27.04.1977
Neðri deild: 74. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 3837 í B-deild Alþingistíðinda. (2757)

209. mál, skipulagslög

Frsm. (Gunnlaugur Finnsson):

Herra forseti. Það frv., sem hér er um að ræða, er nánast fylgi­frv. með frv. til byggingarlaga. Hér er um að ræða frv. um breytingu á skipulagslögum og breytingin er fyrst og fremst fólgin í því, að öll sveitarfélög eru gerð skipulagsskyld. Í fram­kvæmd þýðir það í raun og veru að eftir að þessi lög öðlast gildi er ekki heimilt að reisa mann­virki eða hús á sveitabæjum án þess að fyrir liggi uppdráttur af viðkomandi lögbýli, afstöðu­mynd, þar sem fram kemur m. a. afstaða til teng­ingar við þjóðveg og lagnir: vatnslagnir og hol­ræsalagnir. Þessi breyting hefur það í för með sér, að vinna þarf stórt verkefni sem óleyst er enn í sveitum landsins. Mér er tjáð að þetta verkefni sé dýrt og það sé hagkvæmast að vinna það á skipulegan hátt, og ég efast ekki um að það er rétt. Ég tel þó að sú stefnumörkun, sem hér er gerð, sé rétt og þessu viðfangsefni verði að sinna. En spurningin er sú, hvort hægt er að vinna þetta verkefni þann veg að fyrir séu tekin á hverju ári þau býli, þar sem byggja skal hverju sinni, eða hvort unnið verði að skipulagi þannig að þetta verði unnið hraðar á skipulagsbundinn hátt. Þetta viðfangsefni er að sjálfsögðu eitt af þeim viðfangsefnum sem koma upp miðað við breyttar aðstæður og breytta stefnu, má segja. En ég tel að þessa breytingu verði eigi að síður að gera.

Ég hef svo ekki um það fleiri orð. Nm. standa allir að nál. með þeim sama fyrirvara og þeir höfðu varðandi byggingarlögin, sem sagt að þeir áskilja sér rétt til að fylgja eða flytja brtt.