28.04.1977
Efri deild: 67. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 3867 í B-deild Alþingistíðinda. (2824)

208. mál, byggingarlög

Eggert G. Þorsteinsson:

Herra forseti. Ég vil eins og aðrir ræðumenn, sem þegar hafa tekið til máls um þetta frv., taka skýrt fram að ég fagna að sjálfsögðu framkomu þess, enda hefur það hlotið langan og vandaðan undirbúning. Ég fagna þeim ákvæðum sérstaklega sem eflaust eru með stærstu viðurkenningum er lamaðir og fatl­aðir hafa til þessa fengið vegna sérstöðu sinnar í íslenskri löggjöf með ákvæðunum sem fram koma í 4. gr. frv.

En eitt af meginverkefnum þeirrar mþn., sem hér er að skila störfum í formi frv., mun þó hafa verið um V. kafla frv. sem er algert ný­mæli í íslenskri byggingarsögu og hefur sína kosti og galla. Þó er erfitt að spá um gallana annað en það sem maður getur farið nærri um í ljósi þeirrar reynslu sem fengin er af skipun þessara mála á undanförnum árum.

Það hefur töluvert verið yfir því kvartað af almenningi, sem í byggingarframkvæmdum stendur hverju sinni, að þurfa að eiga við tvo eða jafnvel þrjá og fleiri byggingarmeistara um ábyrgð á tilteknum atriðum eða framkvæmdum byggingarinnar. Hér er sá kostur valinn, sem mun vera erlend fyrirmynd, að gera einn aðila ábyrgan, þ. e. a. s. byggingarstjórana. Þetta hefur þá kosti að viðkomandi húsbyggjandi á að geta leitað sama réttar síns hjá þessum eina og sama manni, en ekki, eins og áður var eða nú er, tveimur eða fleiri byggingarmeisturum.

Í sambandi við það form, sem í gildi er enn um byggingarmeistaraábyrgðina á því sem miður fer, hefur jafnvel gengið svo langt, að menn hafa legið árum eða jafnvel áratugum saman í gröf sinni þegar dánarbú þeirra hafa verið lög­sótt fyrir galla á byggingu sem komið hafa fram eftir svo og svo mörg ár. Um þessa ábyrgð vilja byggingarstjórarnir, en þar munu eiga frumkvæði að arkitektar og verkfræðingar og jafnvel tæknimenntaðir menn umfram venjulegt iðnskólanám, einnig eiga nokkurn hlut að máli. Þar er kjarninn með fyrirmynd erlendis frá í þessu efni. Mér finnst eðlilegt að reynt sé að fara nýjar leiðir í þessu efni, og á það legg ég mikla áherslu, að mjög rækilega verði vandað til þeirrar ábyrgðar og hún skýrt mörkuð, að byggingarstjórarnir, sem sett eru hér ákveðin menntunarskilyrði um, axli þar með í raun og veru þá ábyrgð sem til er ætlast með lögum og nánar skal útfærð í reglugerð, — þeir axli hana á svo ótvíræðan hátt að húsbyggjendur þurfi ekki að vera þar í neinum vafa að hverjum á að snúa sér. Þar á ég við það, að byggingarstjórarnir geti ekki fleytt af sínum bökum yfir á bök samstarfsmanna sinna þeirri ábyrgð sem sýnilega er ætluð þeim með orðalagi V. kafla þessa frv., það verði eins skýrt markað og í mannlegu valdi stendur að undan þessari ábyrgð geti þeir ekki skotist. Þeir hafa óskað eftir þess­ari skipan, og það er því eðlilegt að fullnæg­ingu þeirra óska fylgi sú krafa almennings, sem nú stendur og mun væntanlega um ókomin ár standa í byggingarframkvæmdum, að geta snúið sér ótvírætt og með fullum rétti að svonefndum byggingarstjóra hverrar byggingar. Eigi umrædd­ir byggingastjórar hins vegar að koma til við­bótar núgildandi fyrirkomulagi, þá er aðeins verið að bæta einni silkihúfunni við og auðvitað að auka byggingarkostnað.

Vandamálin við útfærslu þessa kafla koma svo fram, eins og þegar hefur verið minnst á í umr., þegar kemur til hinna dreifðu byggða, enda mun ásókn þeirra manna, sem mest hafa sóst eftir að fá þennan kafla inn, fyrst og fremst miðast við þéttbýlustu staðina. Þar er mesta atvinnu­vonin og mestu möguleikarnir til framtíðar­starfa og mannlegt frá þeirra sjónarmiði að miða óskir sínar við hin nýju viðbótarstörf eingöngu eða að mestu leyti a. m. k. við störf á þéttbýlustu svæðunum. En í dreifbýli er engu minni ástæða til vandaðra og vel undirbúinna bygg­inga. Og þó að vinna þar gefi kannske ekki alveg eins mikið í aðra hönd og hún gefur á þéttbýlli svæðunum, þá verður að gera þar sömu kröfur, og sér í lagi það sem hv. síðasti ræðu­maður minntist á, 7. landsk. þm., að síðar meir komi ekki fram þeir ágallar á byggingum úti á landi, sem geta nánast e. t. v. verið óbætanlegir vegna skorts á nauðsynlegum undirbúningi bygginganna, og að tryggilega verði fyrir því séð, að það sé ekki verið að lána út á nein annars flokks hús úti á landi, þ. e. í öðrum gæðaflokki en hús í þéttbýlinu, en ábyrgð byggingarstjóra komi þar til í jafnríkum mæli og á hinum þéttbýlli stöð­um.

Ég legg á þetta áherslu vegna þess, að það var stundum talað um það á árdögum Húsnæðismálastofnunarinnar að við, sem þar áttum þá sæti, værum of linir í kröfum um teikningar og nauðsynlegar kostnaðaráætlanir, laushentir á lán með jafnófullkomnum undirbúningi og þar var oft að sjálfsögðu. En þá gátum við með góðu móti borið fyrir okkur, að skortur var almennt í landinu, ekki aðeins úti á landi, heldur og hér á þéttbýlli stöðunum, á sérhæfðu fólki til þess­ara starfa. En með tilkomu lagasetningar í anda V. kafla þessa frv. verður ekki lengur undan því vikist að sama regla verði látin gilda um land allt, enda nú mun meira framboð á slíku vinnu­afli heldur en var fyrir nálega 20 árum. Ég legg á það áherslu, að við förum ekki inn á þá braut að gera mismunandi kröfur til bygginga, hvort sem þær eru í þéttbýli eða strjálli byggðum landsins. Mesta áherslu af öllu legg ég þó á það, að reglugerðin, sem um er rætt í V. kafla, verði svo skýr og ótvíræð að þeir, sem leita þurfa réttar síns vegna framkominna galla á bygg­ingum, verði ekki í neinum vafa um hvaða aðilar þeir eiga að snúa sér að og menn megi í friði hvíla í gröf sinni, hvað þá að dánarbú þeirra geti verið í hættu stödd, ef einhverjir gallar koma fram mörgum árum síðar. En þessa ábyrgð virðast byggingarstjórarnir eiga að taka á sig. Og það verður að vera alveg skýrt og ljóst öll­um þeim sem byggja, að til þeirra eigi húsbyggjendur að snúa sér ef fram komi gallar sem ekki verða séðir við lúkningu byggingarinn­ar. Þeir, sem taka gjald fyrir eftirlit og ráða tilhögun framkvæmda, verða jafnframt að standa undir þeirri ábyrgð fjárhagslega og eiga ekki að geta komið henni yfir á aðra, ef um útgjöld er að ræða.