27.04.1977
Efri deild: 65. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 3781 í B-deild Alþingistíðinda. (2696)

18. mál, skylduskil til safna

Steinþór Gestsson:

Herra forseti. Þar sem ég á sæti í menntmn. þessarar hv. d. mun ég ekki þurfa að eyða hér löngum tíma við þessa umr. Það er aðeins eitt atriði í sambandi við þetta frv. sem ég vil vekja athygli á við umr. og mun leggja fyrir í n. þegar þar að kemur, og það er í sambandi við skil frá þeim útgefendum sem njóta styrks af almannafé til útgáfu rita. Gert er ráð fyrir að þeir afhendi Landsbókasafninu allt að 10 eintökum af hverju slíku riti. Síðan er í tillgr. gert ráð fyrir því, að Landsbóka­safnið dreifi þessum ritum nokkuð frá sér, og veit ég ekki upp á víst með hvað fyrir augum það er, nema það sé að öruggara verði um varð­veislu slíkra rita því víðar sem þau eru. Er gert ráð fyrir því í frv., að Landsbókasafninu beri að taka frá þrjú eintök af hverju þeirra rita og ætla þau til varðveislu Amtsbókasafn­inu í Stykkishólmi, Bókasafni Ísafjarðar og Amtsbókasafninu á Seyðisfirði. Um það var flutt till. í Nd. af Guðlaugi Gíslasyni alþm., að við þetta yrði bætt einu eintaki sem geymt yrði í Bókasafni Vestmannaeyja, og þykir ekki óeðli­legt að eitt slíkt eintak sé geymt á góðum stað á Suðurlandi. En svo stendur á með bókasafnið í Vestmannaeyjum, að það er eitt af eldri bóka­söfnum á landinu, stofnað 1860, og er nú flutt eða að flytja í vandað steinsteypt húsnæði. Það var ekki af einhverjum sökum tekið undir þessa till. í Nd., en ég mun gera athugun á því, hvort ekki verður hægt að taka undir svo eðlilega breytingu sem ég hef hér ýjað að.