03.11.1976
Efri deild: 8. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 441 í B-deild Alþingistíðinda. (275)

16. mál, kaup og kjör sjómanna

Geir Gunnarsson:

Herra forseti. Ég er andvígur því frv. sem hér er til umr., vegna þess að ég er almennt andvígur því að Alþ. ákvarði kaup og kjör félagsmanna í stéttarfélögum. Stundum hafa slíkar ákvarðanir Alþ. verið afsakaðar með því að í húfi væru umtalsverð framleiðsluverðmæti, framleiðslustarfsemi hafi verið felld niður. Því var ekki til að dreifa þegar þessi brbl. voru sett. Ekki einn einasti bátur lá við bryggju vegna ágreinings um kjör sjómanna. Ágreiningurinn var fyrir hendi, en vinnustöðvun ekki og virtist ekki á næsta leiti. Framleiðslustöðvun, sem þeir, sem tíðum vilja afgreiða kjaramál með lagasetningu, nota sér til réttlætingar, var því ekki grundvöllur að setningu þessara brbl. Miklu fremur má halda því fram, að setning laganna gæti valdið rekstrarstöðvun framleiðslutækjanna. Þótt í brbl. felist bann við vinnustöðvunum í því skyni að knýja fram breytingar á þeim samningum sem þar eru lögfestir, þá getur engin lagasetning knúið sjómenn til að róa ef lagasetning og valdboð um kjör þeirra hvetur þá til að fara úr skiprúmi í mótmælaskyni. Engin lagasetning getur hindrað sjómenn í því að reyna með þeim hætti til þrautar að bæta kjör sín.

Sjómenn hafa líklega meira en nokkur önnur starfsstétt orðið fyrir lagasetningum og valdboði um kaup og kjör. E.t.v. er ástæðulaust að gera upp á milli slíkra aðgerða gagnvart þeim, og það breytir ekki afstöðu minni gagnvart þessum lögum þótt vissulega hafi sjómenn orðið fyrir harkalegri og afdrifaríkari árásum á kjör sín með lagasetningum af hálfu sjútvrh. Alþfl. á viðreisnarárunum, þegar verið var með lagaboði að ráðstafa verulegum hluta aflaverðmætis af óskiptum afla í hendur útgerðarinnar.

Óvenjulegt og flókið ástand hefur ríkt í kjaramálum sjómanna á þessu ári. Í framhaldi af mjög öflugum viðbrögðum sjómanna til þess að fá sjóðakerfi útgerðarinnar að sem mestu leyti fellt niður náði n. fulltrúa sjómanna, útgerðarmanna og ríkisvaldsins samkomulagi um hvað skyldi á því stigi málsins standa eftir af greiðslum af óskiptum afla í sjóðina, en hitt var óuppgert og hlaut að ákvarðast í kjarasamningum, hve mikið af fiskverðshækkun, sem leiddi af skerðingu sjóðakerfisins, kæmi í hlut sjómanna.

Til voru menn, og létu nokkuð til sín heyra, sem héldu því fram að þær lögbundnu greiðslur, sem áður fóru til sjóðanna af óskiptum afla, en voru nú lagðar niður, lægju á lausu á borði samningamanna í þeirri kjaradeilu sem sjómenn stóðu í við útgerðarmenn, til að tryggja sjómönnum alla hækkunina þyrfti ekki annað en röggsama og óhvikula samninganefndarmenn af hálfu sjómanna, samningamenn sem teldu ekki eftir sér að rétta út höndina eftir þessum fjármunum öllum með þeim einfalda hætti að halda óhreyttri skiptaprósentu. Ég held að þessar raddir hafi ekki auðveldað samninganefndarmönnum sjómanna störf þeirra í þágu sjómanna.

Niðurstaða kjarabaráttu og kjarasamninga byggist vissulega ekki á neinu sanngirnismati, ekki í þessu tilfelli frekar en endranær. Hér var ekki um það að tefla hvað teldist sanngjarnt og réttlátt að sjómenn fengju í sinn hlut fyrir erfið störf, langan vinnudag, slæman aðbúnað og fjarvistir frá heimilum. Niðurstaðan í samningaþófinu hlaut einfaldlega að byggjast á því afli sem samningamenn sjómanna styddust við frá félagsmönnum í sjómannasamtökunum. Kjarasamningar eru aflraun, og sannleikurinn er sá, að uppbygging sjómannasamtakanna, félagsstarfsemi þeirra og virkni félagsmanna var ekki með þeim hætti að það afl væri fyrir hendi sem dygði til þess að kjörum sjómanna yrði umbylt til hins betra í þessum einu samningum, þó svo að allir sjóðirnir sem greitt var í af aflaverðmæti, hefðu verið lagðir niður.

