28.04.1977
Efri deild: 69. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 3871 í B-deild Alþingistíðinda. (2839)

233. mál, ráðstafanir til að draga úr tóbaksreykingum

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Enn þá síður vil ég tefja afgreiðslu málsins en hv. þm. Jón Sólnes. Ég vil aðeins vitna í ummæli hans í ágætri ræðu í gær, þar sem hann varaði okkur mjög eindregið við því að taka okkur endilega norð­menn og finna til fyrirmyndar í afstöðu okkar til tóbaks- og áfengismála. Ég hygg að þessi aðvörun hans sé enn þá í fullu gildi. Eins og hann kom nú eiginlega inn á hérna áðan, er ekk­ert fremur ástæða til þess fyrir okkur að taka okk­ur norðmenn til fyrirmyndar þegar þeir hætta að gera það sem e. t. v. var rétt, heldur en að taka þá til fyrirmyndar þegar þeir fara kannske að gera það sem er skakkt.

Ég veit ekki, ég hef ekki kynnt mér það nógu vel, að vísu er ég búinn að lesa þessa grein sem hv. þm. Jón Sólnes vitnaði hér í, þessa frásögn, en mér er ekki ljóst hvernig á því stendur að norska Stórþingið hefur samþykkt í báðum þd. að afnema bann við útstillingu á tóbaki í búðar­gluggum. Mér kemur í hug að þetta gæti staðið í einhverju sambandi við það, að afl hins frjálsa framtaks hefur fremur farið vaxandi í Noregi hin síðustu missiri.