28.04.1977
Efri deild: 71. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 3874 í B-deild Alþingistíðinda. (2848)

161. mál, heimild til að selja Húseiningum hf. húsnæði Tunnuverksmiðju ríkisins á Siglufirði

Frsm. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Fyrir nokkrum árum var stofnað á Siglufirði fyrirtækið Húseiningar hf., sem hefur það hlutverk að framleiða einingar í hús þannig að húsið er flutt í þessum einingum á byggingarstað og síðan má reisa það á örskömmum tíma og er þá húsið fullbúið. Að vísu hafa verið stofnuð hér á landi fleiri fyrirtæki sem gegna svipuðu hlutverki, en þó mun þetta vera fyrsta fyrirtækið sem verksmiðjuframleiðir einingar af þessu tagi og getur þess vegna boðið húseiningar á mjög hagstæðu verði. Að vísu er einn galli á verðlagningu húsa frá þessari verksmiðju, og hann er sá að söluskattur er að fullu lagður á framleiðsluna, sem er öfugt við það sem gildir um hús sem byggð eru á byggingarstað. Veldur þetta því, að verksmiðjan hefur ekki getað boðið jafnhag­kvæmt verð á húseiningum og þyrfti að vera ef hún hefði fullkomlega jafna samkeppnisaðstöðu við hús sem byggð eru á viðkomandi bygg­ingarstað. Er þetta eitt af því sem þarf að leið­rétta í löggjöf, þannig að verksmiðjur af þessu tagi hafi ekki þennan bagga á sér. En þetta var nú útúrdúr.

Þetta fyrirtæki hefur starfað nú um nokkurra ára skeið og framleiðsla þess hefur farið jafnt og þétt vaxandi, og þetta er eitt af þeim fyrir­tækjum sem átt hafa þátt í því að Siglufjörður er nú loksins að ná sér að fullu eftir erfiðleikaár síldarleysisins, eftir það áfall sem bærinn varð fyrir þegar síldin hætti að veiðast og hætt var að vinna hana þar. Þetta fyrirtæki var á sínum tíma stofnað með mikilli aðstoð og fyrirgreiðslu opin­berra aðila og þá einkum Framkvæmdastofnunar ríkisins og því var til bráðabirgða komið fyrir í húsnæði Tunnuverksmiðja ríkisins, en Tunnu­verksmiðjurnar hafa ekki starfrækt verksmiðju sína á Siglufirði um nokkurra ára skeið.

Nú er hins vegar síld farin að veiðast aftur, eins og kunnugt er, og getur að sjálfsögðu komið að því hvenær sem er, að talið verði skynsam­legt að hefja tunnuframleiðslu hér á landi að nýju. Af þessum ástæðum hefur fyrirtækið ekki getað tryggt sér húsnæði Tunnuverksmiðja ríkis­ins til frambúðar, ekki getað fengið nema mjög skamma leigusamninga um það húsnæði, enda þótt allt sé í óvissu um hvort nokkur tunna verði framleidd á Siglufirði jafnvel þótt tunnufram­leiðsla hefjist hér á landi, því að allt eins er líklegt að sú framleiðsla yrði staðsett einhvers staðar annars staðar á landinu, nær síldarmiðum. Af þessum ástæðum hefur verið fast á það sótt, að Tunnuverksmiðjur ríkisins geri þetta mál upp við sig, hvort þær ætli að nota þetta húsnæði til tunnuframleiðslu eða ekki, og selji húsið Húseiningum ef niðurstaðan verður neikvæð, sem allar líkur eru á.

Þess skal getið, að bæði bæjarráð Siglufjarðar og verkalýðsfélagið Vaka eru meðal þeirra aðila sem hafa mjög mælt með því að húsnæði Tunnuverksmiðjanna verði selt.

Af þessum ástæðum fluttu fjórir þm. Norðurl. v. frv. um þetta efni í samráði við mig sem á sæti í annarri deild en þeir og gat ekki verið meðflm. að þessu frv. Það er nú komið til okkar í Ed., og er skemmst frá að segja að fjh.- og viðskn. mælir eindregið með því að frv. verði sam­þykkt. Til viðbótar er aðeins rétt að ítreka, að n. hafði undir höndum bréf frá verkalýðsfélag­inu Vöku, þar sem mjög eindregið er óskað eftir því að frv. verði samþykkt, og einnig bréf frá bæjarráði Siglufjarðar og bæjarstjórn. Að öðru leyti sé ég ekki ástæðu til að fjölyrða um þetta mál. N. mælir eindregið með því að það verði samþykkt.