27.04.1977
Efri deild: 65. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 3773 í B-deild Alþingistíðinda. (2687)

222. mál, Kennaraháskóli Íslands

Helgi F. Seljan:

Herra forseti. Það gefast næg tækifæri síðar til að fjalla um þetta mál á næsta þingi, og auðvitað er það svo, að þegar frv. eins og þetta kemur fram þarf það vandlega skoðun og menn þurfa að gæta að ýmsum hlutum þar.

Ég hef allan fyrirvara á um stuðning við einstakar greinar í þessu frv.

Ég hafði reyndar við stofnun þessa skóla eða þegar lög voru samþ. um Kennaraháskólann þá skoðun, að þar væri um of stórt stökk að ræða, of mikla breytingu, og ég held að sumt af því sem við spáðum, sem þá vorum gegn þessu frv., hafi ræst. M. a. olli þessi snögga breyting því, að lítil aðsókn varð í skólann á tímabili. Nú virðist vera að rætast úr því aftur sem betur fer. Þetta hefur aftur valdið vissum vandræð­um með að fá hæfa kennara til starfa eða réttara sagt fulllærða kennara til starfa í skólunum. Og það er vissulega mikið vandamál, ekki síst þegar verið er að gera þá breytingu sem nú er verið að gera samkv. grunnskólalögunum og nauðsynlegt er að heppnist sem allra best. Ég var þá á þeirri skoðun, að lenging kennara­námsins væri út af fyrir sig sjálfsögð. Ég áleit þá að ætti að gera það í áföngum, lengja kenn­aranámið um eitt ár og færa þá það viðbótar­nám t. d. inn í háskólann.

Nú er verið að færa kennaranám sem allra mest á einn stað, í Kennaraháskólann, bæði fyrir kennara á grunnskólastigi og eins á framhaldsskólastiginu. Við það geri ég ekki aths. að svo stöddu, en vil þó leggja áherslu á það, að hér þarf að gæta líka að því sem á undan er gengið, undirbúningsnáminu að náminu í Kennaraháskólanum. Ég tel að nám í menntaskólun­um í dag, t. d. á síðasta ári í menntaskólum, sé í allt of litlu samræmi við námið sjálft í Kennaraháskólanum. Þar eru engin tengsl á milli. Ég segi þetta af reynslu. Ég á strák nú sem ætlar sér að fara í þennan skóla, og ég hef ekki orðið var við það í vetur, á þessu síðasta ári hans í menntaskóla, að hann væri að læra nokkuð það sem kæmi honum sérstaklega til góða við nám í Kennaraháskólanum. (Gripið fram í.) Þetta er í menntaskólanum. Sem sagt, þarna er algert tengslaleysi á milli, ef hann ætl­ar sér t. d. að verða venjulegur grunnskólakenn­ari. Ég álít sem sagt að það þurfi líka breytingu varðandi menntaskólanámið og varðandi aukið valsvið á síðasta ári þess, þannig að þeir, sem þá eru búnir að ákveða sig í hvaða nám þeir ætla, hafi möguleika á að undirbúa sig á því síðasta ári alla vega, helst jafnvel fyrr, undir það framtíðarnám sem þeir hyggjast stunda til þess að ná ákveðnu marki varðandi starf.

Þetta er auðvitað allt til athugunar og þarf ekki að fara frekar út í hér og nú. Það er mikil­vægt starf sem hér er um að ræða, þar sem kennarastarfið er, og þarf í það valda krafta, vægast sagt. Og þá kemur að því sem ég hef alltaf gert miklar aths. við, bæði við gamla Kennaraskólann og eins við þennan Kennara­háskóla. Mér þykir sem kennsluþátturinn, æf­ingakennslan, sé allt of lítill, og mér sýnist samkv. 15. gr. þessa frv. að enn sé um það að ræða að sjálfur kennsluþátturinn eða undirbún­ingurinn undir starfið í því efni sé of lítill, þó að hann hafi nokkuð verið aukinn. Ég held að nauðsyn starfsþjálfunar fyrir þetta fólk sé kannske það allra brýnasta sem það þarf á að halda. A. m. k. veit ég það, þegar ég útskrifað­ist úr Kennaraskólanum gamla, þá held ég að það hafi legið nærri að ég hafi enga hugmynd haft um hvernig ég ætti í raun og veru að haga mér í bekk þar sem t. d. svo vildi til, eins og vill verða í skólum, að allir nemendurnir væru ákveðnir í því að gera kennarann vitlausan. Ég man ekki til þess að við höfum nokkurn tíma fengið að standa andspænis slíku vandamáli í skólanum við æfingakennslu. Þar sat alltaf yfir okkur á þeim tíma kennari sem hafði auðvitað tök á öllu, og við kenndum af öllum lífs- og sálarkröftum, en þurftum ekkert fyrir neinu að hafa sem hét stjórn.

