27.04.1977
Efri deild: 66. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 3794 í B-deild Alþingistíðinda. (2731)

233. mál, ráðstafanir til að draga úr tóbaksreykingum

Helgi F. Seljan:

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðh. fyrir framlagningu þessa frv. Ég tel einmitt að með þessu frv. sé verið að taka undir við það unga fólk sem hefur verið að rísa upp nú undanfarið, og hreyfing þess er án efa mjög gagnleg, vegna þess að tóbaksneyslan hefur verið að færast ískyggilega niður í ald­urflokkana, og ég tel að á Alþ. hvíli viss skylda að taka undir við þetta fólk. Spurning er auð­vitað með hvaða hætti á að gera það. Ég tel að þarna sé um eina leið að ræða þar sem þetta fólk fær verulegar undirtektir. Hitt er svo annað mál, hvaða áhrif hinar ýmsu fyrirbyggjandi að­gerðir hafa, en skylt er að reyna þær í hvívetna og hafa þar um fyrst og fremst hlutlausa fræðslu og vissan áróður sem byggist á staðreyndum áþekkum þeim sem hv. síðasti ræðumaður var að lýsa hér áðan.

Ég tel ekki óeðlilegt að leitað sé til Norðurlandaþjóða varðandi þetta. Norðurlandaþjóðirnar búa nefnilega við sams konar vandamál og við í þessum efnum, og þá er eðlilegt að við not­færum okkur reynslu þeirra og það sem þær hafa gert til þess að leysa á einhvern hátt þetta vandamál. Og ég tel okkur skylt að gera það sem unnt er í þessum málum.

Hv. þm. Jón G. Sólnes talaði um yfirþyrm­andi flóð af till. um boð og bönn. Að vísu hefur hv. þm. reynt að bæta úr því með tillöguflutningi í gagnstæða átt sem því miður kemur víst ekki hér frekar til umr. en hann vék hér að áðan. En ástæðan til þess er vitanlega sú, að hér er um að ræða yfirþyrmandi neyslu á þessum vör­um, sem fer sífellt vaxandi og ég hef heyrt rennan hv. þm. halda fram hér úr ræðustól að sé eitthvert mesta vandamál okkar. Það eru þessi yfirþyrmandi sannindi um þessa ofneyslu sem valda því vitanlega að viðbrögðin hjá okkur hljóta að verða þau að reyna einhvern veginn að koma hér í veg fyrir. Hvort við erum að fara réttu leiðirnar, það er svo annað mál. En ég held að Alþ. beri einmitt skylda til þess að fjalla um þessi mál, þan eru svo alvarleg. Auð­vitað er spurningin bara: með hvaða hætti og hvaða gagnsemi þetta hefur. En það held ég að fari ekkert á milli mála, að það er hvatning — hrein hvatning — fyrir það unga fólk sem nú er að hefja merki upp í skólunum víða gegn reykingum, og vonandi yfirfærist það á öll eiturefni af þessu og svipuðu tagi. Ég er alveg viss um það, að þetta unga fólk getur ekki fengið betri hvatningu en þá, að Alþ., sem það von­andi ber einhverja virðingu fyrir, á borð við hv. þm. Jón G. Sólnes, a. m. k. í framtíðinni, fjalli um þessi mál og leiti leiða til að koma eins og mögulegt er í veg fyrir ofneyslu þess­ara eiturefna. Það sýnist mér vera megintil­gangurinn í þessu frv., og þann tilgang ber að meta.

Um það getum við deilt endalaust, hvaða áhrif það hefur sem þetta unga fólk er að gera. Vafa­laust kemur einhver andhverfa þessa upp hjá öðru ungu fólki. Og sama er að segja um þátt fjölmiðla í þessu. Eflaust kemur upp andhverfa þess hjá einhverjum, að vera þarna á móti, á svipaðan hátt og mér finnst eiginlega málflutn­ingur þessa hv. þm. vera eins konar andsvar við þessu öllu saman, þessum yfirþyrmandi umr. um þessi mál. Þá rís hann upp í nafni frelsis­ins og annarra viðlíka hugsjóna, að því er hann segir, rís upp sem andhverfa allra þessara boða og banna sem við erum, að því er hann sjálfur segir, talsmenn fyrir.

Ég fagna sem sagt þessu frv. sem beinu fram­lagi okkar til þeirrar umr., sem um þessi mál hefur orðið, og lít á það sem slíkt. En um áhrifin af því fer auðvitað eftir mörgu, m. a. eftir okkur sjálfum.