03.11.1976
Efri deild: 8. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 447 í B-deild Alþingistíðinda. (277)

16. mál, kaup og kjör sjómanna

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Sennilega hefði ég ekki kvatt mér hljóðs nú við 1. umr. um lagafrv. þetta ef ekki hefði verið stutt aths. hjá hv. síðasta ræðumanni, sem ég var efnislega sammála um flest það sem lýtur að lagafrv. sjálfu, gagnrýni hans eins og hún hljóðaði af hans vörum. Ég fann mig hins vegar til knúinn að gera örstutta aths. við afstöðu Alþfl. eins og hún kemur fram til þessa lagafrv. og brbl., sem þar er um fjallað, og kjaramála sjómanna nú á hinum síðustu dögum.

Hv. síðasti ræðumaður lét í ljós þá skoðun sína, að þó umdeilanlegt væri hvaða ráðh. hefði vegið harðast að kjörum sjómanna, þá mundi það nú sennilega vera Lúðvík Jósepsson í sinni ráðherratíð. Ég vænti þess ekki að hann bæri hér fram rök fyrir þessari fullyrðingu sinni, en vil vekja athygli á því, sem flestum er kunnugt, að enginn stjórnmálaflokkur íslenskur hefur borið meginsök á setningu jafnmargra brbl. til lausnar á vinnudeilum eins og Alþfl. Og það voru ráðh. Alþfl. sem öllum mönnum fremur stofnuðu hið illræmda sjóðakerfi sem hv. síðasti ræðumaður fjallaði um. Ég hygg að þeir hafi skotið stoðum undir alla þessa sjóði nema einn. En þetta er nú aðeins innskot, sem varð þó til þess að ég kvaddi mér hér hljóðs og hlýt að fjalla um lagafrv. þetta að öðru leyti.

Mér varð hugsað sem svo, þegar ég hlustaði á hæstv. sjútvrh, flytja greinargott yfirlit um sögulegan aðdraganda þessa lagafrv., að hörmulegt væri það, að niðurstaða þessa yfirlits skyldi verða svo greinarlítil og einhvern veginn tuðruleg eins og raun ber vitni. Mér er það býsna minnistætt er lagafrv. um breytingarnar á sjóðakerfinu voru til umr. í þessari hv. d. fyrir nær ári, að ráðh. lagði mjög mikla áherslu á þær staðhæfingar sínar að nýir kjarasamningar við sjómenn mundu taka gildi með samþykkt þessara lagafrv. Einmitt meðferð þessa máls á hv. Alþ. í fyrra og í viðræðunum við samninganefndir sjómanna þá ber þess vott í hvílíkt óefni er komið, sérstaklega um skilgreiningu á á ráðherravaldi og valdi ríkisstj. Því fer víðs fjarri að hægt sé að kenna sjómönnum í einstökum félögum, sem áttu ýmist enga, litla eða óbeina aðild að þessum viðræðum sem þá fóru fram, — það fer víðs fjarri að hægt sé að kenna þeim um það hvernig þarna fór. Ég viðurkenni að vísu að hið félagslega ástand sjómannasamtakanna var ekki með þeim hætti að búast mætti við því að samninganefndarmenn þeirra, fulltrúar þeirra, hefðu tök á hinum einstöku félögum. En þetta var hæstv. ráðh. fullkunnugt. Hann vissi hvers konar umboð það var sem samninganefndarmenn sjómanna höfðu, sem hann ræddi við um þessi mál. Það hafði þá fyrir skemmstu verið gerð alger uppreisn í kjarasamtökum sjómanna, sem hæstv. ráðh. var fullkunnugt um, þar sem þorri starfandi sjómanna, a.m.k. hér við Suðvesturlandið, lýsti í rauninni vantrausti á þá forustumenn sem farið höfðu með samningaumboð sjómanna fram að þeim tíma.

Hæstv. ráðh. segir að með frv. þessu vilji hann ekki skerða á neinn hátt kjör sjómanna. Þessu trúi ég, og með þeirri aths. að ráðh. láist hér að gera sér grein fyrir því, að verkfallsrétturinn er býsna snar þáttur af réttindum sjómanna og af kjörum þeirra. Ég afneita þeirri túlkun hæstv. ráðh., að með því að fella samningana, sem svo eru nefndir í 1. gr. þessa frv., hafi sjómenn um leið fellt breytingarnar á sjóðakerfinu. Ég hygg að í vitund sjómannanna, sem greiddu atkv. víðast hvar, hafi þessi hugrenningatengsl hæstv. ráðh, raunverulega ekki verið skiljanleg. Þeir voru að greiða atkv. um skiptaprósentu, en ekki um nein þau mál í raun og veru sem fjallað hafði verið um í viðræðunum um breytingarnar á sjóðakerfinu.

Ég óska þess að Alþ. felli þetta frv. um staðfestingu á brbl. frá því í sept., vafasömum, að ekki sé meira sagt, — vafasömum brbl. Ég óska þess að Alþ. felli þetta frv., vegna þess að það blasir alveg við okkur að sjómenn muni ekki hlíta þessum lögum. Það hefur þegar komið fram, þó að ég vilji ekki hnotabítast við hæstv. sjútvrh. um það hvort þessi brbl. hafi þegar verið hrotin. Um slíkt má vafalaust teygja hrátt skinn lengi. En mér finnst það liggja í augum uppi, að þessi lög, þar sem kveðið er á um að samningar þeir, sem samninganefndir sjómanna og útvegsmanna undirrituðu 29. febr. 1976, skuli gilda fyrir þau félög sjómanna sem ekki áttu neina aðild að samningum þessum og að eigi megi knýja breytingar á þessum samningum fram með vinnustöðvun, — ég tel það alveg liggja í augum uppi að samtök sjómanna, sem nú virðast, guði sé lof, hafa vaknað til sjálfsmeðvitundar, muni brjóta þessi lög. Þau eru ósanngjörn og þau eru hættuleg, og ég vil ekki trúa því að þau félög sjómanna eða einstaklingar þeirra sjómannafélaga, sem ekki áttu neina aðild að samningum þessum, fáist til þess að viðurkenna það, að hér sé um að ræða samninga sem fengið hafi gildi við samþykkt. Ég tek að vísu undir þann ugg hv. tveggja síðustu ræðumanna, Jóns Ármanns og Geirs Gunnarssonar, — tek undir þann ugg þeirra að þinglið stjórnarflokkanna muni samþykkja frv. þetta, eins og allt er í pottinn búið. En ég er ákaflega hræddur um að þeir eigi eftir að sjá eftir því.