27.04.1977
Neðri deild: 74. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 3821 í B-deild Alþingistíðinda. (2746)

16. mál, kaup og kjör sjómanna

Sjútvh. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Það eru aðeins fá orð.

Út af því, sem hv. síðasti ræðumaður sagði, kom mér ekkert á óvart yfirlýsing hans og hans flokks, að hann væri á móti frv. Það hefur komið fram áður og það er hans skoðun og hans flokks. En í sambandi við málsmeðferðina, þá voru brbl. lögð fram, eins og fram hefur komið, í þing­byrjun fyrir Ed. og tekin til umr. mjög snemma á þinginu og hafa verið í sjútvn. síðan. Ég fyrir mitt leyti hefði talið að það hefði auðvitað átt að afgreiða þetta mál og fleiri mál mun fyrr en gert er. Það hafa verið hér til umr. 15., 16., 17. og 18. mál í deildinni nú á þessum síðustu dög­um, í fyrri deild, svo að það er ekki einsdæmi. En varðandi fylgi við frv. kom það í ljós í Ed., að frv. er samþ. með 11:4 atkv., fjarver­andi voru 5 þm.: 3 stjórnarliðar og 2 stjórnar­andstæðingar. Einn stjórnarliðanna, sem var fjarverandi, hafði skrifað undir nál. og mælt með samþykkt frv. Annar stjórnarliði, sem var fjarverandi, er ráðh. í ríkisstj., og ég vil taka það fram að þessi brbl. eru auðvitað gefin út með fullu samþykki ríkisstj. í heild. Ég hygg að það detti engum ráðh. í hug að gefa út brbl. án þess að bera þau undir ríkisstj., svo að ríkisstj. öll stendur auðvitað að þessum brbl., alveg eins og ég stend að öðrum aðgerðum sem aðrir ráðh. bera fram í ríkisstj. Jafnframt var þetta mál rætt mjög ítarlega í báðum stjórnarflokkunum, áður en þingi var slitið, og þar var skýrt frá því, hvernig málsmeðferð væri, og báðir stjórnarflokk­arnir gáfu ráðh. sínum heimild til þess að ljúka þessu máli með þessum hætti ef þeir teldu þess þörf. Ég taldi þegar Alþ. var slitið í fyrravor, að það væri rétt að halda áfram sáttaumleitunum. Ég ræddi þá við samninganefndarmenn og sátta­semjara um það mál. Þeir voru á því að halda áfram samningaumr., þó að það væri ákaflega erf­itt, og þessi brbl. eru ekki gefin út fyrr en sátta­tillagan 28. júlí hafði verið felld. Það er auðvitað hreinn misskilningur hjá hv. 8. landsk. þm. eins og hann túlkaði atkvgr. Vitaskuld er það styrkur í hverju félagi, og þá ekkert síður verkalýðsfé­lögum en öðrum félögum, að hin almenna þátttaka sé alltaf sem mest. Í hlutafélögum, í öllum fé­lögum sem ég þekki til, eru ákvæði í lögum um hversu margir þurfi að vera mættir til þess að taka lögmæta ákvörðun. Það er algerlega út í hött að segja þetta sem hv. þm. sagði. Það eru ákvæði í lögum lýðræðisríkja þar sem kjósend­um er gert að skyldu að greiða atkv. í almennum þingkosningum nema þeir hafi lögleg forföll, veikindi eða annað slíkt. Það er ekki talin skerð­ing á lýðræðinu. Í öllum kosningum, sem fram fara, og í atkvgr. getur sá sem er óánægður skilað auðu og á þann hátt látið í ljós óánægju sína með bæði frambjóðendur og annað slíkt. En ég ætla nú ekki að fara að karpa frekar um þetta.

Sjómannasamband Íslands sendi ríkisstj. ný­lega bréf, snemma í þessum mánuði, eða kjara­málaráðstefna þess sem haldin var 3. apríl. Hún skorar á ríkisstj. að hún leggi brbl. frá 6. sept. 1976 fyrir Alþ. nú þegar svo að sjómenn fái séð hvort vilji meiri hl. Alþ. hafi verið fyrir hendi við setningu þessara laga. Að vísu gætir þarna misskilnings. Það virðist hafa farið fram hjá Sjómannasambandinu að brbl. voru lögð fyrir Alþ. í haust, nema hér sé um einhvern annan mis­skilning að ræða. En það, sem kemur út úr þess­ari samþykkt er að sambandið óskar eftir því að lögin fái þinglega meðferð. Og það er það sem ég auðvitað óska eftir líka að þessi brbl. fái.

