27.04.1977
Neðri deild: 74. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 3846 í B-deild Alþingistíðinda. (2774)

124. mál, símaafnot aldraðs fólks og öryrkja

Sigurður Magnússon:

Herra forseti. Ég ætla að tala hér fyrir þáltill., er Magnús Kjartans­son lagði fram snemma á þessu þingi, en hann dvelur nú sem kunnugt er á sjúkrahúsi vegna veikinda og getur því ekki fylgt þessari till. sinni úr hlaði.

Þáltill. þessi er á þskj. 166 og er um fram­kvæmd lagaákvæðis um ókeypis símaafnot aldraðs fólks og öryrkja o. fl. Þáltill. hljóðar á þennan veg, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela samgrh. að gefa út reglugerðar ákvæði um ókeypis símaafnot aldraðs fólks og öryrkja með lágmarkstekjur í samræmi við ákvæði um það efni í lögum um fjarskipti.

Einnig ályktar Alþ. að fela ráðh. að beita sér fyrir því, að aldrað fólk og öryrkjar fái veru­legan afslátt við kaup farmiða með almenningsfarartækjum á landi, á sjó og í lofti.“

Mál það, sem um ræðir í þessari þáltill., er ekki nýtt af nálinni hér á Alþ. Þannig flutti Magnús Kjartansson frv. hér í þinginu 1974–1975 um breyt. á lögum um fjarskipti. Var frv. samþ. shlj. á Alþ. eftir að hafa fengið jákvæða af­greiðslu í þeirri n., er fjallaði um málið. Frv. gerði ráð fyrir því, að hæstv. símamálaráðh. hefði heimild til að undanþiggja aldraða og ör­yrkja með lágmarkstekjur símagjöldum. Var færður traustur rökstuðningur fyrir máli þessu, enda, eins og ég gat um áðan, hlaut það einróma samþykki hér á Alþ. Helstu rökin voru vitaskuld sú staðreynd, að elli- og örorkulífeyrir á Íslandi er svo lágur að það fólk, sem af honum þarf að lifa, á í hinum mestu vandræðum með að njóta hinna sjálfsögðustu mannréttinda, m. a. afnota af síma, en símagjöld, svo dýr sem þau eru, eru mikill útgjaldaauki fyrir þetta fólk. Aðstæður þess og heftir möguleikar til ferðalaga gera það hins vegar að verkum, að símaafnot eru því jafnvel nauðsynlegri en yngra fólki og fullfrísku. Einnig benti flm. frv. á þá staðreynd, að breyttir þjóðlífshættir, þ. e. a. s. að algengara væri nú en áður að eldra fólk byggi ekki hjá vandamönnum sínum, heldur byggi út af fyrir sig, eitt sér eða hjón saman, gerðu þetta brýnna og stærra mál en ella.

Sú breyt., sem frv. miðaði að, var mjög hlið­stæð því sem sami þm. hafði áður fengið samþ. hér á Alþ. hvað varðaði útvarpslög, þ. e. a. s. að aldraðir og öryrkjar væru undanþegnir út­varpsgjöldum. Því máli var komið til fram­kvæmda af þáv. menntmrh., Gylfa Þ. Gíslasyni, eftir að það hafði verið samþ. hér á Alþingi.

Eftir að það frv., sem ég gat um áðan og fjall­aði um fjarskiptalög, hafði fengið einróma af­greiðslu hér á Alþ. á þinginu 1974–1975 taldi flm. þess að málið væri í höfn. Reyndin hefur hins vegar orðið önnur. Hún hefur orðið sú, að hæstv. símamálaráðh. hefur ekki notað þá heim­ild sem hér um ræðir, þrátt fyrir augljósan vilja Alþ. og þrátt fyrir að hann hafi tvívegis verið áminntur um það í sambandi við fyrir­spurnir á Alþingi.

