27.04.1977
Efri deild: 65. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 3779 í B-deild Alþingistíðinda. (2691)

198. mál, tímabundið vörugjald

Fjmrh. (Matthías Á. Mathiesen):

Herra forseti. Frv. það, sem hér er á dagskrá, fjallar um breyt. á l. nr. 119 frá 1976, um sérstakt tímabundið vörugjald. Með þeim lögum voru framlengd lög nr. 77 frá 23. des. 1975, um sérstakt vörugjald, en jafnframt voru gerðar nokkrar breyt. á 1. gr. laganna til samræmis við þá nýju tollskrá sem samþ. var hér fyrir áramótin sem lög nr. 120/1976. En eins og kunnugt er urðu verulegar breyt­ingar á undirskiptingu ýmissa vöruliða í fjöl­mörgum köflum tollskrárinnar við setningu þeirra laga.

Við nánari athugun á l. nr. 119/1976 hafa komið í ljós nokkrar misfellur og er með frv. þessu lagt til að þær verði leiðréttar. Hér er annars vegar um að ræða að úr upptalningu í 1. gr. laganna hafa fallið nokkur ný tollskrárnúmer yfir vörur, sem fram til þessa hafa borið vöru­gjald og samræmis vegna þykir ekki fært að fella niður vörugjald af, og svo hins vegar prentvillur sem nauðsynlegt er að lagfæra. Vörur þær, sem hér koma einkum við sögu, eru súkkulaði ýmiss konar í þremur nýjum tollskrárnúmerum, tengi­búnaður í einu undirnúmeri í 85. kafla tollskrár og plastvörur í nokkrum nýjum undirnúmerum í 39 kafla tollskrárinnar.

Í sambandi við þessar leiðréttingar vil ég taka það fram, að fjmrn. hefur þegar verið veitt heim­ild í vörugjaldslögum til þess að fella niður vörugjald af þeim vörum sem áður voru und­anþegnar vörugjaldi, en urðu vörugjaldsskyldar vegna breyttrar undirskiptingar í tollskránni nýju.

Auk framangreindra leiðréttinga er í frv. lagt til, að lög nr. 77/1976, um sérstakt tímabundið vörugjald, verði gefin út að nýju í heild með áorðnum breytingum.

Með tilvísun til þessa leyfi ég mér, herra for­seti, að leggja til að frv, verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn.