27.04.1977
Neðri deild: 74. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 3842 í B-deild Alþingistíðinda. (2768)

101. mál, virkjun Hvítár í Borgarfirði

Friðjón Þórðarson:

Virðulegi forseti. Nokkur orð í viðbót um frv. til 1. um virkjun Hvítár í Borgarfirði. Það er rétt að í gildandi lögum eru ýmsar heimildir til að virkja vatnsföll. Flestar hafa þær heimildir verið notaðar, en sumra hefur þó ekki verið neytt. Og í tilefni orða hæstv. dómsrh., þótt hann sé ekki viðstaddur í kvöld, ætla ég að láta nokkur orð falla um þetta efni, sérstaklega á Vesturlandi, þar sem ég þekki til.

Ég vil benda á tvö dæmi. Í lögum nr. 34 frá 16. maí 1949, um ný orkuver og nýjar orku­veitur Rafmagnsveitna ríkisins, segir í 1. gr., 3. tölul., að ríkisstj. sé heimilt að virkja vatnsfallið Þrándargil í Laxárdal í allt að 700 hestafla orkuveri og leggja þaðan aðalorkuveitu til Búð­ardals. Þessi heimild er í lögum frá 1949. Ég hygg að þessi heimild verði aldrei notuð. Hún hefur ekki verið notuð hingað til. Þessu svæði hefur verið séð fyrir orku með öðrum hætti, og það líða a. m. k. langir tímar áður en þessi heimild verður notuð.

Annað atriði vil ég nefna. Það eru lög nr. 65 frá 8. maí 1956. Þar segir í 10. gr. að virkja megi Haukadalsá í Dalasýslu í allt að 500 hest­afla orkuveri til vinnslu á raforku handa fimm syðstu hreppum Dalasýslu. Ég hygg að það líði mjög mörg ár þangað til þessi heimild verður notuð. Hún hefur ekki verið notuð hingað til.

Þessi tvö dæmi ættu að nægja til þess að sanna það, að ekki eru allar heimildir, sem standa í lögum, notaðar. Ég benti einnig á það í þeim orðum sem ég sagði síðast um þetta frv., að lög um eignarnám á vatnsréttindum í Anda­kilsá eru nr. 20 frá 27. júní 1921. Þar er virkjun­arheimildin. Þessi lög eru frá 1921, en heimildir samkv. þeim voru ekki notaðar, það er byrjað að ræða um það 1942 og Andakílsárvirkjun er síðan byggð á árunum 1945–1947. Af þessu ætti að sjást að það er allur gangur á í þessum efnum. Auk þess byrja lög um þessi mál yfirleitt á svo hljóðandi setningu: „Ríkisstj. er heimilt að fela Rafmagnsveitum ríkisins að láta virkja“ o. s. frv. Það er ekki í kot vísað að leggja þarna endanlegt ákvörðunarvald í hendur ríkisstj. sjálfrar, og um það ættu allir ráðh. a. m. k. að hafa nokkuð að segja, hvenær slíkar heimildir eru nýttar.

En það er annað atriði. Á Vesturlandi er ekki um ýkja marga kosti að ræða í virkjunarmálum. Á Snæfellsnesi er að vísu nokkuð gömul virkjun, Rjúkandavirkjun við Fossá í Ólafsvík, innan við eitt mw. Það er ekki um auðugan garð að gresja um virkjanlegt vatnsafl á Snæfellsnesi fyrir utan þessa virkjun. Þó má nefna Hraunsfjarðar­vatn á fjallgarðinum skammt vestur af Kerlingar­skarði. Það hefur verið talinn mjög ákjósanlegur virkjunarstaður, m. a. af Rafmagnsveitum ríkis­ins og þeirra forráðamönnum.

Þá koma önnur atriði til greina. Ég hef heyrt rafmagnsveitustjóra sjálfan segja fyrir nokkr­um árum að í raun og veru væri þetta mjög áhugaverður virkjunarstaður, minnti á suma staði í Noregi, því að þar háttar þannig til, að það mætti virkja þetta vatn norður af, bora gat þarna í gegnum fjallsegg og fá hátt fall niður í Hraunsfjörðinn. Þetta yrði mjög ákjós­anleg virkjun að því er talið er. Það má líka virkja þetta vatnsafl suður af, en það er ekki eins hentugt og þar kemur eitt atriði enn til sögunnar. Úr Hraunsfjarðarvatni rennur svo­kölluð Vatnaá í Baulárvallavatn, en úr Baulár­vallavatni rennur suður af Straumfjarðará, og hún er með vinsælustu og bestu laxveiðiám landsins. Hvor virkjunarkosturinn sem valinn yrði þarna, vatnið virkjað suður af og þó einkum norður af, mundi það setja svo stórt strik í reikninginn, þegar um er að ræða veiði­réttindi bændanna sem eiga land að ánni, að ég tel ókleift að leggja út í slíkt ævintýri. Og þó að hafi verið rætt um þetta árum saman á Snæ­fellsnesi, m. a. í sýslunefndinni, þá held ég að við séum flestir búnir að afskrifa þennan mögu­leika. Það er ekki hægt að standa í stríði út af svona löguðu þegar um aðra kosti er að velja.