Ráðh. hefur borið því við í fyrsta lagi, að það væri erfiðleikum bundið að framfylgja heim­ild þessari, og kemur það nokkuð á óvart því margar hliðstæður eru til um slíkt eftirlit og úrtak sem hér um ræðir hjá ýmsum ríkisstofn­unum. Nægir í því sambandi að vísa til Ríkisút­varpsins og framkvæmdar þess á hliðstæðu ákvæði, eins og ég áður gat um. Í öðru lagi hefur ráðh. látið það koma fram í svörum við fyrir­spurn um þetta efni, að hann teldi að tryggja ætti þeim hópum, sem hér um ræðir, svo ríflegar tekj­ur í gegnum almannatryggingakerfið að þeir geti vandræðalaust notið allra nauðsynlegra þæginda. Og síðast þegar hann var spurður einmitt um framkvæmd þessa máls hér á Alþ. í haust eða vetur bar hann þessu við og sagði þá reyndar jafnframt að unnið væri að endurskoðun bóta til aldraðra og öryrkja. Reynslan sýnir okkur hins vegar að kjör þessa fólks hafa sjaldan verið jafnslæm og nú á Íslandi í því verðbólgu­báli sem hér hefur geisað, og mikil stakkaskipti verða að eiga sér stað í herbúðum ríkisstj. ef bót á að ráða á því vandamáli, og er ekki að merkja að neitt slíkt sé á döfinni.

Ég vil svo bæta því við, að í nágrannalöndum okkar, á Norðurlöndunum flestum að ég hygg, a. m. k. í Danmörku, eru bætur til aldraðra og öryrkja um það bil helmingi hærri en hér þekkist hjá okkur á Íslandi, auk þess sem aldraðir og öryrkjar eru látnir njóta þar ýmissa hagsbóta, svo sem hvað varðar afnotagjöld útvarps og sjón­varps og síma, auk þess sérstakra hagsbóta í fargjöldum almenningsvagna og eins í húsnæðis­málum. Erum við íslendingar miklir eftirbátar þessara frændþjóða okkar í málefnum aldraðra og öryrkja eins og víða á sviði félagsmála. En hér á landi hafa áhrif einstaklingshyggju verið miklu ríkari um langt skeið og staðið í vegi fyrir nauðsynlegum úrbótum á þessu sviði.

þáltill., sem hér er flutt, er því fram komin til þess í fyrsta lagi að knýja á um efndir þess loforðs sem Alþ. gaf hinum öldruðu og öryrkjun­um fyrir um það bil þrem árum og ekki hefur enn tekist að koma til framkvæmda. En um leið er í þáltill. þessari lagt til að svipaðar reglur verði teknar upp í sambandi við farmiða með almenningsfarartækjum, hvort heldur er á landi, í lofti eða á sjó, en sömu rök má færa með þeim lið till. og hinum fyrri. Afkomumöguleikar aldraðra og öryrkja eru svo bágbornir að eðlilegt er að tryggja þeim sérstök kjör til ferðalaga, en þarf­ir þessa fólks til þeirrar þjónustu eru að mörgu leyti meiri en hinna sem eru fullvinnandi, þar sem stór hópur þessa fólks getur af ýmsum ástæðum hvorki átt né rekið eigin farartæki.

Sú kynslóð, sem lagt hefur grunn að því þjóðfélagi, sem við lifum í, með mikilli vinnu og oft við hörðustu skilyrði, á rétt á því á ellidög­um að njóta miklu frekar en nú er þeirra fram­fara sem orðið hafa. Sama gildir um þá sem af einhverjum ástæðum búa við heilsubrest og ör­orku eftir slys eða sjúkdóma eða meðfædda galla. Það sæmir ekki þjóðfélagi okkar að meina því fólki aðgang að sjálfsögðustu mannréttindum. Ég tel því að um leið og bæta þurfi tekjur þessa fólks gegnum almannatryggingakerfið, stórhækka bæt­ur þess, þá sé eðlilegt jafnframt að tryggja því ýmsar hagbætur, svo sem í því formi sem þessi till. gerir ráð fyrir.

Ég held að það sé óþarfi út af fyrir sig að eyða löngum tíma í rökstuðning með svo sjálf­sögðu máli eins og því sem hér er á ferðinni. Ég vil treysta því, að þessi þáltill. fái jafnein­róma stuðning hjá hv. alþm. og það frv. er ég gat um áðan og fjallaði um skylt efni. Jafnframt vil ég geta þess, að ég mun ekki leggja til að málið fari til n. Ég tel það í rauninni óþarft þar sem um efni þess hefur áður verið fjallað og það á því að vera þm. vel kunnugt. Ég legg því til að það fari hér til afgreiðslu án umfjöll­unar í sérstakri þingnefnd.