nýtis betur með þessum hætti og að undir­búningur kennaraefna verði heildstæðari með þessu móti, að þessi þáttur undirbúnings þeirra fari fram á einum stað, þó sérgreinar verði kenndar á öðrum stöðum líkt og nú á sér stað.

Heimilt er að fela skólanum að annast fullmenntun kennara í þeim greinum grunnskóla sem kenndar eru í sérskólum við setningu laganna. Það fyrirkomulag, sem nú tíðkast, hefur þróast í gegnum árin, sérskólarnir oft upp vaxnir fyrir brýna þörf. Ekki er með þessum lögum fyrir­hugað að kollsteypa þessu fyrirkomulagi, en rétt þykir að hafa í væntanlegri löggjöf heimildar­ákvæði af þessu tagi.

Stofna skal til kennslu í uppeldisfræðum til BA-prófs við Kennaraháskóla Íslands. Auk þess er heimilt samkv. ákvörðun skólaráðs og að fengnu samþykki menntmrh. að efna til fram­haldsnáms í Kennaraháskólanum til æðri próf­gráðu en BA-prófs. Um þetta atriði segir m. a. í nál.:

N. telur eðlilegt að framangreind starfsemi í Háskóla Íslands verði færð í Kennaraháskól­ann. Er það í samræmi við þá meginstefnu sem mörkuð er í 1. gr. frv. um hlutverk Kennara­háskólans. Ef sú uppeldis- og kennslufræðimennt­un framhaldsskólakennara, sem rækt hefur verið í Háskóla Íslands, flyst á vegum Kennarahá­skólans, eins og frv. gerir ráð fyrir, sýnist og eðlilegt að kennslan í uppeldisfræði til BA-prófs flytjist með, sökum þeirra tengsla sem að framan getur. En einnig frá sjónarmiði Kennaraháskól­ans sem almennrar kennaramenntunarstofnunar eru gild rök fyrir því, að koma beri á fót kennslu til háskólaprófs í uppeldisfræðum við skólann.“

N., sem samdi þetta frv., lagði til að mennt­mrh. yrði heimilað að lengja kennaranámið um allt að einu ári að fengnum till. skólaráðs Menntmrn. taldi hins vegar ekki tímabært að lögfesta þá heimild nú, svo að rn. felldi þetta atriði niður úr frv.

Gert er ráð fyrir, að tekið verði upp námseiningakerfi, og kveðið er á um meginþætti kennaranáms á þeim grundvelli. Jafnframt er valgreinakerfið gert nokkru sveigjanlegra en það er nú og tekur nú einnig til sérstakra verksviða í grunnskóla, t. d. byrjendakennslu. Um þetta segir n. svo :

„Nokkur vandi hefur stafað af því og óánægja meðal kennaraefna, að skýr fyrirmæli hefur brostið um skilgreiningar á námseiningum í Kennaraháskólanum, enda þótt löggjöfin gerði ráð fyrir því að háskólarnir báðir viðurkenndu námseiningar hvor annars. Með frv. þessu, ef að lögum verður, er úr því bætt. Einnig eru meginþættir náms skilgreindir síðar en fyrr og valgreinakerfið gert sveigjanlegra, sbr. aths. um þessi atriði við 15. gr.

Þetta segir í aths. n.

Æfingaskólinn skal sinna þróunarverkefnum á uppeldissviði í samvinnu við menntmrn., einkum skólarannsóknadeild. Hér er um grundvallar­atriði að ræða og því eru gerð nokkuð ítarleg skil í aths. með frv., og vil ég leyfa mér að vísa til þess sem þar segir um þetta efni alveg sérstaklega, því að hér er um svo þýðingar­mikið atriði að ræða.

Á bls. 27 í aths. er fjallað um áætlaðar kostnaðarbreytingar vegna nýmæla í þessu frv. Auk þess sem þar greinir um líklegar kostnaðarbreytingar hefur fjárlaga- og hagsýslustofnunin fjallað um þessa hlið málsins og verður menntm­n. að sjálfsögðu send skýrsla hagsýslunnar um þetta. En þar er gert ráð fyrir að 22–26 millj. kr. kostnaðarauki fylgi samþykkt frv. og fullri fram­kvæmd laganna. En sá kostnaður fellur ekki á sama dag né heldur sjálfkrafa, því að um ýmsa þætti þarf sérstaka ákvörðun við gerð fjárl. svo að þeir geti komið til framkvæmda.

Ég vil sérstaklega benda hv. þdm. á, að í áliti mþn. eru raktir ljóslega, að mér sýnist, í stuttu máli þó, helstu drættirnir í sögu kennaramennt­unar á Íslandi og í ljósi þeirrar reynslu, sem fengin er, leitast við að benda á kosti og galla þess skipulags sem ríkt hefur, og svo á áhrif þeirra breytinga sem gerðar hafa verið á því á undanförnum árum og einkum á síðustu árum.

Þá er í niðurlagi álitsins frá mþn. reynt að meta það, hvaða sess íslensk kennaramenntun hefur skipað í skólakerfi íslendinga fyrr og nú.

Loks er þar gerð grein fyrir áætluðum námsmannafjölda í Kennaraháskólanum á næstu ár­um. N. kemst að þeirri niðurstöðu, að reynslan af löggjöfinni um Kennaraháskólann bendi til þess að næstu árin fari aðsókn að skólanum enn vaxandi og að einsætt sé, segir n., að fjöldi brautskráðra kennara frá skólanum muni full­nægja almennri kennaraþörf á grunnskólastigi þegar stundir líða fram.

Ég lengi þetta mál ekki miklu meira. Mér er það vel ljóst, að þetta frv. nær ekki af­greiðslu á því þingi sem nú hefur senn lokið störfum. Framlagning þess hefur þó að mínu áliti sína þýðingu. Nú verður frv. kynnt ýmsum aðilum sem líklegt er að láti sig þetta mál varða, og þegar Alþ. kemur saman í haust munu liggja fyrir umsagnir þeirra. En ég tel það mikilsvert að þegar í haust verði af hálfu Alþ. tekið til óspilltra mála að vinna við þetta frv. og af­greiða það. Ég tel að ýmis nýmæli þess séu þannig vaxin að það sé nauðsynlegt að koma þeim til framkvæmda fyrr en síðar.

Ég vil við þetta tækifæri minna hv. þdm. á það, fyrst verið er að ræða hér málefni Kenn­araháskóla Íslands, að sá skóli býr nú og hefur búið frá upphafi við ákaflega þröngan kost að því er húsnæði varðar. Framkvæmdafjárveiting er á fjárl. yfirstandandi árs til byggingarfram­kvæmda þarna, og ég tel að það sé ekki síður nauðsynlegt heldar en að ljúka þessari endur­skoðun laganna og leiða það mál í höfn að fylgja nokkuð fast eftir byggingarframkvæmd­um þarna við Kennaraháskólann, svo að ekki hljótist meiri skaði en orðinn er af þrengslum þeim og ófullkominni aðstöðu sem Kennarahá­skóli Íslands hefur búið við frá upphafi.

Herra forseti. Ég legg svo til að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til hv. menntmn.