27.04.1977
Neðri deild: 74. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 3839 í B-deild Alþingistíðinda. (2765)

101. mál, virkjun Hvítár í Borgarfirði

Landbrh. (Halldór E. Sigurðsson):

Hæstv. forseti. Í sambandi við frv. á þskj. 113 kvaddi ég mér hljóðs þegar það mál var til umr. fyrir tveimur dögum hér í hv. deild.

Eins og fram kemur í grg. frv. og fram hefur komið í framsögu í sambandi við nál. um þetta frv., er ósk um að frv. væri flutt komin frá stjórn Andakílsárvirkjunar, en það er gömul og merk stofnun sem mun nú vera eitt elsta raforkufyrir­tæki landsins. Ekki orkar það tvímælis, að þegar sú framkvæmd var gerð var það mikill ávinning­ur fyrir héraðið. Og ég minnist þess frá störfum mínum sem sveitarstjóri í Borgarnesi, að raforkuverð í því byggðarlagi var með því lægsta sem gerðist á landinu. Á síðari árum hefur orðið meiri samræming á þessu. Hins vegar tel ég einnig að ég muni það rétt, að þegar athuganir voru gerðar á kostum vatnsfalla til virkjunar í sambandi við ákvörðun um Búrfellsvirkjun, þá var Andakilsárvirkjun talin með betri eða bestu virkjunum hvað arðsemi snertir.

Hins vegar er hér ekki um stórvirkjun að ræða, virkjun Hvítár, heldur er það smávirkjun. Hún er hins vegar vel sett í héraði og einnig er hún vel sett á Vesturlandi vegna legu sinnar. Hinu er ekki að neita, að henni eins og öðrum virkj­unum getur fylgt sá annmarki að nokkurt land fari undir vatn, og sú jörð, sem ég óttast mest um í því sambandi, er Fróðastaðir sem er land­lítil jörð. Hins vegar er þar nú rekinn góður búskapur. En ég tel að það geti orkað tvímælis um framtíð búskapar þar eftir þessa virkjun. Hins vegar er það svo, að bóndinn þar, sem er glöggur maður, er einn af þeim sem skrifa undir það að vilja standa að því að þessi framkvæmd verði gerð, og ber að virða það.

Það hefur almennt verið álit okkar þm. Vest­url., ég held flestra og fram til umr. hér á mánu­dag held ég að það hafi verið álit okkar allra, að þessa virkjun ætti að framkvæma. Ég held líka að með þeirri afgreiðslu, sem meiri hl. iðnn. leggur til, sé svo varfærnislega að orði komist í sam­bandi við málið að þó að einhverjar hættur kynnu að leynast í sambandi við framkvæmd málsins, þá beri að athuga það gaumgæfilega áð­ur en til framkvæmdanna kæmi. Hins vegar eru kostir þess, auk þess sem ég hef áður talið, að þó að mikið hafi nú breyst í sambandi við virkj­unarmál í héraðinu, eftir að þessi hugmynd kom fyrst upp, við lagningu byggðalínunnar og sam­tengingu kerfisins yfirleitt, þá er náttúrlega verulegt öryggi í þessari virkjun vegna staðsetn­ingar hennar og vegna þess hvernig hún er sett í héraði. Þó að það megi segja með réttu að við þurfum að hafa heildarsýn yfir okkar raforku­mál, þá tel ég ekki að þetta falli út úr þeirri stefnu, svo sem kemur líka fram hjá meiri hl. iðnn.

Vegna þess, sem fram hefur komið um álit héraðsmanna, er mér hins vegar kunnugt um álit Búnaðarfélags Hvítársíðu. En mér er það líka ljóst, að samkv. því nál. meiri hl. iðnn., sem hér liggur fyrir og ákvörðun þessarar hv. d. byggist á, þá er hér enginn skaði orðinn, ef um skaða væri að ræða, þó að þetta frv. næði fram að ganga, því að ætlað er að halda áfram að vinna að rannsókn málsins. Og ég efast ekkert um að það verður gert með fyllstu varúð og sanngirni og samstarfi við þá sem hlut eiga að máli.

Afstaða mín verður því sú, að ég fylgi málinu eftir. Eins og ég sagði áðan, er þetta komið frá þeim sem stjórna virkjunum heima fyrir og stutt af þeim sem undir þetta álit hafa skrifað.

Ég mun ekki fara að ræða um nafnið á fossin­um, enda mun það ekki hafa áhrif á virkjunina út af fyrir sig, og mun ekki fara frekar út í þetta mál að sinni. Ég get þó bætt því við, því að menn ræða nokkuð um fundarhöld að á fundi, sem ég var á uppi í Borgarfirði í vetur, bar þetta mál á góma og það var álit þeirra, sem þar voru, að það væri ávinningur að fá þessa virkjun. Enda þótt viðhorfin hefðu breyst verulega með teng­ingu byggðalínunnar, þá töldu þeir að þetta öryggi væri það mikils virði, að það væri rétt að skoða virkjunarmöguleikana til hins ítrasta.