Það verður hver að meta fyrir sig hver árangur fyrir sjómenn fólst í þeim samningsdrögum sem samninganefndir undirrituðu með fyrirvara um samþykki félagsfunda, sem sumir samþykktu og aðrir felldu samningana. En mín skoðun er sú eftir að hafa setið alla samningafundina, að störf samninganefndarmanna sjómanna hafi verið með þeim hætti að þeir hafi náð árangri sem svarar fyllilega til þess afls sem þeir höfðu þá við að styðjast frá félögum sínum, og eftir því ber að dæma slík störf.

Það er allt annað mál hvað hver og einn telur að réttmætt væri að greiða sjómönnum fyrir störf þeirra, og hversu mjög sem ýmsa munar í að setjast að hæstv. sjútvrh., Matthíasi Bjarnasyni, þá held ég að það sé varhugavert óraunsæi að telja hann orsök þess að kjör sjómanna eru ekki í samræmi við það sem sanngjarnt væri og réttlátt. Hæstv. ráðh. er ekki höfuðvandamál sjómanna, það er sjómönnum enn nálægara.

Þegar hæstv. ráðh. lagði fram frv., sem samþ. voru á Alþ., um breytingar á sjóðakerfi sjávarútvegsins í samræmi við samkomulag sjómanna, útgerðarmanna og fulltrúa ríkisvaldsins, hafði hann að mínu mati réttmæta ástæðu til að gera ráð fyrir að nýir kjarasamningar yrðu gerðir í kjölfar samkomulagsins og í samhengi við breytingarnar á sjóðakerfinu og ekki aðeins hjá sumum sjómannafélögum, heldur öllum, hvort sem samningar þeirra voru lausir eða ekki.

Satt að segja held ég að enginn þeirra hv. alþm., sem ræddu frv. um sjóðabreytingarnar, hafi verið svo bjartsýnn fyrir hönd sjómanna að gera því skóna að öll hækkun fiskverðs vegna kerfisbreytinganna kæmi sjálfkrafa og óskert í þeirra hlut og þá jafnvel með þeim hætti að þeir kjarasamningar, sem þá voru bundnir, giltu einfaldlega með óbreyttri skiptaprósentu til loka samningstímans, samtímis því að sjómenn í öðrum sjóðafélögum tryggðu framgang sjóðakerfisbreytingarinnar m.a. með breyttum kjarasamningum.

Ég tel því að ekki hafi verið ástæðulaust með tilliti til eðlis málsins og þess samkomulags, sem fulltrúar sjómanna og útgerðarmanna gerðu hinn 8. febr. s.l. og birt er sem viðbótarskjal með því frv. sem hér er til umr., að tengd væri saman gildistaka laga um afnám sjóðakerfisins í þeim mæli sem um hafði verið samið og gildistaka nýrra kjarasamninga allra sjómannafélaga og útgerðarmanna. Í þeim kjarasamningum hefðu sjómenn að sjálfsögðu beitt öllum samtakamætti sínum, verkföllum ef með þyrfti að þeirra mati, til að tryggja sér sem allra mestan hlut af þeirri hækkun fiskverðs sem hlytist af breytingum á sjóðakerfinu. Að gerðum slíkum samningum hefði síðan sjóðakerfisbreytingin tekið gildi og aldrei komið til þeirrar flækju sem kjaramálin lentu í. Í þeirri málsmeðferð þurfti ekki að felast neitt vantraust á undirritun þeirra aðila sem stóðu að samkomulaginu frá 8. febr. Sú undirritun gat aldrei staðið fyrir meiru en texti samkomulagsins sagði til um. Umboð til að opna bundna samninga hlutu formenn sjómannasamtakanna að þurfa að sækja til félagsmanna sinna.