Ég vil líka benda mönnum á það, að þessir samningar allir fara í gegnum tvær atkvgr. og meira að segja þrjár í einstaka tilfellum. Þá hafa leiðtogar sjómanna skrifað undir sáttatillöguna. Þegar menn hafa skrifað undir sáttatillögu, og það veit ég að verkalýðsleiðtogar þeir, sem sitja á Alþ., geta dæmt um, þá hafa þeir tekið á sig þá skuldbindingu að vinna að því að kynna þá sáttatillögu og túlka það mál, sem þeir hafa staðfest með undirskrift sinni, og leggja á það áherslu að hafa áhrif á félagsmenn sína að samþykkja það. Þetta veit ég að þm. eins og Guðmundur H. Garðarsson, Eðvarð Sigurðsson og aðrir þeir þm., sem eru starfandi í verkalýðshreyfingunni, þekkja mætavel. Og þannig hefur verið starfað í þessum efnum. Ég verð þá að segja, að ef þessi lög eru kúgunarlög, þá eru það ljótu leið­togarnir sem hafa skrifað undir samninga um að mæla með tillögum sem fólu í sér minni réttindi en þetta fyrir sína félagsmenn, eins og fyrsta sáttatillagan gerði. Það er stórkostleg árás á alla þessa menn þegar menn segja þetta.

En það kom ekkert fram í ræðum tveggja fyrstu ræðumanna, hvað hér gerðist í raun og veru. Það er verið líka að bæta kjör og leiðrétta það sem menn höfðu áður samið um. Það er ekki minnst á það, og ég gerði það viljandi að minnast ekki á það í minni framsögu, að með lögfestingu sáttatill. er t. d. hækkuð líftrygging sjómanna úr 1 millj. í 2 millj. kr. og örorku­trygging úr 3 millj. í 6 millj. kr. Þeir, sem voru búnir að samþykkja samninga, hefðu auðvitað haft þessar tryggingar óbreyttar, sumir til 1. jan., aðrir til 15. maí þessa árs, en þeir, sem enga samninga vildu eða vildu ekki brjóta upp neina samninga, höfðu ekki fengið þetta. En á þetta er ekki minnst. Svo koma menn og segja að það sé verið að ráðast á samningsréttinn. Á hvern er verið að ráðast. Annar aðilinn samþykkir sáttatill. frá 28. júlí, undirmennirnir fella hana með 140:122 atkv., þar er 18 atkv. munur. Annar aðilinn samþykkir, en hinn fellir með 18 atkv. mun. Það sýnir að sáttatill., sem talin er ger­ræði, á nú þennan hljómgrunn hjá launþegunum og hjá yfirmönnum með 198:135. En það var eldri sáttatill. sem sú atkvgr. fór fram um. Þetta sýnir að það er ekki verið að tala mikið málefna­lega um þetta mál. Og ég t. d. vísa til þess, að þegar málið var til 1. umr. í Ed., þá ræddi það mál einn af þm. Alþb., 11. landsk. þm., sem er harður andstæðingur þessara brbl., en ræða hans einkenndist af málefnalegum hugsunum og hann fór alveg inn á þetta mál eins og það liggur fyrir og er hann ekki minni andstæðingur þessara brbl. heldur en þeir tveir þm., sem töluðu fyrstir hér áðan. En þar talaði maður af þekkingu og sanngirni, þó að við séum ekki sammála í afstöðu okkar til málsins. Ég held að glamrandi hafi ekkert að segja og geri ekkert gott.

Varðandi áhyggjur hv. 5. þm. Vestf. af fylgi mínu meðal sjómanna á Vestfjörðum, þá ætla ég að biðja hann í fullri vinsemd að sleppa alveg að hafa áhyggjur af fylgi mínu á Vestfjörðum, því að ég hygg, að hann komi til með að hafa alveg nógar áhyggjur af eigin framboði og atkv. í næstu kosningum, hvenær sem þær verða, svo að ég bið hann allra mildilegast að vera ekki að taka á sig mínar syndir og byrðar, því að hann hefur nógu stóran poka að bera sjálfur.

