27.04.1977
Neðri deild: 74. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 3841 í B-deild Alþingistíðinda. (2767)

101. mál, virkjun Hvítár í Borgarfirði

Frsm. meiri hl. (Ingólfur Jónsson):

Hæstv. forseti. Ég talaði fyrir meirihlutaáliti iðnn. og hafði ræðu mína stutta og gerði ekki ráð fyrir að ég kæmi aftur upp í ræðustólinn til að tala í þessu máli. En það var vegna aths. hæstv. dómsmrh. sem ég tel nú rétt að segja nokkur orð. Hann er ekki viðstaddur, en fáir dagar eftir af þinginu og ætlunin er að láta málið ganga fram. Þess vegna fer ég ekki fram á það að umr. verði frest­að þangað til hæstv. ráðh. verður viðstaddur, sem sennilega verður ekki fyrr en á morgun úr því að hann er hér ekki nú. En ég haga þá orð­um mínum á annan hátt, úr því að hæstv. ráðh. er ekki við.

Ég vil aðeins segja það, að mér finnst aðfinnsl­ur hæstv. ráðh. eða aths. við álit meiri hl. iðnn. algerlega óþarfar. Ég hygg að flestir hv. þm., sem lesa þskj., telji að afgreiðsla meiri hl. sé góð og eðlileg. Það, sem fyrir meiri hl. vakti, var að gera hvort tveggja: að þóknast ríkisstj., þm. Vesturl., 4 af 5 a. m. k., fólkinu á Vesturlandi, en sýna þó varfærni í málflutningi og afgreiðslu málsins. Og þetta höfum við haldið að gæti farið saman. Það er þessi varfærni sem meiri hl. n. vill sýna með því að hafa fyrirvara í þskj. sem alltaf verður vitnað til.

Nú er það svo, að það má gera ráð fyrir að þessi virkjun sé hagstæð. Það er ekki hægt að fullyrða um að þetta sé hagkvæmasta virkjunin og gefi bestan árangur fyrr en rannsóknum er lokið. Þess vegna vill n. að sú heimild, sem ætlað er að gefa, verði ekki notuð nema lokarannsóknin sanni að fyrirtækið sé gott. Og annar fyrirvar­inn er sá, að hagkvæmni virkjunarinnar falli inn í samræmda heildaráætlun um virkjunarfram­kvæmdir. Það var þetta sem hæstv. dómsmrh. lagði áherslu á, að það væru gerðar samræmdar áætlanir í virkjunarmálum, og þess vegna er fyrirvari meiri hl. alveg í samræmi við það sem hann sagði í sinni fyrri ræðu. Hæstv. ráðh. byrj­aði aths. sína á þann hátt, að mér fannst eins og hann væri með ávítur, en þegar á ræðuna leið varð ekkert úr því og mér fannst, þegar hæstv. ráðh. endaði sitt mál, að þá væri ekkert sem bæri á milli meiri hl. n. og hæstv. ráðh.

Hæstv. ráðh. taldi óviðeigandi að ræða þetta mál þar sem ekki væri vitað um afstöðu iðnrh., hann væri ekki í þingsalnum vegna þess að hann væri við umr. í Ed. og hann sagði enn frem­ur, hæstv. dómsmrh., að það væri ekkert vitað hvernig ríkisstj. stæði að þessu máli. Þó hafði hæstv. forsrh. greitt málinu atkv. í Ed., hæstv. iðnrh. hefur lagt áherslu á að fá þetta mál sam­þykkt, hæstv. samgrh. flokksbróðir hæstv. við­skrh., leggur einnig áherslu á þetta. Hæstv. for­seti Sþ. enn fremur, flokksbróðir hæstv. viðskrh. óskar eftir því að málið verði samþykkt. Það fer þess vegna að verða algerlega óskiljanlegt að hæstv. viðskrh. skyldi ekki vita um vilja ríkisstj. og áhuga m. a. flokksbræðra sinna um að fá mál­ið fram.

Ég ætla ekki að hafa þessi orð öllu fleiri og ekki öðruvísi, þar sem hæstv. ráðh. er ekki við. En ég vil lýsa ánægju minni yfir því, að þegar aths. hæstv. ráðh. er lesin, t. d. í Tímanum þar sem er alveg rétt eftir honum haft, — fréttaritari blaðsins birti aths. ráðh. í Tímanum í gær, ­— þegar þetta er lesið sjá allir að það er stuðningur við málið og fram kemur sama skoðun hjá hæstv. ráðh. og meiri hl. iðnn. Meiri hl. iðnn., 6 þm. sem hafa setið alllengi á þingi og kunna nokkur skil á því hvernig afgreiða ber þingmál svo að ekki þurfi að því að finna, er þess vegna ánægður með að það, sem átti að verða aths. hjá hæstv. ráðh., er stuðningur við málið. Ég tel rétt að samþykkja þetta frv. Það er aðeins heimild, sem á að vera nokkuð tryggt að ekki verður notuð nema það sé æskilegt frá þjóðhagslegu sjónar­miði.