Það er ástæðulaust að ég reki hvað síðan gerðist í þessum málum. Kjarasamningar voru samþykktir í nokkrum veigamiklum útgerðarstöðvum, felldir annars staðar og ekki bornir upp sums staðar, þar sem samningar voru bundnir fyrir. Alls staðar var þó róið og ný samkomulagsdrög, þar sem samningar voru lausir, borin upp og felld af sjómönnum við sameiginlega atkvgr., en samþ. af útgerðarmönnum. Enn var róið alls staðar og réttur sjómanna ótvíræður til að grípa til lögmætra og venjulegra aðgerða til að knýja á um nýja og hagstæðari samninga þegar þeir teldu tímabærast og hentugast. Á sama hátt var ótvíræður réttur þeirra sjómanna, sem voru með bundna samninga, að fá úr því skorið fyrir dómstólum hver réttur fælist í þeim samningum gagnvart nýju fiskverði.

Þessi réttur sjómanna hvarvetna um landið, raunverulegur samningsréttur styrktur með rétti til verkfallsboðunar og verkfalls og réttur til að láta meta gildandi samninga fyrir dómstólum, hefur verið brotinn niður með brbl. sem hér er leitað eftir staðfestingu á. Brbl. hæstv. sjútvrh. eru árás á samningsfrelsi sjómanna. Þótt sjómenn, sem fellt hafa till. að nýjum kjarasamningum, hafi ekki beitt afli samtaka sinna til hins ítrasta til að ljúka samningum, þá eiga þeir að hafa áfram réttinn til að beita slíkum aðgerðum þegar þeir kjósa. Það er skerðing mannréttinda að svipta þá þeim rétti. Þess vegna er ég andvígur þessu frv. og mun greiða atkv. gegn því.

Þau sjómannafélög, sem telja sig eiga rétt á aflahlut samkv. skiptaprósentu í samningum sem voru gerðir áður en sjóðakerfinu var breytt, — samningum sem hvorugur samningsaðila hefur sagt upp, eiga rétt á úrskurði dómstóla um þann rétt sinn. Alþ. á ekki að svipta sjómenn þeim rétti með því að lögfesta önnur launakjör. Slíkar aðgerðir eru skerðing á mannréttindum. Þess vegna á að fella þetta frv.

Kjarabarátta sjómanna hefur oft verið ærið erfið og þeir mátt þola harðari aðfarir Alþ. að kjörum sínum og hagsmunum en nokkur önnur stétt, bæði í tíð viðreisnarstjórnarinnar og þeirrar sem nú situr. Ástæðurnar til þess, að slíkar ríkisstjórnir hafa talið og telja sér fært að beita sjómenn slíkum aðgerðum, er fyrst og fremst að leita í félagsmálum þeirra sjálfra.

Ég sagði hér áðan eitthvað á þá leið, að hæstv. sjútvrh., Matthías Bjarnason, væri ekki höfuðvandamál sjómannastéttarinnar, þótt ýmsir andstæðingar hans vilji láta líta svo út. Ráð sjómanna eru í raun ekki í hendi hæstv. sjútvrh., Matthíasar Bjarnasonar, eða nokkurs þess manns sem gegnir stöðu sjútvrh. á hverjum tíma. Þau eru í hendi sjómanna sjálfra. Enginn gefur tryggt þeim varanlegan framgang hagsmunamála þeirra nema þeir sjálfir með eigin styrk stéttarsamtaka sinna. Til þess þarf sá styrkur að vera fyrir hendi. Og enginn getur ráðist gegn kjörum sjómanna með árangri nema þeir hafi vanrækt að efla sinn eigin styrk, og það hafa þeir gert of lengi. Árangur sjómanna í kjarabaráttu ræðst af því afli sem þeir sjálfir leggja til með skipulögðum félagssamtökum, samstöðu og stéttvísi.

Þinglið Sjálfstfl. og Framsfl. hér á hv. Alþ. mun eflaust samþykkja staðfestingu þeirra brbl., sem um sinn hafa svipt sjómenn verkfallsrétti og þar með samningsrétti í raun. Við því verður ekki spornað hér á hv. Alþ. En þess er að vænta að setning brbl. hafi það einnig í för með sér að sjómenn vakni til vitundar um nauðsyn þess að efla nú svo samtakamátt sinn að engin ríkisstj. treystist til þess framar að svipta þá raunverulegum samningsrétti með lögum.