27.04.1977
Efri deild: 65. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 3783 í B-deild Alþingistíðinda. (2709)

194. mál, atvinnuleysistryggingar

Helgi F. Seljan:

Herra forseti. Það er óþarft að hafa mörg orð um þetta frv. nú. Þetta mál fer til þeirrar n. sem ég á sæti í, og þar get ég um það fjallað.

Eins og hv. þdm. er kunnugt, þá voru í Nd. á ferðinni tvö frv. varðandi atvinnuleysistrygging­ar, og um þau frv. urðu þar miklar umr. sem ég skal ekki fara mjög náið út í hér. Þar var um tvö mál samtengd að ræða, og málin voru auðvitað samtengd fyrst og fremst af þeirri ástæðu, að enn þá er þetta mál, þ. e. a. s. fæðing­arorlofið, á röngum stað í kerfinu, eins og bent var á hér á sínum tíma þegar þetta var sett í lög. Þá voru menn, held ég, almennt hér á þeirri skoðun, að fæðingarorlofið ætti heima innan ramma almannatryggingalaga, og þetta var í raun og veru viðurkennt með ákvæði til bráða­birgða, svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta, sem þá var samþ.:

„Fyrir 1. janúar 1976 skal ríkisstj. láta kanna á hvern máta megi veita öllum konum í land­inu sambærilegt fæðingarorlof og tryggja tekju­stofn í því skyni.“

Svo mörg voru þau orð í ákvæðinu til bráðabirgða, og þetta ákvæði olli því m. a. hvaða af­stöðu ég tók í þessu máli í heilbr.- og trn. þá. Ég treysti sem sagt á það, að þessi könnun yrði gerð og reynt á það til fullnustu hvernig mætti veita öllum konum í landinu sambærilegt fæðingar­orlof og um leið tryggja tekjustofn í því skyni. Ég sagði þá við þá umr. að ég hefði skrifað undir þetta nál. af tvennum ástæðum: Í fyrsta lagi með tilliti til þess, að þar virtist um einu leiðina að ræða sem bráðabirgðalausn í þessu máli. Þetta væri mikilvægt mál og erfitt að setja fótinn fyrir það, því það væri þess eðlis, þó að ég áliti að hér væri ranglega að staðið, að færa þetta inn í Atvinnuleysistryggingasjóð. Og ég sagði einnig þá að sá frestur, sem á gildistökunni fékkst þá, hlyti að verða notaður til þess að tryggja Atvinnuleysistryggingasjóði nýjar tekj­ur eða létta af honum byrðum til þess að hann gæti mætt þessu viðbótarálagi, og svo, eins og er tekið fram í þessu ákvæði til bráðabirgða, að að því verði unnið í fullri alvöru að allar konur njóti jafnréttis til fæðingarorlofs. Þetta gerði ég alveg sérstaklega í tilefni af dagskrártill., sem kom fram frá hv. þm. Axel Jónssyni, Stefáni Jónssyni, Jóni Árm. Héðinssyni og Halldóri Ás­grímssyni um það, að ríkisstj. yrði falið að semja frv. til l. um málið, sem yrði lagt fram í upphafi næsta reglulegs þings, og deildin tæki því fyrir næsta mál á dagskrá. Og ég greiddi atkv. gegn þessari till. af þeim ástæðum sem ég greindi.

Nú er það alkunna, að við þetta ákvæði til bráðabirgða hefur ekki verið staðið, og eins og frv. kemur nú frá Nd., þá er komið nýtt ákvæði til bráðabirgða, ekki síður hátíðlegt en hið fyrra, þar sem stendur, með leyfi hæstv. forseta:

„Fyrir 1. janúar 1978 skal ríkisstj. láta kanna á hvern hátt megi veita öllum konum í landinu sambærilegt fæðingarorlof og tryggja tekjustofn í því skyni. Niðurstöður þessarar könnunar skal leggja fyrir Alþingi.“

Nú skal ég ekkert um það segja, hvort það verður eins vel og rækilega við þetta ákvæði staðið og hið fyrra. En þó læðist að manni sá grunur, að þetta sé gert til að friða samvisku ákveðinna aðila sem þarna hafa ekki staðið nægilega vel að málum.

