27.04.1977
Neðri deild: 76. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 3857 í B-deild Alþingistíðinda. (2811)

124. mál, símaafnot aldraðs fólks og öryrkja

Landbrh. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra for­seti. Enda þótt þær umr., sem hér hafa farið fram, hafi á margan hátt verið í öðrum dúr en flestar umr. sem hér fara fram, þar sem meira og minna hafa verið bornar á viðkomandi ráðh. persónulegar svívirðingar, eins og t. d. af hv. 6. landsk. þm. áðan, þá ætla ég ekki að eyða orð­um að því. Ég verð að segja það, að þessir hv. þm., sem hér eru og sumir hafa ekki verið hér þegar þetta var til meðferðar á sínum tíma, þeir hafa betra minni en ég ef þeir geta fullyrt að það hafi verið mikill og samhljóða áhugi fyrir því að þetta mál færi í gegn á hv. Alþ., því að ég þykist muna annað um meðferð málsins. Hins vegar vil ég — með leyfi hæstv. forseta — lesa hér upp þá grein, sem um ræðir, og það lagabrot, sem ég á þá að hafa framkvæmt. En það segir svo í lögum um breyt. á l. nr. 30 frá 1941, um fjarskipti:

„Aftan við 12. gr. laganna bætist:

Í reglugerð má ákveða, að þeir, sem hljóta uppbót á elli- og örorkulífeyri samkv. 90. gr. laga um almannatryggingar frá 1971, verði undanþegn­ir afnotagjöldum fyrir síma.“

„Má ákveða“ — af hverju segir í lögunum að það megi ákveða, ef það er skylda. Þá kann ég ekki lagamál að skilja ef það er skylda að fram­kvæma það sem ráðh. „má ákveða“.

Ég hef áður hér á hv. Alþ. gert grein fyrir þessu máli og hvað hefur valdið því, að ekki hefur verið talið fært að framkvæma það. Rök­studdi ég það með áliti sérfróðra manna þar um og tel, eins og fram kom í áliti þeirra, að það sé betra að koma þessum málum fyrir sameigin­lega og hjá einni stofnun, en ekki fara að láta þessa og hina stofnunina afgreiða sína þætti, enda eru þetta stofnanir sem verða að lifa á eigin tekjum, og ríkissjóður er því eðlilegri aðili til þess að standa straum af slíkum framkvæmd­um heldur en þessar stofnanir, því að þeim er ekki ætlað að standa fyrir tryggingabótum eða öðru slíku. Það er annar aðili sem á að gera það.

Ég verð líka að gera athugasemd við það, að ef vinnubrögð hv. Alþ. eiga að vera með þeim hætti að afgreiða þáltill. eins og þessa án nefndarathugunar, t. d. þar sem í er síðari liðurinn, með leyfi hæstv. forseta: „Einnig ályktar Alþ. að fela ráðh. að beita sér fyrir því, að aldrað fólk og öryrkjar fái verulegan afslátt við kaup farmiða með almenningsfarartækjum á landi, á sjó og í lofti.“ Nú skulum við segja að það fari svo, að ráðh. takist ekki að koma þessu í fram­kvæmd, hér er um farartæki að ræða sem eru ekki á vegum ríkisins, þá yrði komið hér á hv. Alþ. og ráðh. meðhöndlaður á þann hátt, að viljaleysi og illgirni ein réði þar verkum ef hann færi ekki að fyrirmælum Alþingis. Ef á að af­greiða svona mál án þess að n. þurfi um að fjalla, þá finnst mér hv. Alþ. verða að fara að gá að afgreiðslu mála.

Ef svo á að fara að vísa þessu máli, sem er stílað á samgrh., til heilbr.- og trn., þá er það náttúrlega allt annar þáttur, þá heyrir það ekki samgrh. lengur til og þá er málið komið í annan farveg og getur ekki orðið mál samgrn. Ég held að hv. þm. veriði nú aðeins að gæta sín og vill­ast ekki af leið. Það var þess vegna sem okkur, þessum fjórmenningum, fannst eðlilegast að yrði fjallað um þessi mál sameiginlega af öllum þess­um aðilum sem við höfum ákveðið að gera.

Varðandi hitt, sem um þetta hefur verið sagt að öðru leyti, get ég vísað til rökstuðnings míns í svari við fsp. um þetta mál. Ég tel að það, sem má ákveða í reglugerð, sé ekki fyrirskipun, heldur leyfi um að mega gera hluti. En við athugun á málinu hafa komið upp þau vandkvæði sem hafa komið í veg fyrir framkvæmdina.