03.11.1976
Efri deild: 8. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 451 í B-deild Alþingistíðinda. (279)

16. mál, kaup og kjör sjómanna

Steingrímur Hermannsson:

Herra forseti. Við höfum haft töluverða möguleika til þess að kynna okkur þessi brbl. Þau hafa verið rædd bæði opinberlega, í fjölmiðlum og síðast á Alþ. í gær, auk þeirrar umr. sem hér fer fram nú, enda er það vel, því að hér er nm mjög stórt og viðamikið mál að ræða.

Grundvöllurinn að þessum brbl. er í samkomulagi því sem gert var með fulltrúum sjómanna og útgerðarmanna og birt er sem viðbótarskjal á bls. 44 með frv. því til laga sem við ræðum hér um.

Ég vil líta sérstaklega á tvö atriði þar: 1. líð, þar sem því er lofað að sjómenn og útgerðarmenn muni leita eftir samningum um kjör þar sem samningar eru lausir, og svo 2. líð, þar sem segir, að aðilar lýsi því enn fremur yfir að þeir muni beita sér fyrir því að heimildir verði veittar til að taka upp samninga á þessum grundvelli um breytingar á þeim kjarasamningum aðila, sem ekki hefur verið sagt upp, með sama hætti og væru þeir lausir. Ég vil taka undir það með hæstv. ráðh., að það er satt að segja sorglegt og kannske hörmulegt að ekki skuli hafa verið meiri þátttaka sjómanna í atkvgr. um svo viðamikið mál eins og raun varð á þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir. Ég tel að það hafi verið allvel að tilraunum staðið til þess að ná samkomulagi um kaup og kjör sjómanna. Hins vegar eru brb1. um kaup og kjör ákaflega viðamikið mál og mjög varhugavert hvenær skal beita þeim. Ég verð að segja það fyrir mitt leyti, að ég er ekki sannfærður um að rétt hafi verið að beita þessari aðferð, þrátt fyrir tvær tilraunir til þess að ná samkomulagi þar sem samningar voru lausir.

Ég vil þá snúa mér að 2. líð þessa samkomulags sem ég las áðan. Ég vil gjarnan spyrja að því, hvort tilraun hafi verið gerð til þess af hálfu hæstv. ráðh. að fá þær heimildir, sem þar er lofað, til að taka upp samninga á þessum grundvelli um breytingar á þeim kjarasamningum aðila sem ekki hefur verið sagt upp. Ég tel það ákaflega viðamikið að setja brbl. um kjör sjómanna þar sem samningum hefur ekki verið sagt upp og því ekki gerð tilraun til að nú samningum á frjálsum grundvelli. Samningar þessir, t.d. á Vestfjörðum, voru bundnir þegar þetta samkomulag var gert í febr. s.l. Hins vegar var möguleiki til þess að segja þessum samningum upp s.l. vor, Það notuðu útgerðarmenn sér ekki. Ég hygg að það hafi vakið nokkra furðu, og ég vil gjarnan spyrja hvort hæstv. ráðh. sé kunnugt um hvers vegna útgerðarmenn notuðu ekki þessa heimild.

Ég vil taka undir það, sem kom fram hjá hæstv. ráðh. að skiptahluti á Vestfjörðum hefur verið nokkur annar en víða annars staðar um landið, og ég tek undir það sem hann sagði um ástæður til þess að svo hefur verið. Þær eru eðlilegar og hann skýrði þær fullkomlega. Því sýnist mér að það hafi verið vafasamt að setja sjómenn á þessu svæði undir sömu skiptakjör og annars staðar gilda samkv. þessum lögum. Að vísu segir í 2. gr. að samningsaðilum sé þó heimilt að koma sér saman um breytingar á þar greindum samningum, en hins vegar megi það ekki gerast með vinnustöðvun.

Ég verð að segja það því fyrir mitt leyti, að ég hef ýmsar efasemdir um þessi brbl., og ég vil að það komi fram hér, að það var ekki leitað til mín sem stuðningsmanns þessarar ríkisstj. og sem formanns í sjútvn., áður en lög þessi voru sett. Ég hef því ekki lofað stuðningi mínum við þetta frv. og mun skoða það vandlega þegar það kemur til n., áður en ég geri þar upp hug minn. Ég sé hins vegar nauðsyn á því að stundum þurfi að leysa slíkar deilur með brbl. Það er ljóst. En sú spurning er rík í huga mér, hvort ástæða hafi verið orðin til þess þegar brbl. voru sett. Og ég vil gjarnan að það komi hér fram, að ég tel að það eigi að vera meira samráð, ekki aðeins innan ríkisstj., — þar sem það hefur eflaust verið, ég efa það ekki, — heldur einnig með stuðningsmönnum hæstv. ríkisstj. áður en svo viðkvæmu máli er hreyft sem þessu með setningu brbl.