Nú hygg ég að þetta hafi breyst nokkuð, en þó alls ekki nægilega, og ég veit að það ágæta fólk, sem kemur út úr Kennaraháskólanum núna, hefur alls ekki næga starfsþjálfun þegar þar að kemur. Ég segi það t. d. alveg hiklaust hér, að ég ráðlegg mínum strák, svo að ég taki nú aftur persónulegt dæmi, hiklaust að fara eitt ár, þó að hann missi það úr skólagöngunni í kennslu eftir menntaskólanámið áður en hann fer í þennan Kennaraháskóla, alveg hiklaust, svo að hann viti að hverju hann gangi í þessu efni, því að hann gerir það ekki og hann kemst ekki að raun um það í Kennaraháskólanum, það er alveg ljóst.

Það er aðeins við þessa umr. ein spurning sérstaklega sem ég vildi leggja fyrir hæstv. ráðh., og það er varðandi inntöku nemenda og skóla­víst. Hann segir um inntökuskilyrðin að þau séu stúdentspróf, en þó geti skólaráð heimilað inngöngu á grundvelli annarra prófa, náms- og starfsreynslu, ef ráðið telur það tryggja jafn­gildan undirbúning. Hér er komið að mönnun­um sem hafa í raun bjargað okkar skólakerfi nú um langan tíma, mönnum sem hafa kennt í 5–10 ár í grunnskólunum okkar og gert það með miklum ágætum. Ég er hræddur um að treg verði innganga þeirra í þennan skóla, það þarf þá ábyggilega meiri velvilja en hingað til hefur verið, og ég treysti hæstv. menntmrh. alveg sér­staklega til þess að tryggja það, að ef þessir menn hafa á því vilja verði þeim auðveldað sem allra mest innganga í þennan skóla til þess að ná þar fullum réttindum. Ég tel að þarna þurfi að kveða fastar að orði og alveg sérstaklega víkja að þeim mönnum sem hafa réttindalausir bjargað í raun og veru fjölda skóla víðs vegar um land frá algerum vandræðum í þessum efn­um og hafa gert það með mikilli prýði, það þekki ég af eigin reynslu frá mínum skólaárum.

Það er óhætt að segja það, að það er verulega þakkarvert, eins og segir á bls. 10, 5. lið þar, að n. hefur lagt til að menntmrh. væri heimilað að lengja kennaranámið um allt að einu ári að fengnum till. skólaráðs, að hæstv. ráðh. hefur fellt þá grein niður, og ég vona að hún eigi ekki eftir að birtast aftur, það segi ég satt. Það stórt stökk var tekið þegar Kennaraháskólinn var stofnaður, að það var einu ári of langt gengið, og væri heldur mikið af því góða ef nú væri enn bætt við. Ég er ekki að mæla hér á móti aukinni menntun kennara. En undirbún­ingsmenntunin að Kennaraháskólanum þarf þá að vera í einhverju miðuð við þetta starf og Kennaraháskólinn svo sjálfur að búa nemendur sína, að því er ég tel, miklu betur en nú er gert undir starfið sjálft. Ég er alveg viss um að þetta fólk er langt yfir það nógu lært í hinum einstöku greinum til þess að kenna þær í grunn­skóla. Það er búið að læra það mikið, að það getur kennt þessar greinar upp í menntaskóla ábyggilega með góðum árangri. En hitt skiptir öllu máli, hvernig gengur bæði að hafa stjórn og lag og koma þessari þekkingu til skila til nemendanna. Það er nefnilega aðalhlutverk kennaranna að koma þessu til skila. Og hér er ekki um að kenna neinu öðru en því, að á starfs­þjálfunina sjálfa hefur ekki verið lögð næg áhersla, og þó þar kunni að hafa orðið bót á nú á síðustu árum, þá stórefa ég að þar hafi verið nóg að gert. Ég treysti hæstv. ráðh. til að sjá svo til að þeim námseiningum, sem hér er fjallað um varðandi æfingakennsluna, verði fjölgað, því að þarna er fellt inn í bæði æfinga­kennsla og annað verklegt nám. Ég skil þetta ekki almennilega: og annað verklegt nám. Ég tel æfingakennsluna ekki verklegt nám í þessu efni. Ég get ekki talið hana verklegt nám. Og ef það er fellt þarna inn í, þá geta þessar 12 einingar orðið að 6, ef ýmsar verklegar greinar koma þarna inn í. En kannske er þetta misskilningur hjá mér og þetta verklega nám, sem þarna er talað um, sé beint í tengslum við æfingakennsluna.

Ég vildi aðeins koma þessum aths. á fram­færi. Ég held sem sagt að það verði að fara að þessu með fullri gát og nú, þegar við ætlum að útvíkka þetta enn þá meira, þá þurfum við að tryggja a. m. k. að þetta nám skili sér, bæði fyrir fólkið, sem það stundar, og ekki síður fyrir nemendurna, sem eiga að meðtaka þekk­inguna frá þessum mönnum.