Höfum við um annað að velja? Spyrja má um það, því að við vitum að það er tvímælalaust stór hagur að því að hafa orkuverin nálægt sér heima í héraði, en þurfa ekki að treysta alfarið á langar leiðslur sem geta bilað þá og þegar, eins og reynslan sýnir. Þegar farið er að svipast um í Vesturlandskjördæmi þá stöðvast allir við Hvítá hjá Kljáfossi. Það er m. ö. o. óumdeilan­lega ákjósanlegasti virkjunarstaðurinn í öllu Vesturlandskjördæmi. Þar hafa rannsóknir far­ið fram árum saman, eins og hér hefur verið getið um, og þetta er hagstæð virkjun.

Hæstv. dómsrh. komst að orði á þessa leið: Það hefur sýnt sig að þegar heimildin er fengin í lög hefur það oftast dugað. Ég vil með vísan til þess, sem ég sagði áðan, draga þetta í efa og benda á að ekki er sopið kálið þó í ausuna sé komið.

Ég ætla ekki að hafa þessi orð miklu fleiri.

Það er rætt þarna um náttúruverndarsjónarmið og vissulega ber að hafa þau í heiðri, og það er einmitt þess vegna að gert hefur verið ráð fyrir að vatnsaflsstöðin verði með allt að 13.5 mw. afli. Einmitt sú ákvörðun er tekin með tilliti til þess, að þá fer minna landssvæði und­ir vatn vegna stíflugerðar en ella, ef orkuverið væri miðað við 15 mw., sem er það hagstæðasta að því talið er.

Að lokum vil ég benda á og rifja það upp einu sinni enn, að eigendur Andakílsárvirkj­unar eru Akraneskaupstaður og Mýra- og Borgarfjarðarsýslur. Þetta frv. er flutt að beiðni eig­enda Andakílsárvirkjunar sem reynst hefur gott og þarft fyrirtæki heima í héraði. Þetta er því í raun og veru nokkurs konar framhald af Andakílsárvirkjun. Það er fyrirhugað að jafn­framt virkjun Kljáfoss eða þegar heimild til þess er fengin, hvort sem það verður framkvæmt árinu fyrr eða seinna, þá verði samstarf manna á Vesturlandi aukið, þ. e. a. s. að það samstarf í orkumálum, sem hingað til hefur náð aðeins yfir einn kaupstað og tvær sýslur, verði aukið svo að það nái framvegis yfir einn kaupstað og fjárar sýslur, m. ö. o. yfir allt Vesturlands­landskjördæmi. Þetta hefur verið rætt í nefnd og sveitarstjórnum. Þetta er afstaða samtaka sveitarfélaga á Vesturlandi samkv. mörgum yfirlýsingum, en í þeim samtökum eru 39 sveitarfélög á Vesturlandi, þ. e. a. s. öll sveitarfélögin þar. Sýslunefndir á þessu svæði hafa haft um þetta samstarf sín á milli. Þetta frv. er flutt af tveimur þm. Vesturlands, þeim Ásgeiri Bjarnasyni, hæstv. forseta Sþ., og Jóni Árnasyni, for­manni fjvn. Það fór shlj. eftir 3. umr. í Ed. hingað til hv. Nd. og er nú til meðferðar í síðari deild.

Ég vænti þess, að hv. dm. geti skilið þann áhuga, sem íbúar Vesturlands hafa á þessu máli, og kunni að meta hagsmuni þeirra. Eins og sést af fskj. málsins, þá er mikil samstaða um þetta mál heima í héraði, eins og raunar er óþarfi að taka oftar fram eða nefna fleiri dæmi um. Þetta tel ég meginatriði: Það er samstaða heima­manna sem vilja taka upp nánari samvinnu í orkumálum með hagsmuni allra íbúa Vestur­landskjördæmis fyrir augum.