27.04.1977
Neðri deild: 74. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 3851 í B-deild Alþingistíðinda. (2778)

124. mál, símaafnot aldraðs fólks og öryrkja

Svava Jakobsdóttir:

Herra forseti. Aðeins örfá orð út af ummælum hæstv. samgrh, áðan um þetta mál. Hann hefur auðsjáanlega tilhneig­ingu til þess að gera þetta mál stærra en það er. Vitanlega er alveg rétt, að það er brýn nauð­syn að leysa heildarvanda aldraðs fólks, og þar koma auðvitað mörg atriði til greina og nauð­synlegt að samræma þau. Ég vil benda hæstv. ráðh. á það, sem hv. frsm. gerði raunar, að með þessari till. til þál. er verið að árétta atriði sem Alþ. hefur þegar sett í lög árið 1974 og hæstv. ráðh. ekki framfylgt. Og mér er ekki fyllilega ljóst hvernig sú n. manna, sem hann talar um, ætlar sér að taka fyrir þessi mál án þess að hafa hliðsjón af því sem Alþ. hefur þegar samþykkt. Síðan 1974 hefur þessi hæstv. ráðh. þæft þetta mál og ætlar nú enn að ýta því á undan sér með því að vísa til n. sem ætli að taka fyrir heildarvanda aldraðs fólks. Ég minni á að þetta er þegar komið í lög. (Landbrh.: Það er aðeins heimild í lögum, en ekki annað.) Það er rétt, það er heimild í lögum. En sú heimild er til, og þessi þáltill. er ekki annað en árétting á því og tilraun til að fá þennan hæstv. ráðh. til að nota þá heimild sem Alþ. hefur einróma veitt honum.

Það hlýtur að taka talsverðan tíma að sam­ræma öll þau atriði sem til greina koma varð­andi kjör aldraðs fólks og öryrkja, og það hefur ekki komið fram í máli hæstv. ráðh. hvenær þessari n., ef er þá búið að stofna hana, er ætlað að ljúka störfum. Mér þykir hæstv. ráðh. taka á sig fullmikla ábyrgð ef hann ætlar að ýta þessu sjálfsagða máli á undan sér þar til þessi n. hefur lokið störfum. Hér er um mál að ræða sem þarf alls ekki í neina n., vegna þess að Alþ. hefur þegar veitt hæstv. ráðh. heimild til að fram­kvæma það sem þessi þáltill. fjallar um. Fjár­mögnunin sem slík er ekki atriði í þessu máli, því að það getur hæstv. ráðh. haft í hendi sér að endurgreiða úr ríkissjóði það sem póst- og símamálastofnunin kann að tapa við að veita öldruðum og öryrkjum ókeypis síma. Og hér er eng­an veginn um að ræða neina hópa sem gætu misnotað neitt, því að hér er um að ræða fólk með lágmarkstekjur og þær lágmarkstekjur eru skilgreindar í lögum um almannatryggingar.