28.04.1977
Efri deild: 67. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 3870 í B-deild Alþingistíðinda. (2826)

208. mál, byggingarlög

Halldór Ásgrímsson:

Herra forseti. Ég hef ekki haft aðstöðu til að fara nákvæmlega yfir þetta frv., en vildi gera örstutta aths. við V. kafla. Það er ljóst að það er þessi kafli sem e. t. v. skiptir mestu máli í sambandi við þær breytingar sem verða. En hitt er svo annað mál, að ekki er ljóst í öllu hversu miklar þær breyt­ingar verða. M. a. er óljóst hvaða réttindi og skyldur byggingarstjórar skulu fá. Það skal ákveðið í reglugerð. Það hefði að mínum dómi verið æskilegra að það hefði legið ljósar fyrir þegar við lagasetninguna, en ég geri mér hins vegar ljóst að það þarf að fást ákveðin reynsla í þeim efnum.

Það stendur í 17. gr., að byggingarstjóri skuli ráða iðnmeistara í upphafi verks í samráði við eiganda eða samþykkja ráðningu þeirra. Ég vil leyfa mér að fara þess á leit, að það yrði kannað hvort ekki sé nægjanlegt að byggingarstjóri samþykki ráðningu iðnmeistara, því að mér finnst á allan hátt eðlilegra að eigendur annist ráðn­ingu iðnmeistara sjálfir ef þeir óska eftir því. Og það er nú svo með iðnmeistara, að þeir hafa ákveðin réttindi og ákveðnar skyldur og eiga að vera hæfir til að uppfylla þær kröfur sem þau réttindi skapa þeim, þannig að það ætti í sjálfu sér hver einasti iðnmeistari að vera hæfur til þess verks. Hins vegar er eðlilegt að byggingar­stjóri samþykki ráðningu þeirra með tilliti til þeirrar ábyrgðar sem hann hefur á verkinu í heild. En ég er dálítið hræddur við þetta ákvæði, að byggingarstjóri skuli í reynd fá mestu um það ráðið hverjir þessir iðnmeistarar verða. Mér finnst eðlilegt að það sé fyrst og fremst í hönd­um eigenda.