Ég vil segja það, að ég tel það hvorki vest­firskum sjómönnum né öðrum sjómönnum til neins sóma að ætla aðeins að fleyta rjómann af því sem gert er með stórfelldri kerfisbreytingu sem leiðir af sér 33% fiskverðshækkun, þar af vegna kerfisbreytingarinnar einnar 24% fiskverðshækkun. Er réttlæti í því að þeir, sem sam­þykkja samninga og samþykkja þá kerfisbreytingu, taki á sig þessar fórnir, en hinir allir eigi að sleppa? Ég segi, að frá mínum bæjardyrum séð er það ekki réttlæti. En þeir fengu líka á móti réttindi með þessum brbl., og það er alrangt hjá hv. 5. þm. Vestf. að segja að brbl. hafi skapað eitthvert verkfallsástand. Þessi maður veit mætavel að það er búið að vera núna á annað ár gífurleg óánægja hjá línusjómönnum um allt land. En línuveiðar eru langmest áberandi frá Vestfjörðum. Og það var fyrir sjóðakerfisbreytinguna sem þessi óánægja átti sér stað. En það er ekki vegna þeirrar breytingar sem átti sér stað 15. febr. á árinu 1976. Það var tilkynnt að allur flotinn lægi í höfn. Þrátt fyrir það að það sé í þessu frv., þá berja ákveðnir menn hausnum við steininn svo að það glymur í, — það er tómahljóð þegar þeir berja hausnum við steininn, — þrátt fyrir það að þau ákvæði eru í frv., að hverjum og einum er frjálst að semja þrátt fyrir ákvæði þessara brbl., þeir mega aðeins ekki beita verkfalli. Ég lýsti því yfir, þegar útgerðar­maður hringdi í mig, sem var fyrstur til þess að semja við sjómenn á sínum stað, og spurði mig að því, hvort hér væri um brot á brbl. að ræða, — ég sagði: Síður en svo. Ég hefði auðvitað heldur kosið að heildarsamtök sjómanna og út­vegsmanna hefðu náð þessu samkomulagi, en ekki einstaklingar eða útgerðarmenn á einstök­um stöðum. En það er mér ekki á móti skapi ef þú semur eða getur náð samningum á þessum grundvelli. Og ég hef marglýst því yfir, að ég tel alls ekki vera neitt of há hlutaskipti sem um hefur verið samið í þessum efnum, ég skildi línusjómennina þar mætavel. — Á öðrum stað var líka talað við mig út af því, hvort þessi sami skilningur væri ekki, og ég hvatti þar eindregið til þess að semja á sama grundvelli og gert var á fyrri staðnum, sem er Súgandafjörður, og það var einnig gert.

Við vitum það, að eftir að þetta samkomulag var gert, eins og í Súgandafirði, voru þessir bát­ar, sem eru sagðir í verkföllum, ekki tilbúnir að fara á línuveiðar. Það liðu þó nokkrir dagar, eftir að samkomulagið var gert, þar til þeir voru til­búnir, enda veit þessi hv. þm. að línuútgerð al­mennt hefur ekki byrjað fyrr en um mánaðamót­in sept.-okt. lengst af, en í einstaka tilfellum hefur hún núna á síðustu árum byrjað fyrr, þó að línuútgerð hafi í heild dregist mjög saman 3 þessum landsfjórðungi eins og annars staðar.

Þetta vildi ég að kæmi fram. En ég bið þm. alveg sérstaklega að vera ekki að hafa áhyggjur af mér. Ég skal reyna að axla mína byrði sjálfur. Og þó ég viti að þetta sé góður drengur inn við beinið, þó að það sé stundum svartur blettur á tungunni á honum, þá vil ég ekki nota mér góð­mennsku hans að taka á sig áhyggjur mín vegna. En ég endurtek út af því, sem hann byrjaði mál sitt á, að hann kom að máli við mig hvað eftir annað, að það þyrfti eitthvað að gera til lausn­ar þessu máli. Hann var ekki einn um það. En hann er það heppinn að hann talaði bara við mig einan. En það voru aftur ýmsir aðrir, sem komu í fylgd með útgerðarmönnum til mín, sem báðu um brbl. eða lög miklu fyrr, meðan Alþ. sat, til lausnar þessu máli, sem ég gæti auðvitað vitnað til, en ég nenni ekki að standa í því. En það sýnir að þegar einhverjar aðgerðir eru gerðar, þá vilja menn gleyma því hvað þeir hafa talið affarasælast og best að gera, kannske nokkrum vikum eða mánuðum áður.