Þegar þetta mál kom til umr. fyrst í vetur, þá var vitanlega ljóst að þetta var tvíþætt mál. Hér var ekki einungis um það að ræða að þessi skerðingarákvæði, sem lögin fela nú í sér, kæmu við konur sem tækju fæðingarorlof, heldur var hér einnig um að ræða skerðingarákvæði þar sem þær konur, sem voru svo óheppnar að eiga eiginmenn sem höfðu ákveðnar tekjur, misstu réttinn til atvinnuleysisbóta alveg fyrirvaralaust. Hér var um að ræða að mínu viti mjög lág tekju­mörk og mikið ranglæti um leið, vegna þess að ef eiginmaðurinn —- karlmaðurinn — varð atvinnu­laus, þá skipti vitanlega ekki nokkru máli hve miklar tekjur hann hafði haft áður, hvort hann hafði haft í árslaun t. d. 3 millj. kr. árið áður, hann fékk vitanlega þessar atvinnuleysisbætur sínar umyrðalaust. (Gripið fram í). Nei, hér er nefnilega um tvö mál að ræða, og það er nauðsyn­legt að þm. geri sér grein fyrir því, að hér er um tvö aðskilin mál að ræða, og það er von að menn rugli þeim saman þegar verið er að rugla fæðingarorlofinu inn í Atvinnuleysistrygginga­sjóð. Það er þá vissulega von að menn ruglist í því efni og reikni með því að allt sé þetta í raun og veru orðið eitt fæðingarorlofsmál. Nei, þegar þessar konur verða atvinnulausar, þá þarf fyrst að taka tillit til þess, hvaða tekjur maki þeirra hefur haft, og ef þær tekjur fara yfir ákveðið mark, þá missa þær þennan rétt.

Til mín var leitað bæði í vetur og fyrravetur um þetta atriði, og vitanlega strandaði það á þessu lagaákvæði. Konur, sem þarna áttu í hlut, voru ekki með neina hátekjumenn sem maka, síður en svo, konur sem voru atvinnulausar ann­ars vegar á Seyðisfirði og hins vegar á suður­fjörðum. Makar þeirra höfðu ekki haft nema rétt um 1.5 millj. kr. í tekjur, en einhvers staðar á þeim mörkum eru þær tekjur í dag sem leyfi­legar eru sem hámark. Ég verð þá leiðréttur á eftir af þeim hv. þm. sem veit auðvitað miklu betur en ég um þessi mál.

Það var því eðlilegt, þegar var farið að breyta þessu ákvæði varðandi fæðingarorlofið sem hér var skotið inn í með miklum flýti á sínum tíma, að sú spurning kæmi upp, hvort skerðingarákvæð­ið ætti ekki að falla niður með öllu, og um það var gerð till. í Nd., þannig að þessi tekjumörk yrðu felld niður, einnig og að sjálfsögðu kannske enn frekar vegna atvinnuleysis þessara kvenna, því þar er auðvitað um að ræða megintilgang sjóðsins, en ekki þann að sjá konum fyrir fæð­ingarorlofi. Og ég undraðist það mjög, að bæði í blöðum og öðrum fjölmiðlum og ég held jafn­vel í Nd., líka hafa komið fram miklar ásakanir á hendur stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs fyr­ir að fara í þessu efni eftir lögunum. Menn hafa ekki áttað sig á því, að þeir, sem flýttu þessu svo mjög í gegn á sínum tíma sem raun bar vitni um fæðingarorlofið, höfðu meint svolítið meira en þeir sögðu. En út í það skal ég ekki fara nánar nú. Ég mun gera það við 2. umr. þessa máls.

Ég held að það sé alveg tvímælalaust, að þetta skerðingarákvæði eigi að falla niður með öllu, og ég er sannfærður um það, eins ágætir menn og eiga sæti í stjórn Atvinnuleysistrygginga­sjóðs, að þeir hljóta allir að vera því sammála að skerðingarákvæðið sé niður fellt vegna at­vinnuleysisbóta til kvenna, að þær fari ekki eftir tekjum maka þeirra. Það er hlálegt í alla staði.

Hitt er svo annað mál í sambandi við fæðingar­orlofið sem hér er nú til umr., að ég er auðvitað nákvæmlega sömu skoðunar og áður um það, að hér eigi ekki að vera um atvinnuleysisbætur að ræða, þó ég viti að þessar konur missi eðlilega atvinnu sína þennan tíma. Þetta er hreint tryggingamál og á auðvitað að vera það, og við skul­um vona að þetta ákvæði til bráðabirgða, þetta endurnýjaða ákvæði, verði nú notað og verði séð til þess að þetta komist á réttan stað í kerf­inu, í almannatryggingakerfið.

Ég vil aðeins taka það fram nú við 1. umr., að ég mun að sjálfsögðu endurflytja brtt. sem var flutt við þetta frv. í Nd. um að efnismáls­liður 1. gr. frv. orðist þannig, að g-liður 1. máls­gr. í 16. gr. falli úr gildi 1. júní 1977, þannig að það sé tryggt að skerðingarákvæðin falli niður með öllu, ekki bara gagnvart fæðingar­orlofinu, heldur einnig gagnvart atvinnuleysis­bótunum, eins og sjálfsagðast og eðlilegast er.

Ég skal ekki fara nánar út í þetta hér og nú, en tek það aðeins fram, að út af öllu þessu hefur komið fram furðulegur misskilningur. Alveg sérstaklega ber að harma það, hve hér hefur verið rangtúlkað það sem stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs hefur í þessu efni gert, þ, e. a. s. að fara hreinlega að réttum lögum, og eins ber vitanlega að harma að ríkisstj. skuli ekki hafa staðið við þetta ákvæði. En það er eðlilegt að hún eigi erfitt með að standa við svona bráða­birgðaákvæði þegar ekki gengur betur að standa við hin stærri mál.