03.11.1976
Efri deild: 8. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 453 í B-deild Alþingistíðinda. (281)

16. mál, kaup og kjör sjómanna

Steingrímur Hermannsson:

Herra forseti. Ég get fallist á það hjá hæstv. ráðh., að það er erfitt að setja brbl, um kaup og kjör fyrir hluta af landinu. En gagnrýni mín beinist einkum að því, að ekki var leitað þeirrar heimildar sem um getur í 2. gr., það reyndi ekki á frjálsa samninga. Ég hygg að hæstv. ráðh. hafi ýmsa möguleika til að knýja fram að þeirrar heimildar sé leitað, þótt hann sé þar ekki ábyrgur fyrir, ég fellst að sjálfsögðu á það. Og ég verð að viðurkenna að ég verð að skoða betur hvernig samþykkt var gerð í þingflokki Framsfl. þegar þetta mál var þar rætt, áður en ég fer að ræða um það hér. En ég vil taka undir það, að þegar umrætt samkomulag var gert um sjóðabreytingarnar, þá var á það fallist af báðum aðilum að breyting yrði gerð á skiptahlutfallinu, og ég vil gjarnan taka það fram, að það kom greinilega fram á þeim fundum, sem sjútvn. þessarar d. hélt, m.a. með samningamönnum sem í þessu tóku þátt, að skiptahlutfallið lækkaði nokkuð miðað við þá auknu byrði sem útgerðarmenn taka á síg. En ég verð að skoða betur hvort það hafi verið á það fallist af þingflokki Framsfl. að málið yrði leyst með brbl. eins og þessum.